25.02.1950
Neðri deild: 52. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (1853)

119. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Af sérstökum ástæðum fór það fram hjá mér í gær, að málið var á dagskrá, og ég var því ekki viðstaddur, þegar það var tekið fyrir. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Eins og hv. þm. vita, ná heimildir þessar til greiðslu úr ríkissjóði ekki lengra en til 1. n. m., þannig að næstkomandi miðvikudag getur ríkissjóður ekki innt af hendi venjulegar kaupgreiðslur og annað aðkallandi, ef þessi heimild er ekki framlengd. Ég vænti þess vegna, að takast megi að afgreiða þetta frv. út úr þessari hv. d. í dag, svo að það gæti þá að minnsta kosti komizt í gegnum hv. Ed. á mánudag.