27.04.1950
Neðri deild: 89. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í C-deild Alþingistíðinda. (2627)

141. mál, verðjöfnun á benzíni

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég held, að tilgangurinn, sem ætlað er að ná með þessu frv., sé góður. Þannig að ef það væri hægt að selja benzín úti um land við lægra verði, þá væri það gott. En ég álít það, sem farið er fram á í þessu frv., óheppilega aðferð til þess að leysa þetta. Og ef þetta yrði gert á þann veg sem í frv. greinir, þá held ég, að þetta yrði einn þátturinn í hinni gífurlegu útþenslu á ríkisbákninu og kostnaðinum við það, sem við eigum nú að glíma við. Það kemur ekkert fram í grg. frv. um það, hvað þetta fyrirtæki mundi kosta, sem á að taka 10 aura af benzínverðinu fyrir hvern lítra af benzíni og yfirskoða hvern reikning, sem kæmi víðs vegar að í þessu sambandi utan af landi. Það segir sig sjálft, að þarna yrði að búa út eyðublöð í tugatali og senda í tugþúsundatali eintök af þeim út um allt land, og til þess þyrfti stórt skrifstofubákn hér í Reykjavík og til að yfirskoða alla reikninga í þessu sambandi. Mér þætti ekki ósennilegt, að það þyrfti forstjóra eða a. m. k. fulltrúa fyrir þessari skrifstofu og fína skrifstofu handa honum og vafalaust tíu til tuttugu fasta skrifstofumenn hér í Reykjavík til þess að framkvæma þetta. Þetta væri ákaflega góð bót fyrir okkur nú, þegar atvinnuleysi er annars fyrir hendi. En ég er á þeirri skoðun, að réttara væri fyrir okkur að fjölga sem mest fólki í hagnýtri vinnu, en ekki við þau störf, sem fram fara á þeim skrifstofum, sem hafa verið að spretta hér upp á síðari árum á vegum þess opinbera og eru að þenja sig svo út, að ég er viss um, að við eigum heimsmet í fjölda skrifstofa, miðað við íbúafjölda. Ég er sannfærður um, að það er hægt að ná nákvæmlega því sama og á að ná með þessari skriffinnskuaðferð eftir frv., og það gegnum verðlagsákvarðanir, sem knúnar væru fram hjá seljendunum. Ég dreg stórlega í efa, að það þyrfti að hækka benzínverðið um einn einasta eyri nokkurs staðar á landinu til þess að hægt væri að selja það lægra verði, en nú er til þeirra, sem hæst verð borga fyrir það hér. Hér eru þrjú olíufélög, sem selja benzín úti um landið, sem hafa komið upp feikilega dýru dreifingarkerfi. Olíufélögin Shell og B. P. hafa tanka við þjóðvegina, sem eru þar settir svo þétt, að ekki eru nema 30 eða 40 km á milli tanka. Og þrátt fyrir þetta er Esso búið að raða sínum tönkum við alla þjóðvegina líka. Ef farið er um þjóðvegina, sér hver maður, að tankarnir eru allt of þétt þar, og hefði verið leikur fyrir ríkisstj. að segja við olíufélögin: Þið getið notað tankana sameiginlega. — En í stað þess er þetta benzíndreifingarkerfi þanið út í hreinni vitleysu. Og ekki nóg með það, heldur er allt flutningakerfið líka í þrennu lagi. Ég er viss um, að ef verðlagsyfirvöldin neituðu að taka tillit til þess idiótiska fyrirkomulags, sem er á dreifingunni á benzíninu, og miðuðu verðlagsákvörðun sína við það, að þarna væri unnið að af viti og hagsýni, þá væri hægt að lækka verðið á benzíninu meira en það, að hægt væri að selja allt benzínið á sama verði og það nú er selt í kaupstöðunum. En mér finnst það fásinna, ef Alþ. ætlar að stofna til aukningar á ríkisbákninu með því að koma þessu á, sem í frv. greinir, til þess að deila út þessum 10 aurum, sem teknir væru af benzíninu til verðjöfnunar. Það eru komnar þegar nógu margar skrifstofur hér hjá okkur. Og ég skil ekkert í mönnum að hugsa svona skammt, þegar þeir horfa upp á, hvernig fjárl. þenjast nú út. Hver einasta skrifstofa þenst út í kostnaði um 10% á ári. Í fyrra ætlaði hv. fjvn. að segja við ríkisstofnanir og ríkisfyrirtækin, að þau skyldu ekki þenja sig meira út. Þá risu upp samtök, undir forustu ríkisstj., sem tókst að brjóta þessa sparnaðarviðleitni hv. fjvn. niður. Og hv. flm. þessa frv. virðast ekki vera á þeirri skoðun, að ríkisbáknið hjá okkur sé of stórt. En það er hægt að ná sama tilgangi eins og ná á með þessu frv. með útreikningi eins manns, sem hvort sem væri er í starfi.