05.01.1950
Neðri deild: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Út af ræðu hv. þm. S-M. (EystJ), þar sem hann skorar á ríkisstj. að gera grein fyrir þeim till., sem hún ætlar að bera fram til þess að leysa þann vanda, sem þjóðin á nú við að stríða, þá vil ég árétta, að það er tæplega eðlilegt, að ríkisstj. skýri frá því meðan það mál er enn í deiglunni. En það er hins vegar um þrjár leiðir að velja. Í fyrsta lagi er það niðurgreiðsluleiðin, í öðru lagi er það verðhjöðnunarleiðin, í þriðja lagi er það gengisfelling. Ríkisstj. hefur ekki farið dult með það, að hún er andvíg niðurgreiðslunum. Þegar sú leið er frá tekin, er því um tvær leiðir að velja. Og ég vil segja hv. 1. þm. S-M. og öðrum það, að ríkisstj. vinnur nú að því með sérfræðingum sínum að gera samanburð á þessum tveimur leiðum, og jafnskjótt sem þessum samanburði er lokið og hann liggur fyrir, þá mun ríkisstj. ekki hika við að bera fram sínar till.