04.01.1950
Sameinað þing: 13. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í D-deild Alþingistíðinda. (3743)

73. mál, tunnuverksmiðja á Akureyri

Áki Jakobsson:

Síldarútvegsn. hafði á sínum tíma gert till. um samning við Siglufjörð og Akureyri til þriggja ára. Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að ýmsir þeirra, sem hafa keypt tunnur, hafa kvartað yfir ásigkomulagi þeirra, ekki af því að þær hafi ekki verið góð vara, heldur stafar það af því, að aðstaðan hjá tunnuverksmiðjunni á Siglufirði er þannig, að hún hefur oft orðið að geyma tunnur úti í tugatali, en við það hljóta tunnurnar að verða ljótar og ekki eins útgengilegar, og hefur þetta orðið til þess, að eftir eins til tveggja ára geymslu úti hefur orðið að endurbæta meira og minna hverja einustu tunnu, sem er fljótt að koma í peningum. Þessu hefur verið kvartað yfir og er ein ástæðan til þess, að íslenzku tunnurnar eru ekki samkeppnisfærar. — Það er misskilningur, að íslenzku tunnurnar séu fjór- til fimmfalt dýrari, en erlendar tunnur, þó að þær séu til muna dýrari, og eru það ýmis atriði, sem eru þess valdandi. Má þar t. d. nefna hina erfiðu aðstöðu hjá verksmiðjunum í sambandi við hina eilífu flutninga á efni úr einu lagerhúsinu í annað og eilífa tilflutninga úr einu húsinu í annað jafnóðum og það er flutt. Á Siglufirði verða þessir flutningar að fara fram á bílum, og ef ófærð er, þá á sleðum, og er þessu komið fyrir í lagerhúsum á síldarvertíðinni. Þar eru borguð lagerhús fyrir geymslur, en þessir flutningar eru alldýrir, og þar að auki eru vextir bankanna mjög háir, því að þetta er allt keypt upp á lán, og eru vextirnir 6–6½%. Og þar sem við höfum svo fengið þessi síldarleysisár undanfarið, hefur stundum farið svo, að þegar tunnurnar eru loksins seldar, eru liðin 2–3 ár síðan þær voru fluttar inn, og með þeim háu vöxtum, sem bankarnir hafa tekið, eru vextirnir orðnir margar krónur á hverja einustu tunnu. Auk þess er fyrirkomulagið á vélunum í tunnuverksmiðjunum bæði á Siglufirði og Akureyri þannig, að þær eru mannfrekari en þær þyrftu að vera, ef þeim væri haganlegar fyrir komið. Ég tel, að í þessu liggi höfuðástæðan til þess, að íslenzk tunnuframleiðsla er dýrari en sú útlenda, og þess vegna hygg ég, að leggja beri áherzlu á að koma upp fullkominni verksmiðju. Ég held, að yfirleitt hafi mjög vel til tekizt með smíði tunna og afköst í verksmiðjunni á Siglufirði, og að mínu áliti hafa verið framleiddar þar tunnur, sem fyllilega eru samkeppnisfærar við erlenda tunnusmíði, þannig að við þurfum ekki að óttast, að íslenzkur vinnukraftur geti ekki með jafnódýru móti framleitt þessar tunnur, ef aðstaðan er þannig, að þarna eru heppileg vinnuskilyrði og ekki óeðlilega miklir vextir dregnir úr þessari framleiðslu af hendi bankanna. Ég hef sem sagt enn þá óbreytta skoðun á því, að íslenzk tunnusmíði geti verið samkeppnisfær við þá erlendu. Hún er þegar orðin samkeppnisfær hvað gæði snertir og einnig hvað verð snertir, ef þannig er búið um hnútana, að hún geti starfað við sömu skilyrði og tunnuverksmiðjur erlendis, sem keppa við okkur. Það, sem hefur háð þessum tunnuiðnaði okkar mest, er síldarleysið. Það er náttúrlega mesta áfallið, sem þessi iðnaður hefur fengið. Það gefur að skilja, að eftir því sem tunnuframleiðslan verður minni, eftir því hefur íslenzki tunnuiðnaðurinn minni skilyrði til þess að verða samkeppnisfær við erlendan tunnuiðnað, þegar þar við bætist, að hann hefur verri aðstöðu að því er það snertir, hvað verksmiðjurnar eru ófullkomnar. En ég hygg, að það megi gera frekari ráðstafanir til þess að auka söltunina í þessu mikla síldarleysi, sem verið hefur undanfarin 5 ár, og er okkur mjög nauðsynlegt, að sú litla síld, sem veiðist, verði hagnýtt á þann hátt, sem veitir mesta atvinnu og mestan gjaldeyri til þjóðarinnar. Við ættum að geta aukið stórkostlega framleiðslu okkar á saltsíld, en saltsíldin íslenzka er mjög eftirsótt vara hvarvetna í Evrópu. Það hafa ýmsar þjóðir aukið síldveiðar hér við land, og ein ástæðan til þess er sú, hve lítið framboð hefur verið á síld hér, svo lítið, að þegar hún hefur komið á erlendan markað, hefur hún verið margseld í smáslöttum um Evrópu á geipiverði. Það hefur verið svo lítið af henni á markaðinum, og er það ein ástæðan fyrir því, að erlendar þjóðir hafa sótt meira í það að framleiða saltsíld sjálfar og fara á veiðar hér en ef við hefðum getað boðið fram meira af saltsíld okkar, þannig að ég tel, að það væri stórt atriði til verndar fiskimiðum okkar, að við gætum framleitt meira sjálfir og komið meiru á markaðinn af saltsíld okkar.

Að því er snertir Akureyri, þá var beinlínis ráð fyrir gert, að þar yrði komið upp nýrri tunnuverksmiðju á þessari sömu lóð og gamla tunnuverksmiðjan var á, með geymslum fyrir tómar tunnur, og miðað við það, að á Akureyri yrði framleitt það magn, sem þyrfti á söltunarstöðvunum við Eyjafjörð. Niðurstaða þeirra rannsókna, sem fram fóru á því að flytja með bílum tunnur frá Akureyri, var á þá leið, að með því fengjust mjög ódýrir flutningar með vörur til söltunarstöðva við Eyjafjörð, og þess vegna varð ég mjög hissa á því, þegar tunnuverksmiðjur ríkisins hættu við að endurbyggja tunnuverksmiðjuna á Akureyri. Það var beinlínis ráð fyrir því gert, þegar tunnuverksmiðjan var keypt, með hagstæðum kjörum, að þarna færi tunnuframleiðsla fram. Og ég held, að þetta sé mjög óhyggilegt, því að það er ekki reynslan erlendis, að heppilegt sé að reka tunnuverksmiðjur í mjög stórum stíl. Með 20–30 þúsunda tunnuverksmiðju sé hægt að hafa alla þá hagkvæmni í rekstrinum, sem hægt er að koma við, þó að hún sé stærri. Verksmiðjan þarf ekki að vera stór til þess að reksturinn geti verið hagkvæmur. — Ég ætla svo ekki að hafa um þetta fleiri orð. Eins og fram kemur í grg., hníga öll rök að því, að þessi till. hv. 4. landsk. verði samþ.