22.03.1950
Sameinað þing: 36. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í D-deild Alþingistíðinda. (3917)

127. mál, innheimta á sölugjaldi bifreiða

Flm. (Finnur Jónsson) :

Herra forseti. Það hefur komið í ljós við umr. hér á Alþ., að ekki mun vera innheimt sölugjald af bifreiðum, sem komið hafa hingað til landsins og gengið kaupum og sölum, áður en þær voru skrásettar. Um þetta hafa ekki fengizt frá hæstv. ríkisstj. alveg skýr svör. En eftir upplýsingum, sem ég hef fengið annars staðar frá, þá mun þetta gjald ekki hafa verið innheimt, þrátt fyrir það að það hafi komið til orða hjá hæstv. ríkisstj., að ástæða væri til þess að innheimta sölugjaldið af þessum bifreiðum ekki síður en öðrum, sem gengju kaupum og sölum og metnar væru af þar til settum matsmönnum. Ég veit ekki, hvernig á því stendur, að þetta sölugjald hefur ekki verið innheimt. Ekki heldur vil ég kasta steini að neinum fyrir það. En ég tel að hér hafi orðið nokkurt misrétti, sem beri að leiðrétta, auk þess sem ríkissjóður hefur tapað á þessu nokkru fé. — Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. Ég tel, að það liggi alveg ljóst fyrir. Það á að vera auðvelt að innheimta þetta gjald, vegna þess að svo til öll leyfi, sem gefin voru út fyrir bifreiðum síðan lög þessi öðluðust gildi, hafa verið gefin út á nafn og bifreiðar hafa verið skrásettar, þegar þær hafa komið til landsins, sömuleiðis á nafn. Þannig að með athugun á skjölum bifreiðaeftirlitsins og viðskiptaeftirlitsins á að vera hægt að komast að því, hvaða bifreiðar hér er um að ræða.

Ég vil svo óska, að þessari umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.