23.01.1951
Neðri deild: 54. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

81. mál, ríkisreikningurinn 1947

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Árn., yfirskoðunarmaður ríkisreikningsins, hefur talað hér langt mál, m.a. út af því, sem ég hef sagt um þetta mál. Hann sagði, að endurskoðunin væri háð hinni umboðslegu endurskoðun, en það er endurskoðunardeild fjármálaráðuneytisins, og hún sæi um hina tölulegu endurskoðun, en þeir menn, sem Alþ. kysi til þessara starfa, væru einnig tölulegir endurskoðendur, en þó aðallega krítískir endurskoðendur. En til hvers ætlast Alþ. af þessum endurskoðendum? Það ætlast til þess, að þeir hafi ríkisreikninginn alltaf tilbúinn á næsta ári, þ.e. að ríkisreikningur fyrir árið 1950 sé tilbúinn endurskoðaður fyrir þingi 1951, og hv. 1. þm. Árn. þarf ekki að vera að afbaka það, sem ég sagði. Hann veit það ósköp vel, að nú á annan áratug hefur reglulegt þing ársins byrjað að haustinu, þó að í lögum sé svo kveðið á, að það skuli hefjast 15. febr., og hann veit, að till. okkar miðast við, að þing hefjist að haustinu. Og hv. þm. veit vel, að nú á þessu þingi verður samþ., að reglulegt þing fyrir 1951 komi saman í haust. En hvað er átt við með krítiskri endurskoðun? Það er átt við það, að endurskoðendurnir eigi að sannfæra sig um það, að í sambandi við fjárreiður ríkisins hafi vilji Alþ. verið framkvæmdur og engar greiðslur farið fram af hálfu ríkissjóðs nema heimild væri fyrir því. En mér leiðist að þurfa að segja það, að hinir þingkosnu krítísku endurskoðendur hafa ekki staðið í stykkinu. Tóku hv. þm. eftir því, sem hv. 1. þm. Árn. sagði, að ríkisreikningurinn fyrir 1948 væri tilbúinn, en eftir væri að endurskoða um 60 ríkisstofnanir? — Satt að segja óska ég, að þessi hv. þm. hafi mismælt sig, vegna þess að enginn maður getur í raun og veru tekið mark á þessu plaggi, ef svo er ekki.

Annar endurskoðandinn, hv. fyrri þm. Árn., segir: Þið fáið þetta til samþykktar, en 60 ríkisstofnanir hafa þó enn ekki verið endurskoðaðar. — Það er að vísu vitað, að skrípaleikurinn í endurskoðun ríkisreikninganna hefur verið afskaplegur, en að hann hafi komizt á þetta stig, hefur engum manni dottið til hugar; og mér hefði aldrei dottið til hugar, að það ætti eftir að verða hlutskipti þessa þm. að gera slíka játningu hér á Alþingi og þá, sem hann viðhafði hér áðan. Mér þykir of vænt um þennan þm. til þess, að ég geti unnað honum þessa vafasama hlutskiptis.

Alþingi kýs krítíska endurskoðendur til þess að unnið sé skv. samþykkt, gerðri fyrir 5 árum, og ætlast til þess, að þeir sjái um, að breytingarnar á starfskerfi endurskoðunarinnar yrðu settar á, en svo hefur ekki orðið enn. Í stað þess játa endurskoðendurnir syndir sínar fyrir Alþingi og segja: Við látum ríkisreikningana fyrir árið 1948 koma nú, þótt 60 ríkisstofnanir hafi ekki verið endurskoðaðar. — Þetta er dálagleg mynd og ég held stórt spor aftur á bak, því að þetta hefur aldrei átt sér stað. Og þótt þetta hafi komið fyrir í þetta sinn, finnst mér, að sjá verði um, að þetta geti ekki endurtekið sig. En ég býst við, að ríkisreikningarnir fyrir árið 1948 verði teknir til sérstakrar athugunar, og endurskoðendurnir geta þá gert fyllri grein fyrir því, hvers vegna þeir leyfa sér að láta reikningana fara til Alþingis til samþykktar án þess að 60 ríkisstofnanir hafi verið endurskoðaðar. Eða ætlast endurskoðendurnir til, að Alþingi leggi blessun sína yfir reikningana og segi: „Þeir eru réttir, og við skulum samþ. þá og láta kíkinn fyrir blinda augað og gleyma þessum 60 stofnunum“? — En það er alls ekki hægt að gera þá kröfu til okkar.

Ég veit, að hv. 1. þm. Árn. er bæði að öllu góðu kunnur og allur af vilja gerður til þess að bæta úr þessu, og því fyrirgefst honum mikið. En ef það er rétt, sem hann sagði hér áðan, að ríkisreikningarnir fyrir 1948 væru lagðir hér fram til samþykktar af hinum umboðslegu endurskoðendum án þess að 60 ríkisstofnanir hafi verið endurskoðaðar, þá hefur hann gengið lengra en honum sæmir.