05.03.1951
Efri deild: 83. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (1821)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. virtist undrandi yfir brtt. minni og hv. 4. þm. Reykv. og hélt því fram, að með henni væri verið að blanda óskyldu máli inn í það mál, sem hér væri til umræðu. Í því sambandi vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvort hann blandi ekki sjálfur saman óskyldum málum. Mér sýnist ekki mikill skyldleiki milli lántöku til togarakaupa, lántöku handa Búnaðarbankanum og lántöku til stofnunar iðnaðarbanka, svo mér finnst það koma úr hörðustu átt, þegar hæstv. ráðh. talar um, að verið sé að blanda inn óskyldu máli með þessari brtt. Það eru lánsheimildir, sem hér er um að ræða, og það er aðalatriðið. Hér er um að ræða lánsheimildir til ákveðinna atvinnuvega eða fyrirtækja, og þá koma til athugunar þau rök, sem ég færði fram fyrir nauðsyn þess að taka lán til byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum. Þá sýnist mér, að hér sé um hliðstætt mál að ræða og spurning, hvort það sé ekki jafnnauðsynlegt, en það álít ég. Hæstv. ráðh. sagði, að það gegndi öðru máli. Það sé að vísu svo til ætlazt, að fyrir þetta lán verði byggð íbúðarhús í sveitum, en þó ekki nema fyrir nokkurn hluta þess. Í því sambandi sagði hæstv. ráðh., að ekki væri nóg að hafa útihús í sveitum, fólkið þyrfti líka íbúðarhús til þess að búa í. Þetta er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðh. En þá vil ég spyrja: Er hægt að búa í Reykjavík án íbúðarhúsa? Til þess að framleiðslan í Reykjavík geti gengið dugir ekki að hafa lagerhús, frystihús eða verksmiðjuhús. Það þarf líka verkamenn, og þeir þurfa að búa í húsum. Ég gat ekki skilið ræðu hæstv. ráðh. öðruvísi en svo, að þeir, sem búa í kaupstöðum, þurfi alls engin íbúðarhús. Um nauðsyn á auknum lánum til bygginga þarf ekki að ræða. Það er nú svo, að það er talið af kunnugum, að til þess sé ætlazt, að ekki verði leyft að byggja meira en 300 íbúðir á öllu landinu, en hins vegar er vitað, að þörfin hér í Reykjavík einni er a.m.k. 500–600 íbúðir. Svo segir hæstv. ráðh., að þetta sé tómt flómós. En þetta er ekkert flómós, heldur er um það að ræða, hvort hæstv. ríkisstj. teldi ekki rétt að taka meira lán en hér er gert ráð fyrir, til þess að byggja fyrir íbúðarhús í kaupstöðum landsins, m.ö.o., ágreiningurinn er um sjálft málefnið. Ágreiningurinn er um það, hvort þessu þingi beri skylda til að gera ráðstafanir til þess, að hægt sé að byggja nauðsynleg íbúðarhús í kaupstöðum landsins.