02.02.1951
Efri deild: 61. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (2462)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég skal hafa það aðeins örstutta athugasemd, sem ég geri við þessar umr. í tilefni af ummælum hæstv. dómsmrh., sem hann setti samt fram þannig, að hann var ekki alveg viss um, hvort það væri hann eða ég, sem væði í villu og svima, og vil ég aðeins segja það, að núna er aðeins til ein vísitala, og það er vísitala framfærslukostnaðar, og hún er 128 stig. Og það er eftir vísitölu framfærslukostnaðar sem kaupið skyldi taka breyt., þegar þeir samningar voru gerðir, sem nú eru í gildi hjá stéttafélögunum, og kaup á að borgast eftir samkv. núgildandi samningum og einnig eftir nýrri samningum.. Hitt fer aftur ekki á milli mála, að sú vísitala, sem miðað var við, þegar jólalögin voru á ferðinni, var 123 stig, þá leiðrétt frá því að fjárlögin voru afgr. úr 122 stigum. Síðan Alþ. hafði þá viðmiðun á vísitölu framfærslukostnaðar í 123 stigum þann 19. des., þá er komið í ljós, að vísitala framfærslukostnaðar er nú 128 stig, og þá er þarna orðin nú 5% hækkun á viðurkenndri vísitölu á einum mánuði, sem bendir til 30% vísitöluhækkunar á hálfu ári, ef framhaldið yrði eftir þessu. Og þá eru það ekki litlir hagsmunir, sem teknir væru af verkalýðnum í landinu með því að fella niður skyldur hæstv. ríkisstj. til þess að bæta laun að fullu samkvæmt ákvæðum gengislækkunarl. frá 1. ágúst 1951. Frá þessu hefur verið hlaupið. En við álítum, að hæstv. ríkisstj. ætti að vera svo ærukær að standa við gefin loforð, sem þar að auki hafa verið lögfest. Ef það hins vegar væri svo, eins og hæstv. dómsmrh. vildi halda fram, að breyt. í janúar væri aðeins 1% frá því í des. og maður gæti gert sér vonir um líkt á næsta hálfa ári til 1. ágúst 1951, þá væri það ekki mikið fé, sem þeir þyrftu að offra, og ég held, að þjóðfélagið mundi ekki velta um koll, þó að verkalýðnum yrði greitt eftir fullri vísitölu þann tíma. En það er gefinn hlutur, að hæstv. ríkisstj. óttast hina háu vísitölu á næstu mánuðum, og þess vegna skal loka þeirri leið, að vísitalan geti hækkað mánaðarlega.