31.01.1951
Sameinað þing: 34. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í D-deild Alþingistíðinda. (3817)

143. mál, útvegun heilnæmra fæðutegunda

Flm. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Ég flyt hér till. á þskj. 349, ásamt hv. 8. þm. Reykv., hv. 5. landsk. þm. og hv. þm. Vestm., um útvegun heilnæmra fæðutegunda. Í till. er farið fram á og ríkisstj. falið að hlutast til um það, að Náttúrulækningafélagi Íslands verði veitt nægileg innflutnings- og gjaldeyrisleyfi til innflutnings á ómöluðu korni, ósigtuðu mjöli, grænmeti, þurrkuðum ávöxtum o. fl. Ef það væri svo, að það væri að verða að veruleika, að við byggjum við algert verzlunarfrelsi, þá er þessi till. orðin óþörf, og betur að svo reyndist.

Það er alkunna, að Náttúrulækningafélag Íslands, með Jónas Kristjánsson fyrrum alþm. í fararbroddi, hefur unnið merkilegt starf í þá átt, að fólk ætti þess kost að neyta, að hans áliti, heilnæmra fæðutegunda, svo sem meira grænmetis, ómalaðs korns, ósigtaðs mjöls, ávaxta o. s. frv. Því er ekki að neita, að fjöldamargir, karlar og konur, í landinu hafa fellt sig við slíkt matarræði og óska að geta notið þess. Það er ljóst, að það er vaxandi áhugi fyrir þessu máli, og er augljós vottur þess hin mikla aðsókn, sem var að þeirri matvælasýningu, sem Náttúrulækningafélag Íslands stóð að hér í borginni á s. l. hausti, en hana sóttu yfir 4000 manns á þeim 3 dögum, sem hún var opin. Það er ekki hægt að hafa á móti þessu máli á þeim grundvelli, að það mundi kosta meiri gjaldeyri, ef breyting yrði á manneldismálum þjóðarinnar í þá átt, sem till. fer fram á, því að nýtt grænmeti, svo sem hvítkál, gulrætur o. fl., er ódýrt í innkaupum, og ómalað korn kostar engan aukagjaldeyri, þar sem það kæmi í stað annarrar mjölvöru, sem inn er flutt. Félaginu hefur gengið illa að fá innflutning þessara matvörutegunda, sem hér um ræðir, og leitar því aðstoðar ríkisvaldsins um fyrirgreiðslu á því. Það er ekki aðeins fólk í Reykjavík, sem bíður þennan félagsskap að greiða fyrir sér á þennan hátt, heldur fólk víðs vegar um landið,en félagið hefur aðeins að litlu leyti getað orðið við þeim óskum.

Hér í grg. till. er birt tafla, sem sýnir, hvaða meginbreytingar hafa orðið á innflutningi ýmissa kornvörutegunda frá 1873–1949. Skal ég geta um helztu niðurstöður, sem þessi tafla sýnir. Árin 1873–79 eru flutt inn 43 kg af heilum rúgi á mann, en nú er ekki neitt flutt inn af heilum rúgi. Sömu árin, 1873–79, er flutt inn ½ kg af hveitimjöli á mann; nú er það orðið 58 kg á mann. Af byggi er þá flutt inn 13,5 kg á mann, en nú er það horfið af innflutningsskránni. Það er auðséð af þessu, að fram undir síðustu aldamót er ómalað korn aðaluppistaðan í neyzluvörum landsmanna, að því er kornvöruna snertir; það er heill rúgur, hrísgrjón og bygg. Nú orðið er hveitið aðalkornvörutegundin, sem við neytum. Hveitiinnflutningurinn hefur breytzt úr ½ kg í 58 kg á mann. Það er óefað alveg rétt, að mikill hagnaður væri að því, ef hægt væri að flytja inn meginmagnið af þeirri kornvöru, sem við neytum, ómalað. Hér á Alþ. hefur því máli áður verið hreyft og hlotið afgreiðslu innan þingsalanna, en ekki orðið framkvæmt, að komið yrði upp kornmylnu eða kornmylnum, sem möluðu eftir hendinni allt það korn, sem þjóðin neytir, svo að fólkið ætti þess kost að fá nýja, óskemmda matvöru. Ómalað korn má geyma árum saman, án þess að það skemmist. Aftur á móti geymist malað korn mjög skamman tíma, því að það verður fyrir skemmdum við geymslu, þótt geymslustaðurinn sé góður. Við það að flytja kornið ómalað inn í landið yrði þessi matvörutegund vafalaust stórum ódýrari. Þá væri kornvaran flutt inn í tankskipum til landsins og yrði síðan dælt upp í geyma, eða tanka, og auk þess væri sá ávinningur, að vinnan við mölunina kæmi inn í landið. En stærsta atriðið við þetta er það, ef þjóðin fengi við þetta heilnæma fæðu, og aðalgróðinn yrði þá vafalaust í því, að þetta yrði til þess að bæta heilsufar þjóðarinnar og þetta hefði í för með sér aukin afköst vinnandi manna, minni fjarvistir frá störfum, minni sjúkrahúsakostnað, minni lyfjakaup og á ýmsan annan hátt spöruð útgjöld og minni gjaldeyrisþörf. Þetta, sem hér er lagt til, er aðeins lítilræði í þessa átt, en stefnir þó að réttu marki. Endanlega markið er, að við komum upp okkar eigin kornmylnu eða kornmylnum og flytjum inn þá kornvöru, sem þjóðin neytir, ómalaða.

Ég vil vænta þess, að þessi till. fái góðar undirtektir og hljóti afgreiðslu fyrir þinglok. Sams konar till. var borin fram á síðasta þingi og hlaut þá ekki afgreiðslu. Till. fer fram á lítils háttar fyrirgreiðslu og aðstoð við starf þeirra ágætu manna, sem heldur kjósa að velja sér holla fæðu til neyzlu en skemmda fæðu, og undir þá viðleitni sýnist mér auðsætt að hæstv. Alþ. beri að taka og ríkisvaldið veiti þá fyrirgreiðslu, sem um er beðið.