15.01.1952
Neðri deild: 59. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (1738)

121. mál, ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkisjóðs til vinnuheimila

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. V-Húnv. fyrir þau svör, er hann hefur gefið við þeim spurningum, er ég bar fram um þetta mál. Svör hans voru skýr og ótvíræð og báru þess vott, að ekki sé sá áhugi á málinu, sem ætla mætti og æskilegur væri. Mér skildist á ræðu hv. þm., að fremur væri átt við öryrkjaheimili en elliheimili í frv. þessu. En ég skil það svo, að framlög samkvæmt því eigi að ganga jöfnum höndum til elliheimila og öryrkjahæla. Hitt er rétt, að í almannatryggingalögunum er ekki tekið fram, hvort þessi hæli ættu að vera öryrkjahæli eða með öðru sniði. En mér hefur skilizt, að það væri framkvæmdaratriði. Ég hefði þó viljað líta svo á, að ákvæði þeirra l. næðu til þess, sem að er stefnt með þessu frv. Mér virðist, að það leiki nokkur vafi á því, hvort skorti á fé til þess að hefjast handa á þessu sviði eða öðrum ástæðum sé að kenna, að ekki hefur orðið úr framkvæmdum, en ég vona þó, að þetta góða málefni fái verðugar undirtektir hv. þdm. og nái fram að ganga.