18.01.1952
Efri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í B-deild Alþingistíðinda. (1914)

96. mál, menntaskólar

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hér hafa verið haldnar langar ræður um þetta mál, sérstaklega af einum hv. þm., en það kom lítið nýtt fram frá því, sem þessi hv. þm. sagði í fyrra og þá var svarað. Ég ætla ekki að svara hinni löngu ræðu hans, en aðeins minna á eitt eða tvö atriði.

Hæstv. menntmrh. sagði eitthvað á þá leið, að hér væri ekki verið að framlengja nein réttindi, sem menntaskólarnir hefðu nú, og þá sérstaklega menntaskólinn á Akureyri, því að þessar deildir hefðu ekki starfað þar í vetur, að minnsta kosti ekki opinberlega. Þetta er rétt, en veturinn í vetur er líka eini veturinn, sem svo hefur verið ástatt, að gagnfræðadeild hafi ekki verið við menntaskólann. Í þessu sambandi vil ég benda á það, að með þeim breyt., sem gerðar voru á skólakerfinu með nýju fræðslulögunum, voru að minnsta kosti hlunnindi, sem bæði Akureyringar og aðrir Norðlendingar hafa haft, tekin af þeim.

Möðruvallaskóli, sem stofnaður var árið 1880, var gagnfræðaskóli, og hann var stofnaður af ríkinu og rekinn fyrir landsfé. Þegar svo þessi skóli var fluttur til Akureyrar, hélt hann áfram sem gagnfræðaskóli og var rekinn fyrir landsfé. Svo þegar stofnaður var menntaskóli á Akureyri, var lærdómsdeildin sett ofan á gagnfræðaskólann. Það er því óneitanlegt, að með því að svipta skólann á Akureyri þessari gagnfræðadeild, þá er réttur eða hlunnindi tekin frá Akureyri og Norðlendingum, sem þeir hafa haft í 70 ár. Og það er nú þannig, að mönnum finnst, að þeir hafi meiri rétt til að halda því, sem þeir hafa hlotið, heldur en að fá ný réttindi.

Það hefur verið bent á það, að á Akureyri sé ágætur gagnfræðaskóli. (GJ: Þá hafa Norðlendingar ekki verið sviptir neinum rétti.) Jú, því að gagnfræðaskóla Akureyrar ber ekki skylda til að taka við nemendum frá öðrum landshlutum. (HV: Jú, jú.) Að minnsta kosti eru Akureyringar látnir sitja fyrir. Og vegna þessara gagnfræðaskóli hefur verið á Akureyri, sem öllum stóð opinn, þá hefur engin hreyfing orðið í Eyjafirði til þess að koma upp héraðsskóla. Og þó að unglingunum sé vísað á gagnfræðaskóla Akureyrar, þá er það þannig, að þar er engin heimavist, svo að við nám í þeim skóla þyrftu utanbæjarmenn að hafa húsnæði og fæði úti um bæ á Akureyri.

Hvað það snertir, sem hv. 6. landsk. talaði mikið um, að nemendahópurinn, sem kæmi í þessa skóla, væri svo ólíkur að aldri, þetta væru óþroskaðir unglingar annars vegar og hins vegar hálffullorðið fólk, þá vil ég segja það, að það er ekki lengra síðan en svo, að ég man vel eftir því, þegar latínuskólinn hér í Reykjavík var óskiptur, og þá komu í 1. bekk 32 ára piltar, þeir sem höfðu góða aðstöðu til náms, og einnig tvítugir menn. Í þessum skóla voru nemendurnir allt frá 12 ára og upp í þrítugt. Það kom meira að segja fyrir, að menn útskrifuðust þaðan um fertugt. Það valt á ýmsu í þessum skólum, en ég held, að það hafi aldrei valdið neinum óyfirstíganlegum erfiðleikum, hvað nemendurnir voru misjafnir að aldri. Ég er að vísu aðeins leikmaður í þessum sökum, en ég hef þó fengizt við kennslu, að vísu aðeins barna og unglinga, aldrei við svokallaða æðri kennslu. Mér sem leikmanni er ómögulegt að gera mikið úr þessu. Að minnsta kosti hefur reynslan sýnt það, að það er hægt að hafa saman í bekk 12 ára drengi og tvítuga menn og það með gáðum árangri. Mér þykir sízt hæfa að tefja tímann með því að þrátta um þetta og ætla því ekki að fara frekar út í það.

Ég kvaddi mér aðallega hljóðs út af ummælum hæstv. menntmrh., en út af ummælum hæstv. ráðh. vildi ég leyfa mér að bera fram fyrirspurn. Það er slæmt, að hæstv. ráðh. skuli vera vikinn af fundi, en fyrirspurnin var út af þeim ummælum hans, að hann væri ekki sannfærður um, hvort hann mundi nota þessa heimild, ef frv. yrði samþ., hvorki frv. óbreytt né frv. eins og það kemur frá meiri hluta n. — Fyrirspurnin er sú, hvort hæstv. ráðh. ætli að nota þessa heimild, ef frv. nær fram að ganga. Hvað hann ætlar að gera, skiptir hér öllu máli, en ekki, fyrir hverju hann hefur sannfæringu. Það þyrfti að fá fulla vissu um þetta á meðan frv. liggur hér fyrir hv. deild, því ef heimildin verður aldrei notuð, þá er þýðingarlaust að samþ. frv. sem heimild, þá þarf að breyta því í bein fyrirmæli. Ég sé ekki ástæðu til að fresta umr. nú, en þetta verður að taka til athugunar.