21.01.1952
Efri deild: 67. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (2095)

179. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Í dag hélt fjhn. fund um þetta frv. og gerði um það nál. Afgreiddi hún málið frá sér og var nál. sent til prentunar, en er ókomið. N. hefur athugað frv. í dag á fundi sínum og var sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt. Ég held, að ég fari hér rétt með nál., því að ég kann það víst utan að, en það kemur rétt strax úr prentun.

Um frv. sjálft er það að segja, að það er lítils háttar breyting á núgildandi tollskrá, þannig að það eru tvær vörutegundir, sem lækka skal tollinn á. Í grg. fyrir frv. er þess ekki getið, hverju þessi tolllækkun nemi, heldur aðeins, að lækka skuli aðflutningsgjald af leir og hinu svo kallaða hexan. Mér hefur verið tjáð, að hexan þetta sé notað við lýsisbræðslu. Áður var vörumagnstollurinn 7 aurar á hvert kg, en nú er lagt til, að hann fari ofan í 2 aura á hvert kg, en verðtollurinn, sem var 8%, falli niður. Þetta er innihald frv. Það er hvorki mikið né margbreytt, en þetta er talið nauðsynlegt og í samræmi við önnur þau efni, sem eru notuð til slíkrar framleiðslu sem lýsisvinnslu. Virðist þetta frv. aðallega vera til þess að samræma ákvæði tollskrárinnar, þannig að eitt efni sé ekki tollað hlutfallslega miklu hærra en annað, sem er ætlað til svipaðra nota.

N. var öll sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt. — Sé ég svo ekki ástæðu til að tala frekar um þetta mál. Þetta er aðeins til samræmingar á tollskránni, en virðist ekki hafa mikil áhrif á ríkissjóð, en er til bóta fyrir þá, sem þurfa að greiða tollinn.