09.10.1951
Efri deild: 5. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í C-deild Alþingistíðinda. (2903)

23. mál, vegalög

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Út af því, sem hv. 1. þm. N-M. sagði um vegamálin, vil ég benda á, að þessi hugmynd er ekki ný. Ég man að vegamálastjóri lagði sjálfur til, að hún yrði tekin upp. Skal ég ekki á þessu stigi málsins mótmæla því, að þetta sé athugað, en í því sambandi vil ég leyfa mér að benda á, að mjög margar sýslur í landinu hafa ekki fengið þessa vegi. Hér er þó till. um að mismuna þeim héruðum, sem alltaf hefur verið neitað um fé til vega yfirleitt, og þau héruð, sem liggja næst Reykjavík, séu látin ganga fyrir.

Vegirnir voru lagðir fyrir miklu léttari farartæki en nú eru. Fengu héruðin framlögin til að byggja góða vegi og brýr, sem gátu tekið umferðina eins og hún var þá. Á meðan var hinum héruðunum neitað um framlag til vega, og fengu þau ekki einu sinni kerruvegi, heldur urðu að reiða allt á hestum. Þegar ekki var hægt að standa á móti því að fá framlag til vega fyrir létt farartæki, þá kom kapphlaup milli þessara héraða, og vildu þau þá fá stærri vegi, sem hægt væri að fara með þung farartæki um. Endurbyggðu þau ekki einungis vegi, heldur og brýr líka. Það var eytt t. d. millj. kr. í Ölfusárbrúna, vegna þess að ekki nægðu þar 5 tonna vagnar. heldur 8 tonna langferðabifreiðar, meðan hinum héruðunum var neitað um að fá brýr, sem taka 2–4 tonna vagna. Þannig er, ef tekið er nú upp það kerfi, að ríkið borgi fyrir þessi héruð, og það á sama tíma og þau héruð fá mikið fé til að endurbyggja brýr og vegi á kostnað ríkissjóðs.

Ég er sammála hv. 1. þm. N-M. um það, að ekki taki að leggja veg heim á hvern bæ, ef ætlazt er til þess, og geri ég þá ekki ráð fyrir, að vegamálastjóri geri till. um það. En auk þess er erfitt að draga línu t. d. milli þess, hvað yrði aðalvegur frá Patreksfirði að Rauðasandi. Ég segi ekki, að það sé aðalvegur, þó að verið sé að tengja byggðina, sem hefur möguleika til að auka landbúnaðarframleiðslu, við þorp, sem hefur orðið 1000 manns og hrópar eftir mjólk. Þetta kemur ekki til greina að hafi áhrif á þessa till. Ég geri ráð fyrir, að allar þessar till. verði sendar til vegamálastjóra til athugunar, og gerir hann svo að sjálfsögðu sínar till. í málinu. Ég efast um, vegna þeirrar stefnu, að þá yrði farið að flokka vegina eins og rætt hefur verið um, þegar það á að ganga út yfir þau héruð, sem mestum órétti hafa verið beitt. Það er réttlætiskrafa, að þær sýslur, sem fengið hafa litla vegi, séu ekki látnar koma inn hlutfallslega, heldur fái stærri skerf hjá vegamálastjóra. Sumar sýslur hafa fengið svo mikið af vegum, að þær teygja þá upp á fjöll.

Ég álít, að hv. samgmn. eigi að athuga þetta mjög gaumgæfilega.