10.01.1952
Efri deild: 56. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í C-deild Alþingistíðinda. (3031)

152. mál, húsrými fyrir geðsjúkt fólk

Haraldur Guðmundsson:

Ég er alveg sammála hv. frsm. heilbr.- og félmn. um það, að það er mikil þörf á að búa svo um hnútana, að hægt sé að koma mönnum, sem skyndilega verða óðir, þegar í stað á öruggan stað. Ég hef því ásamt öðrum í heilbr.- og félmn. viljað taka þátt í að flytja þetta frv., sem hér liggur fyrir, en ég lét þess jafnframt getið við aðra nm., að ég teldi ákvæði frv. tæplega fullnægjandi í þessu efni, að jafnframt þyrfti að leggja fyrir ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess, að húsnæði á Kleppi yrði aukið, svo að unnt yrði að taka við þeim sjúklingum, sem Kleppur yrði skyldaður til að taka við samkv. frv., og mun ég leyfa mér síðar að bera fram brtt. um þetta. Nú er það svo, að hvorki ég né aðrir nm. geta gert sér glögga grein fyrir því, um hve marga nýja sjúklinga gæti verið að ræða, sem heimtað yrði að Kleppur tæki við, ef þetta frv. yrði að lögum. Starfsmenn atvmrn. hafa þó talið, að það muni ekki vera nema fá tilfelli á ári. Ég hygg, að þessar upplýsingar séu ekki fullnægjandi, því að þarna munu ekki taldir aðrir en þeir, sem beinlínis hefur komið til kasta sveitarfélaganna að sjá um, en vitað er, að margir sjúklingar hafa dvalizt á heimilum sínum og heimilisfólkið hefur reynt að kljúfa þau vandræði, sem af þeim hafa skapazt. Það er alveg rétt, að sjúkrahús landsins og þó einkum landsspítalinn hafa reynt að hliðra svo til, að þau gætu tekið við sjúklingum, sem hafa átt líf sitt undir því, að þeir kæmust strax á spítala. En ég veit ekki, hvort hægt er að færa þessa reglu yfir á Kleppsspítalann án þess að raska starfsemi hans. Að minnsta kosti er ómögulegt að neita því, að það er harðneskjulegt að leggja það fyrir forstöðumann hælisins, að hann víki burt segjum 2–3 sjúklingum, ef jafnmargir þurfa nauðsynlega að fá þar víst, samkvæmt ákvæðum þessa frv. Ég hygg það mundi verða mjög erfið aðstaða, sem yfirlæknirinn yrði settur í, ef til slíks kæmi. Ég álít því varla gerlegt að samþ. þetta frv., án þess þá um leið að leggja drög að því, að húsnæði hælisins yrði aukið svo, að jafnan yrði hægt að verða við þeim kröfum, sem skapast af ákvæðum frv., án þess að víkja burt sjúklingum af hælinu. Ég er að öðru leyti samþykkur þessu frv., en mun leyfa mér að bera fram brtt. við það síðar. Ég get hugsað mér, að ég mundi orða brtt. svo: Á eftir 2. gr. kemur ný gr., svo hljóðandi: Ríkisstj. skal gera ráðstafanir til að auka við húsnæði hælisins með viðbótarbyggingu eða á annan hátt, svo að jafnan verði hægt að taka við þeim sjúklingum, sem eiga kröfu á hælisvist samkv. ákvæðum þessara laga. — Það er ekki útilokað, að hægt yrði að koma upp húsnæði til bráðabirgða. Ég gæti hugsað mér, að það þyrfti ekki nema 10–12 nýja klefa til að mæta ákvæðum þessa frv.