11.01.1952
Efri deild: 57. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í C-deild Alþingistíðinda. (3037)

152. mál, húsrými fyrir geðsjúkt fólk

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég er ekki frsm. n. og get því ekki svarað fyrir hana, en ætla að segja frá því, að þetta frv. samdi, að ég ætla, skrifstofustjórinn í félmrn. og ég tel sennilegt, að hann hafi haft samráð um það, án þess að ég viti það, við einhvern af þeim, sem málið varðar, og ég geri ráð fyrir því, að hann hafi borið sig saman við þá, sem þessi mál hafa með höndum. Annars gerði hv. frsm. við 1. umr. grein fyrir því, hver eru tildrög málsins, sem sé, að fyrir n. lá frv. um stofnun öryrkjahælis, sem þeir aðilar, sem það snertir töldu ekki heppilegt að gengi gegnum þingið eins og gengið er frá því, og þess vegna var snúið sér að því að flytja sérstakt frv. um drykkjumannahæli og þetta frv., sem hér liggur fyrir.

Eins og hv. dm. muna, þá tók ég það fram við 1. umr., að ég teldi, að það þyrfti að gera breyt. á þessu máli. Ég er hæstv. ráðh. sammála um það, að ekki sé nægilegt að vísa á pláss á Kleppi, sem ekki er til, og ég boðaði þá brtt., sem ég — með leyfi hæstv. forseta — skal lesa upp; hún er á þessa leið:

„Á eftir 2. gr. komi ný grein, svo hljóðandi: Ríkisstjórnin skal, ef þörf krefur, gera ráðstafanir til þess að auka við húsnæði geðveikrahælisins á Kleppi, með viðbyggingum eða á annan hátt, svo að jafnan sé hægt að veita viðtöku án tafar sjúklingum þeim, sem um ræðir í 1. grein.“

Ég gerði einnig grein fyrir því þá, að till. væri svona orðuð með það fyrir augum, að ef ekki þætti fært að byggja við Klepp, þá næði heimildin til þess, að húsnæði væri á þeim stað, þar sem samband væri við Klepp, til þess að leysa þörfina í þessum efnum. Ég er sammála hæstv. ráðh. um það, að nauðsyn sé að setja inn slík ákvæði sem þessi, ef frv. er samþ.

Ég hirði ekki að endurtaka það, sem ég sagði við 1. umr. Hvað snertir flausturslegan undirbúning frv., þá má lengi um það deila, og eru skiptar skoðanir um það. Ég fer að halda, að hæstv. ráðh. hafi lesið frv. flausturslega, þegar hann segir, að það þurfi ekki læknisvottorð til þess, að sveitarstjórn geti sent menn á Klepp. Það er tekið fram í 1. gr., að hælinu sé ekki skylt að veita móttöku öðru fólki en því, sem skyndilega brjálast og er að dómi héraðslæknis hættulegt umhverfi sínu eða ætla má að fari sér að voða. Um þetta fólk, sem brjálast skyndilega og er hættulegt sér og öðrum, þarf að liggja fyrir vottorð frá héraðslækni. Hæstv. ráðh. segir, að þar með sé ekki sagt, að það fólk eigi heima á Kleppi. Hvar á brjálað fólk frekar heima en þar? Ég fæ ekki betur séð en það sé sá staður, sem eðlilegt er að leitað sé til, og það sé einmitt þar, sem svona fólk á að vera. Ég vil því mælast til, að brtt. sú, er ég hef afhent hæstv. forseta, sé samþ. og frv. sjálft að henni samþykktri.