23.10.1952
Neðri deild: 13. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

5. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Þeir ræðumenn, sem um þetta mál hafa talað, þ.e.a.s. hv. 2. þm. Reykv., sem er frsm. minni hl. fjhn., og hv. 5. landsk. þm., hafa látið alveg hjá liða í þessum umr. að vekja athygli á því, að bæði Byggingarsjóður og Ræktunarsjóður fá nú töluverð framlög frá ríkinu ár hvert, sem þessir sjóðir þurfa ekki að endurgreiða, og hafa því meiri möguleika, en ella mundi til þess að taka á sig nokkurn vaxtahalla. Ef hins vegar kæmi í ljós, að það væri óhjákvæmilegt að veita þessum sjóðum meiri fjárhagslegan stuðning, til þess að þeir gætu gegnt þeim hlutverkum, sem þeim eru ætluð, heldur en nú er gert, og menn vildu gera till. um slíkt, þá væri vitanlega æskilegt, að það fylgdi með, hvernig ætti að afla fjár til þessa eins og annars, sem ríkið þarf að greiða. Þessir hv. þm. hafa hins vegar ekki gert neina grein fyrir því, með hverjum hætti ríkið eigi að afla fjár til að greiða þennan vaxtamun, og var þess kannske raunar naumast að vænta frá þeim heldur, að slíkar till. kæmu fram, en þó er það svo, að þetta þarf að fylgjast að.

Eins og ég hef áður sagt, þá telur meiri hl. n. ekki rétt að svo stöddu að ákveða það, að ríkið taki á sig þennan vaxtamun, og væntir þess, að d. geti á það fallizt að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir.