29.10.1952
Sameinað þing: 8. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í D-deild Alþingistíðinda. (2768)

91. mál, réttarrannsókn á starfsemi S.Í.F.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ekki er það ætlun mín að blanda mér í viðskipti þeirra hv. 1. landsk. þm. og hæstv. ráðh., en þær umr., sem orðið hafa hér um þetta sérstaka mál og meðferð þess, gefa mér tilefni til þess að bera fram örfáar aths. um framkvæmd réttarvörzlunnar í landinu.

Það hefur komið fyrir að undanförnu nokkrum sinnum, að sérstakir rannsóknardómarar hafa verið skipaðir til að fara með einstök mál í stað þess að fela hinum föstu embættismönnum í dómarastöðum meðferð málanna, eins og venjulegast er. Þannig var hér, að af einhverjum ástæðum fól hæstv. ráðh. ekki reglulegum dómara í Reykjavík að rannsaka þetta mál, heldur skipaði hann til þess sérstakan setudómara, embættislausan lögfræðing. Ég hef fengið nokkra vitneskju um tök setudómarans á viðfangsefninu, og mér virðist helzt líta út fyrir, að hann hafi stöðugt verið með vettlinga á höndunum við verkið. Ef til vill hefur hæstv. ráðh. einnig komizt að þeirri niðurstöðu, að það væri rétt að láta hæstarétt athuga nánar um meðferð málsins og úrslit þess hjá setudómaranum, því að hann hefur, eins og upplýst er, áfrýjað því til hæstaréttar. Ég hygg, að ástæða væri til að láta fara fram ýtarlegri rannsókn á einstökum atriðum þessa máls, áður en á það væri lagður dómur endanlega. Hæstv. ráðh. hefur líka að undanförnu haft annan sérstakan dómara með umboðsskrá við rannsókn á öðrum stað. Ég átti hlut að því, að það var nokkuð rætt hér á þingi í fyrra um framkomu þess dómara og aðstoðarmanna hans, og skal það ekki endurtekið hér, en þar hefur verið beitt svo árásar- og ofsóknarkenndum aðferðum, að ég tel fráleitt, að nokkur embættismaður í fastri dómarastöðu hefði talið sér sæma að viðhafa þannig vinnubrögð, og hver sá, sem hefur kynnt sér að nokkru starfsaðferðir þessara tveggja setudómara og gert samanburð á þeim, hlýtur að sjá það mjög greinilega, að því fer fjarri, að menn séu jafnir fyrir lögunum í okkar þjóðfélagi. Hér þarf að verða breyting á. Sömu grundvallarreglum þarf að fylgja við rannsóknir mála, hver sem í hlut á. Að sjálfsögðu þarf að ganga að því með samvizkusemi og alvöru að finna það rétta í málum. Hvort tveggja er aðfinnsluvert, ef rannsóknardómarar ganga linlega að því að upplýsa mál, og ekki síður hitt, ef gerðar eru ofsóknarherferðir á menn og ef að nauðsynjalausu er beitt aðferðum, sem valda rannsóknarþola tjóni, fjárhagslega eða á annan hátt.