28.10.1952
Neðri deild: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í C-deild Alþingistíðinda. (3102)

101. mál, lánasjóður fyrir íslenska námsmenn erlendis

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Það hefur nokkuð verið rætt um það, að mjög æskilegt væri, að stofnaðir yrðu sjóðir til styrktar íslenzkum námsmönnum hér og erlendis, og í samræmi við þá skoðun var lögfest hér á þingi í fyrra frv. um lánasjóð stúdenta, sem fram kom fyrir áhrif stúdenta sjálfra, með því að þeir völdu þann kostinn að mynda sjóð úr tillögum ríkisins til styrktar stúdentum, m. ö. o. að endurgreiða styrkinn í stað þess að fá hann kvaðalaust. En á þennan hátt má mynda sjóð, sem á sínum tíma getur orðið öflug stoð fyrir námsmenn við háskólann.

Á síðustu fjárlögum var gerð sú athugasemd við fjárveitinguna til styrktar námsmönnum erlendis, að 275 þús. kr. af fjárveitingunni skyldi verða lagt fram sem lán handa námsmönnum. Þetta hefur verið framkvæmt á þann hátt, að mönnum, sem nám stunda erlendis, var veitt þetta fé til láns með lágum vöxtum og góðum greiðsluskilmálum, mjög svipað því, sem l. um lánasjóð stúdenta gera ráð fyrir. Með því að taka þannig nokkuð af þeim fjárframlögum, sem ríkið veitir til styrktar námsmönnum erlendis, og lána það, í staðinn fyrir að láta það af hendi kvaðalaust, er hægt að mynda á tiltölulega skömmum tíma nokkuð stóran sjóð, sem gæti komið að mjög miklu gagni fyrir þá menn, sem stunda nám erlendis, en hafa ekki sjálfir efni á að kosta sig.

Í þessu frv., sem hér er lagt fram, er gert ráð fyrir því, að þriðjungur þeirrar fjárhæðar, sem þingið leggur fram hverju sinni í þessu skyni, gangi í þennan sjóð. Ég tel, að þetta sé rétt leið, sem hér er verið að fara, og margir telja, að þetta sé heilbrigðari leið og komi að mörgu leyti að betri notum heldur en þær fjárveitingar, sem látnar eru af hendi kvaðalaust og án endurgjalds. — Að lokinni þessari umr. leyfi ég mér að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.