28.10.1952
Neðri deild: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í C-deild Alþingistíðinda. (3106)

102. mál, Háskóli Íslands

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér er flutt um breyt. á l. um Háskóla Íslands, er flutt samkv. beiðni háskólaráðs, í því skyni að veita nemendum háskólans nokkru meira aðhald í námi, en verið hefur. Það eru oft notuð orðin „akademískt frelsi“, þegar rætt er um nám við háskólann, og akademískt frelsi hefur af mörgum verið skilið þannig, að það veitti þeim, sem nám stunda við skólann, ótakmarkað frelsi til að ákveða sjálfir, hversu lengi þeir stunda þetta nám, og að hvorki ríkisvaldið né stjórnir skólanna eigi að taka sig fram um það að takmarka þetta frelsi að neinu leyti. Nokkur deila hefur verið um skyldu skólans á hendur nemendum að taka þátt í íþróttum. Ég held, að ekki séu margir af borgurum háskólans, sem hafa á móti þessu ákvæði. — Ég heyri, að það eru nokkrir stúdentar hér, sem telja það viðeigandi að gera háreysti á pöllunum. — En ég vil endurtaka, að það er ekki almennt, sem þessi urgur er í háskólastúdentum. Hins vegar hefur því verið haldið fram, að það væri skerðing á þeirra „akademíska frelsi“, að þeim sé gert að skyldu að stunda íþróttir, sem talið er yfirleitt í erlendum skólum aðalsmerki allra góðra háskólaborgara og ekki síður lagt upp úr því af nemendum, en háskólunum sjálfum, þeim sem taldir eru á hæsta menningarstigi, að menn taki almennt þátt í íþróttaiðkunum í skólunum. fIér hefur borið helzt til lítið á því, að háskólastúdentar skari mjög fram úr í íþróttum, að undanteknum fáum mönnum, svo að almennt getur það ekki talizt. Hins vegar verður það að teljast eðlilegt, að ríkið geri nokkra kröfu til þeirra manna, sem stunda nám við háskólann. Þjóðin leggur á sig miklar byrðar til þess að halda þessu námi uppi, og það er ekki nema eðlilegt, að þær kröfur séu gerðar til þeirra manna, að námið sé stundað af alúð og að fé, sem þjóðin ver í þessu skyni, sé ekki kastað á glæ og það sé ekki eftir duttlungum þeirra manna, sem námið stunda, hversu miklu fé þjóðin þarf að verja í menntun þeirra. — Ég skal ekki við þessa umr. orðlengja þetta frekar. Ég er reiðubúinn að taka þátt í frekari umr. um málið, ef ástæða verður til. Ég legg til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og menntmn.