18.11.1954
Efri deild: 19. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

12. mál, yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o. fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá var Alþfl. andvígur ákvæðum þessara laga um söluskattinn. Höfum við þrásinnis borið fram brtt. við frv. í þá átt, sem ég skal ekki hirða um að gera grein fyrir að þessu sinni. Ég mun þó ekki setja mig gegn því, að málið fari til nefndar og fái athugun þar.

En ég vil nota tækifærið þegar við þessa umr. og leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstvirts fjmrh., hvort hann hefur ekki hugleitt eða látið athuga breytingar á söluskattsfyrirkomulaginu í þá átt, að skatturinn yrði aðeins einn sinni á lagður, í staðinn fyrir að hafa það fyrirkomulag á, sem nú er, að sumar vörur verða margskattaðar, þannig að skatturinn getur komizt allt upp í 13%. Ég held, að ég muni það rétt, að þegar þetta mál var síðast til umr. hér í þinginu, þá hafi einhver ummæli fallið af hálfu stjórnarliða í þá átt, að eðlilegt væri kannske, ef söluskatturinn festist, að breyta fyrirkomulagi hans í þá átt, sem ég nú hef drepið á, að hann skuli aldrei tekinn nema einu sinni.