15.10.1954
Sameinað þing: 3. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

1. mál, fjárlög 1955

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hv. 8. landsk. þm. sagði hér áðan, að virðing Alþ. væri litil. Þessi hv. þm. virðist þó telja virðingu þingsins nógu mikla, því að svo augljóslega misbauð hann staðreyndum í ræðu sinni, að hún horfði ekki til virðingarauka fyrir þingið.

Fjárlögin eru tvímælalaust mikilvægasta málið, sem hvert Alþ. hefur til meðferðar. Þau grípa inn á öll svið þjóðlífsins og spegla ekki aðeins aðstöðu þjóðarinnar í efnahagsmálum og fjármálum almennt, heldur sýna þau einnig afstöðuna til menningarmála og framfaramála yfirleitt, bæði í andlegum og veraldlegum efnum. Þótt mörgum kunni að þykja fjárlög og fjárlagaumræður leiðinlegur tölulegur lestur, þá fer ekki hjá því, að þessar tölur snerta meira og minna hag hvers einasta þjóðfélagsborgara. Hallalaus ríkisbúskapur er óhjákvæmilegt skilyrði heilbrigðrar efnahagsþróunar í þjóðfélaginu. Miklar tekjur og góður efnahagur almennings er undirstaða góðrar afkomu ríkissjóðs.

Hins vegar getur verið góð afkoma hjá almenningi, þótt hagur ríkissjóðs sé slæmur, en slíkt ástand getur þó ekki blessazt til lengdar.

Hæstv. fjmrh. gerði í frumræðu sinni glögga grein fyrir ástandi og horfum um fjárhag ríkissjóðs bæði í ár og á næsta fjárhagsári. Hefur hann jafnframt gert grein fyrir öllum helztu breytingum frá fjárl. þessa árs, sem fram koma í fjárlfrv. fyrir árið 1955. Mun ég því ekki nema að mjög litlu leyti ræða um einstaka ]iði fjárlfrv., heldur verja þessum stutta tíma, sem ég hef til umráða, til þess að íhuga fjármálaþróunina síðustu árin og gera grein fyrir þeirri meginstefnu, sem við sjálfstæðismenn teljum þurfa að fylgja í sambandi við afgreiðslu fjárlaga.

Niðurstöðutala sjóðsyfirlits á fjárlfrv. fyrir árið 1955 er rúmar 497 millj. kr., og skortir þá aðeins tæpar 3 millj. í 1/2 milljarð. Má telja fullvist, að í meðförum þingsins hækki frv. svo, að fjárl. verði endanlega afgreidd með yfir milljarð kr. í heildarútgjöld og tekjur. Er það geysileg upphæð á íslenzkan mælikvarða, þótt að vísu viðskiptavelta þjóðarinnar árlega muni nú á þessu ári nema rúmum 2 milljörðum króna, eða 2 þúsund milljónum. Og þótt við séum farnir að verða vanir háum tölum, er ekki að undra, þótt marga sundli við að heyra slíkar upphæðir nefndar.

Síðustu árin hafa heildarniðurstöðutölur á sjóðsyfirliti fjárl. verið sem hér segir: 1952 382 millj., 1953 423 millj., 1954 446 millj. og á fjárlfrv. 1955 497 millj. 1953 hækkuðu fjárl. því um 41 millj., miðað við næsta ár á undan, 1954 var hækkunin 23 millj., og 1955 er hækkunin 51 millj. Raunveruleg hækkun fjárlfrv. nú miðað við yfirstandandi ár mun þó ekki vera nema um 34 millj., því að teknar eru í frv. sjálft nú a.m.k. 7 millj. kr., sem í fjárl. þessa árs eru í heimildagrein, og auk þess eru í útgjaldaáætlun fjárlfrv. nú 10 millj kr., sem ekki eru eyðslufé, heldur gert ráð fyrir að lagt verði til framkvæmdasjóðs ríkisins.

Það er raunar ekkert nýtt fyrirbrigði, að fjárl. hækki verulega frá ári til árs, því að sú hefur jafnan verið þróunin. Nokkur hækkun er jafnan eðlileg, því að með vaxandi fólksfjölda vaxa þarfirnar, og tekjurnar eiga þá einnig að vaxa, ef allt er með eðlilegum hætti. Verðbólgutímabil það, sem hófst upp úr 1940, hefur síðan valdið því, að fjárl. hafa hækkað mjög ár frá ári. Hefur mikið af þeirri hækkun verið lítt viðráðanlegt, en jafnframt hefur margvísleg umbótalöggjöf lagt nýjar kvaðir á ríkissjóðinn.

Þótt mörgum hafi að vonum vaxið mjög í augum hin mikla aukning ríkisútgjalda og þá um leið ríkistekna, þá má þó ekki álykta út frá þessum tölum einum, heldur verður að íhuga, hversu kvaðirnar, sem ríkið leggur á þjóðfélagsborgarana, eru þungar. Þótt ýmsar álögur ríkisins á þjóðfélagsborgarana hafi meira en tuttugufaldazt síðan 1939, er engum efa bundið, að hagur alls almennings í landinu er miklum mun betri nú en var fyrir 15 árum, jafnframt því sem félagslegt öryggi og menntunarskilyrði eru nú miklum mun betri en þá. Engu að síður er því ekki að leyna, að boginn er nú svo hátt spenntur, að engu má muna, að hann bresti.

Ein helzta orsök útgjaldahækkunar ríkissjóðs hefur fram á síðustu ár verið vísitöluhækkunin og þar af leiðandi hækkandi kaupgjald, því að laun í einu eða öðru formi eru mjög stór liður í útgjöldum ríkissjóðs. Nú hefur ríkisstj. hins vegar tekizt í rúmt hálft þriðja ár að halda vísitölunni í skefjum, þannig að verðlag og kaupgjald hefur lítið hækkað. Er þetta gleðilegur árangur af þeirri stefnu, sem mörkuð var með gengisbreytingunni árið 1950, þótt nú steðji að vísu að nýjar hættur, sem ósýnt er, hvaða afleiðingar hafa.

Þegar þess er gætt, að allt frá árinu 1952 hafa launaútgjöld ríkissjóðs tekið litlum sem engum breytingum, þá verður því ekki neitað, að nokkuð er uggvænlegt, hversu útgjöld ríkissjóðs hafa samt stórhækkað. Í því sambandi er þó þess að gæta, að baráttan fyrir þessu jafnvægi í efnahagsmálunum hefur kostað ríkissjóð allmiklar fórnir, sem bæði koma fram í auknum niðurgreiðslum á verði innlendra afurða og einnig á ýmsan annan hátt. Engu að síður er það alvarlegt íhugunarefni, hvort ekki sé með einhverju móti auðið að draga allverulega úr hinni árlegu útgjaldahækkun ríkissjóðs. Ég skal fúslega játa, að á þessu eru margvísleg vandkvæði og hægara um að tala en í að komast, eins og reynslan sýnir, því að á sínum tíma var eitt helzta árásarefnið á fjmrh. Sjálfstfl. hin háu fjárl., þótt fjárl. hafi þá verið miklu lægri en nú. Aftur á móti er það mikið efamál og raunar mjög ólíklegt, að tekjur ríkissjóðs haldi áfram að vaxa svo stórkostlega ár frá ári eins og þær hafa gert síðustu árin, og verður þá ekki um annað að ræða, hvort sem mönnum er ljúft eða leitt, en að draga saman seglin eða leggja ella á nýja skatta, sem flestum mun sýnast neyðarúrræði.

Helztu útgjaldaliðir fjárl., sem stöðugt hækka ár frá ári, enda þótt ekki verði launabreytingar, eru kennslumálin, sem hækka að meðaltali um 3 millj. á ári, félagsmálin, sem síðustu 4 árin hafa hækkað að meðaltali um rúmar 4 millj. á ári, heilbrigðismálin rúma 1 millj. á ári og vegamálin, sem fara sífellt hækkandi, einkum viðhaldsfé vegna lengingar þjóðvegakerfisins, og mun þó skorta mjög á, að hægt sé að halda vegunum í viðunandi horfi. Allt eru þetta útgjaldaliðir, sem hækka af eðlilegum ástæðum og eru flestir ákveðnir með sérstakri löggjöf. Hins vegar eru svo ýmsir fjárfestingarliðir, sem árlega nema stórum upphæðum. Virðist það sjálfsögð stefna að haga opinberum framkvæmdum nokkuð eftir atvinnuástandi í landinu yfirleitt og ekki megi a.m.k. draga vinnuafl frá framleiðsluatvinnuvegunum til slíkra framkvæmda. Er það tvímælalaust rétt stefna, sem á sinum tíma var mörkuð með stofnun framkvæmdasjóðs ríkisins og nú er aftur, þó að í smáum stíl sé, farið inn á í þessu fjárlfrv., að leggja til hliðar fé, þegar atvinnuástand er gott og tekjur ríkissjóðs miklar, til þess svo aftur að verja þessum varasjóði til framkvæmda ýmiss konar, þegar að þrengir með atvinnu. Því miður hafa þarfirnar og kröfurnar undanfarin ár verið svo miklar á hendur ríkissjóði, að enda þótt mikill tekjuafgangur hafi orðið, hefur ekki reynzt auðið að leggja það fé til hliðar til framkvæmda síðar meir.

Í fjárlfrv. nú er gert ráð fyrir miklum framkvæmdum á vegum ríkisins. Vafalaust er mikil þörf að hraða þessum framkvæmdum öllum af ýmsum ástæðum, en nokkuð sýnist þó tvisýnt, að hægt sé að vinna að þessu öllu auk hinna stórkostlegu byggingarframkvæmda einstaklinga og atvinnufyrirtækja, án þess að það leiði til verðbólgu í byggingariðnaði, sem virðist nú þegar vera yfirvofandi vegna skorts á faglærðum byggingarmönnum.

Einn útgjaldaliður ríkissjóðs hækkar uggvænlega ár frá ári, en það er greiðsla vaxta og afborgana af ýmiss konar ríkisábyrgðarlánum, sem falla á ríkissjóð vegna vanskila sveitarfélaganna. Samtals mun ríkissjóður eiga nú útistandandi hjá ýmsum sveitarfélögum yfir 34 millj. kr. vegna ábyrgðarskuldbindinga, sem fallið hafa á ríkissjóð, og á þessu ári mun ríkið hafa orðið að leggja út rúmar 51/2 millj. kr. vegna vanskila sveitarfélaganna. Í fjárlfrv. eru áætlaðar 12 millj. kr. á næsta ári í þessu skyni, og er það 4 millj. kr. hækkun frá fjárl. þessa árs. Þar sem þessi vanskil aukast stöðugt, verður ekki hjá því komizt að taka til rækilegrar athugunar, hvort ekki sé hægt að gera einhverjar ráðstafanir til þess að draga úr þessum vanskilum, því að það leiðir til ábyrgðarleysis hjá sveitarstjórnum, ef þær venjast á það að geta átölulaust varpað öllum sínum áhyggjum á ríkið og látið það standa straum af sínum skuldum. Á þessu máli eru þó fleiri hliðar, og mun ég víkja að því síðar í ræðu minni í sambandi við atvinnuþróunina og hag sveitarfélaganna víðs vegar um land.

Í ræðu minni við 1. umr. fjárl. í fyrra gerði ég ýtarlega grein fyrir þeirri gerbreyttu stefnu í efnahags- og fjármálum, sem tekin var upp árið 1950 í samræmi við till., sem undirbúnar voru þá af minnihlutastjórn Sjálfstfl. Hirði ég ekki um að endurtaka þau ummæli mín nú, enda hverjum manni auðvelt að gera samanburð á ástandinu í efnahagsmálum þjóðarinnar fyrir og eftir þann tíma.

Hagur ríkissjóðs hefur raunar farið mjög batnandi frá stríðsbyrjun allt fram til ársins 1948. Erlendar skuldir, sem í stríðsbyrjun voru tæpar 50 millj. kr., voru aðeins tæpar 6 millj. kr. árið 1947, en hafa síðan farið hækkandi vegna lána til margvíslegra framkvæmda og voru um síðustu áramót rúmar 218 millj. kr. Innlendar skuldir höfðu hækkað dálítið og raunverulega þó ekki miðað við verðgildi peninganna þar til árið 1947, þegar dýrtíðin lagðist á ríkissjóð með meiri þunga, og vegna sívaxandi útgjalda til uppbóta á útflutningsafurðir landsmanna voru innlendar skuldir ríkissjóðs orðnar tæpar 217 millj. 1949, en voru um síðustu áramót rúmar 180 millj. Þáverandi fjmrh., Jóhann Þ. Jósefsson, hafði lagt á það ríka áherzlu þing eftir þing, að breyta yrði um stefnu í efnahags- og fjármálum, en það var ekki fyrr en 1950, að tókst að ná samkomulagi um nýja stefnu. Sú breytta stefna, sem þá var tekin upp í viðskiptamálum, hefur lagt grundvöllinn að hinni ágætu afkomu ríkissjóðs síðan, því að aðalhækkunin á tekjum ríkissjóðs stafar af ýmiss konar tollum, einkum verðtolli og söluskatti, jafnframt því sem blómlegra viðskipta- og athafnalíf hefur aukið tekjur ríkissjóðs á ýmsum öðrum sviðum, enda þótt skattstofnar hafi ekki verið hækkaðir, eins og hæstv. fjmrh. benti á. Það er því hinn síaukni innflutningur til landsins, sem hefur tryggt hina mjög góðu afkomu ríkissjóðs undanfarin ár, enda þótt fjárl. hafi verið afgr. með svo að segja engum greiðsluafgangi. Í fyrra töldu menn líklegt, að innflutningur hefði náð hámarki, enda bentu öll skynsamleg rök til þess, og fjvn. taldi tekjuáætlunina mjög óvarlega. En reyndin hefur orðið sú, að tolltekjur eru nú þann 1. september um 33 millj. kr. meiri en um sama leyti í fyrra, enda er innflutningur nú 111 millj. kr. meiri en 1. september í fyrra. Þessi mikli innflutningur sýnir ljóst, að kaupgeta almennings hefur vaxið mjög mikið, því að meginhluti innflutningsins nú eru neyzluvörur og rekstrarvörur, en í innflutningi í fyrra var mikið af vélum til virkjananna og áburðarverksmiðjunnar. Ber vissulega að fagna bættri afkomu almennings, þótt áhrif hennar á viðskiptalífið hafi sínar skuggahliðar.

Með gengisbreytingunni 1950 var stefnt að því, sem við sjálfstæðismenn teljum höfuðnauðsyn, að auðið sé að starfrækja atvinnuvegi þjóðarinnar halla- og styrkjalaust í meðalárferði. Það tókst með þessum ráðstöfunum að létta af ríkissjóði útflutningsuppbótum, sem voru orðnar algerlega óbærilegar fyrir ríkissjóð. Þótt gengisbreytingin bætti mjög hag útflutningsframleiðslunnar, fór samt svo, að þessi ráðstöfun nægði ekki bátaútveginum, og varð því að grípa til hins svokallaða bátagjaldeyrisskipulags til þess að tryggja áframhaldandi útgerð bátanna. En ríkissjóður varð þó eftir sem áður laus við útgjöld vegna útvegsins. Nú hins vegar hefur það gerzt, að stórvirkustu framleiðslutæki þjóðarinnar, togararnir, geta ekki lengur gengið án þess að fá háan styrk. Flestir munu nú hafa talið, að afkoma þessara mikilvirkustu framleiðslutækja sjávarútvegsins hlyti að vera mælikvarðinn á það, hvenær yrði að segja hingað og ekki lengra, því að útilokað væri að taka togarana á ríkisframfæri. En það sannast hér sem oftar, að allt er á hverfanda hveli og tímarnir breytast og einnig mat manna á öllum aðstæðum, og því hefur nú ríkið byrjað að greiða rekstrarstyrki til togaraflotans til þess að koma í veg fyrir stöðvun hans. Enginn ágreiningur hefur verið um það, að togararnir þyrftu á þessum styrk að halda, og enginn ágreiningur hefur heldur verið um það, að ekki mætti til þess koma, að togararnir stöðvuðust, svo alvarlegar afleiðingar mundi það hafa fyrir þjóðina. Út á þessa braut varð því að fara, hvort sem mönnum líkaði betur eða verr, og jafnframt varð verulegur hluti af þessum styrk að ganga til launahækkunar skipverja á togurunum, því þótt launakjör togarasjómanna væru á sínum tíma talin sérstaklega góð, þá var nú hlutfallið milli launa þeirra og launa í landi orðið svo óhagstætt, að ógerlegt var orðið að fá menn á togarana. Þótt hagur ríkissjóðs sé góður, þá horfir því miður ekki sérlega vel með atvinnuvegina, þar sem bæði bátaútvegurinn og togaraútgerðin eru rekin með miklum halla og styrkjum. Enn sem komið er hefur ríkissjóður ekki sjálfur þurft að leggja fram fé til styrktar togaraútgerðinni, þar sem sú leið var farin að skattleggja bifreiðainnflutning til þess að standa straum af þessum útgjöldum. Sú ráðstöfun var þó aðeins til næstu áramóta. Er ósýnt enn, hverjar ráðstafanir þá verða gerðar, því að naumast mun togaraútgerðin hafa þá rétt svo við, að hún komist af án styrks á næsta ári.

Aðalbagginn, sem á ríkissjóð hefur lagzt síðustu árin vegna dýrtíðarráðstafana, er niðurgreiðslur á innlendar afurðir. Hafa þau útgjöld farið vaxandi og eru áætluð í fjárlfrv. 51 millj. kr., ef með eru taldar 2 millj. kr. til bóta á útflutta sunnanlandssíld. Þetta er mikið fé og mikil nauðsyn að losna við þessi útgjöld, en hins ber þó að gæta, að með þessum ráðstöfunum hefur tekizt á þriðja ár að halda vísitölunni nokkurn veginn stöðugrí, og hefur þannig verið létt af ríkíssjóði öðrum óhjákvæmilegum útgjöldum.

Ég hef nú drepið á ýmis helztu atriði, sem snerta fjárhagsafkomu ríkissjóðs nú og þróunina í efnahags- og fjármálum síðustu árin. Ætla ég nú í stuttu máli að gera grein fyrir viðhorfi Sjálfstfl. til þessara mála og ræða í því sambandi nánar nokkur einstök atriði.

Þegar minnihlutastjórn Sjálfstfl. lagði fram tillögu sína um breytta stefnu í efnahags- og fjármálum snemma árs 1950, var eitt grundvallaratriði þeirrar stefnu að tryggja hallalausan rekstur ríkissjóðs, en án breyttrar stefnu var þetta ógerlegt. Um þetta varð samkomulag við Framsfl., og hefur Sjálfstfl. æ síðan stutt fjmrh. dyggilega í því að fylgja þessari stefnu. Með þessari nýju stefnu var jafnframt lagður grundvöllur að frjálsræði í viðskiptum og framkvæmdum í stað hafta og ríkisafskipta af öllum högum borgaranna. Hin stórbætta afkoma ríkissjóðs leiddi einnig til þess, sem við sjálfstæðismenn töldum mikla nauðsyn, að auðið reyndist á þessu ári að lækka beina skatta mjög verulega, eða um 30% á einstaklingum og 20% á félögum. Það hefur ætíð verið meginsjónarmið sjálfstæðismanna í skattamálum, að skattarnir væru ekki atvinnurekstri og framleiðslustarfsemi í landinu fjötur um fót og drægju ekki úr framtaki og sjálfsbjargarviðleitni þjóðfélagsborgaranna. Við höfum jafnan talið, að atvinnuvegirnir yrðu að bera sig, ef ekki kæmi óvænt óhapp fyrir, og það hlyti að leiða til ófarnaðar, ef þeir væru til langframa reknir með ríkisstyrkjum. Okkur er þó ljóst, að hvað sem líður þessari meginstefnu, þá geti ríkisvaldið þó aldrei skotið sér undan þeirri skyldu að reyna með öllum tiltækilegum ráðum að örva framleiðsluna í landinu og jafnframt að koma í veg fyrir það, að mikilvæg framleiðslustarfsemi stöðvist. Með þetta sjónarmið í huga höfum við sjálfstæðismenn fallizt á, að gripið væri til þess neyðarúrræðis að styrkja togaraútgerðina, því að án starfrækslu togaranna væri ógerlegt að tryggja sæmilega afkomu þjóðarinnar. Sjálfstæðismenn telja mikilvægt að framkvæma sem mestan sparnað í ríkisrekstrinum og hafa við ríkisframkvæmdir svo hagkvæm vinnubrögð sem kostur er á. Jafnhliða því, sem Sjálfstfl. telur nauðsynlegt, að ríkisvaldið stuðli að sem fjölþættustu atvinnulífi og framleiðslu í landinu, telur flokkurinn mikilvægt, að ríkisvaldið styrki sem bezt andlega menningu þjóðarinnar og félagslegt öryggi. Allt verður þetta þó vitanlega innan þess ramma, sem fjárgeta ríkissjóðs hverju sinni leyfir.

Ég gat þess áðan, að vafasamt gæti verið, hvort ekki væri rétt, að ríkið takmarkaði framkvæmdir sínar á þeim tímum, þegar næg atvinna væri í landinu. Í sambandi við þetta rís einnig önnur spurning: hvort ekki sé a.m.k. sjálfsagt, að ríkið hagi framkvæmdum sínum svo, að þær verði til atvinnujöfnunar. Þótt almenn velmegun sé nú í landinu og vinnuafl skorti hér suðvestanlands og einnig í ýmsum iðngreinum, þá er ástandið því miður ekki svo gott um allt land. Síldveiði fyrir Norðurlandi hefur brugðizt í heilan áratug, en ýmsir kaupstaðir og kauptún hafa að verulegu leyti byggt afkomu sína á sumarsíldveiðum. Þegar þetta afíaleysi bætist við hið árstíðabundna atvinnuleysi, sem jafnan fylgir útgerðinni, þá er ekki von, að atvinnuástand sé gott á ýmsum stöðum í landinu. Jöfnun atvinnunnar er tvímælalaust eitt mikilvægasta viðfangsefni ríkisstjórnarinnar. Það leiðir af eðli útgerðar, að oft verða menn að vera á vertíð fjarri heimkynnum sínum, en alvarlega horfir, þegar fólk þarf að staðaldri að leita sér atvinnu fjarri sínu byggðarlagi. Þetta er það ástand, sem við stöndum nú andspænis, og ef ekki er auðið að finna einhverjar úrbætur, er hætt við, að fólk streymi úr ýmsum sjávarplássum úti um land hingað suður til Faxaflóa, og sjást þegar alvarleg merki þessarar þróunar.

Eitt atriði í málefnasamningi ríkisstj. var að stuðla að jafnvægi í byggð landsins Hinar miklu framkvæmdir í raforkumálum eru mikilvægur þáttur í þeirri stefnu. Árlega hefur einnig verið varið úr ríkissjóði um 5 millj. kr. til atvinnuaukningar í þeim byggðarlögum, sem skort hefur atvinnutæki og búið hafa við atvinnuleysi. Þessi hjálp hefur viða komið að mjög góðum notum. En þetta út af fyrir sig nægir þó ekki. Það, sem vantar, er meira hráefni til nýtingar í landi á þeim stöðum á landinu, þar sem ekki er um aðra atvinnu að ræða, og meðan bátarnir verða að leita til veiða fjarri sinni heimahöfn, þá verður þetta vandamál naumast leyst nema með útgerð togara. En þótt sums staðar sé erfitt með atvinnu í sjávarplássunum, þá er þó mjög alvarlegur skortur á vinnuafli í sveitunum, svo að sums staðar horfir til stórvandræða. Atvinnumálin almennt eru ekki viðfangsefni þessarar umræðu, þótt það að vísu varði afkomu þjóðarbúsins mjög að tryggja jafnvægi á því sviði sem öðru.

Ég gat áðan um hinar sívaxandi vanskilaskuldir ýmissa sveitarfélaga. Ef til vill stafa þessi vanskil að einhverju leyti af því, að sum sveitarfélög leggja ekki nógu mikið að sér að standa í skilum, en meginástæðan mun þó vera miklir fjárhagsörðugleikar sveitarfélaganna. Þeirra tekjur eru svo að segja eingöngu útsvör, og þegar illa árar og atvinna er lítil, gengur erfiðlega með innheimtu útsvara. Ríkissjóður á að ýmsu leyti auðveldara með tekjuöflun. Tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga var eitt þeirra viðfangsefna, sem mþn. í skattamálum fékk, en því miður virðist starf þeirrar n. ganga ótrúlega seint. Brýna nauðsyn ber til að taka til rækilegrar athugunar fjárreiður og afkomumöguleika þeirra sveitarfélaga, sem stöðugt eru í vanskilum, og reyna að finna leiðir til þess, að þau geti af sjálfsdáðum staðið við sínar skuldbindingar.

Í þessu sambandi verður þó að geta þess, að mörg sveitarfélög eiga einnig fjárkröfur á ríkissjóð vegna vanskila á ýmsum framlögum, sem gert er ráð fyrir í lögum. Er mikil nauðsyn, að breyting til batnaðar geti einnig orðið í því efni.

Ríkisstj. hefur nú skipað tvo þm. til þess að gera till. og ráðstafanir til að auka jafnvægi í byggð landsins. Er hér um að ræða eitt hið mikilvægasta atriði fyrir afkomu þjóðarheildarinnar.

Þótt við atvinnuörðugleika sé að stríða á ýmsum stöðum á landinu, hefur afkoma þjóðarinnar almennt sennilega aldrei verið betri en nú. Er það vissulega gleðiefni, og stefnan í fjármálum og efnahagsmálum hlýtur jafnan að beinast að því, að afkoma alls almennings geti verið sem bezt. Hinu er ekki að leyna, að hin mikla peningavelta skapar hættu á nýrri verðbólgu, ef peningarnir verða aðallega eyðslueyrir eða þeir ekki lagðir fyrir. Vantrúin á gildi peninganna hefur á undanförnum árum leitt til óeðlilegrar eyðslu.

Einn sterkasti þátturinn í baráttunni gegn verðbólgu er að auka sem mest sparnaðinn. Stöðvun vísitölunnar tvö síðustu árin hefur haft þau heillavænlegu áhrif, að trú manna á gildi peninga hefur aftur aukizt. Á árinu 1953 uxu innstæður í bönkum og sparisjóðum um 192 millj., og átta fyrstu mánuði þessa árs nemur sparifjáraukningin 170 millj. kr. Er mjög líklegt, að sú ráðstöfun að gera sparifé skattfrjálst muni hafa heillavænleg áhrif og auka sparnaðarviljann.

Nú hefur hins vegar hættan á nýrri verðbólgu vegna hinnar miklu peningaveltu og miklu eftirspurnar eftir vinnuafli jafnhliða vaxandi erfiðleikum útflutningsframleiðslunnar vakið manna á meðal bollaleggingar um það, að ný gengislækkun sé í aðsigi og þar af leiðandi verðrýrnun peninganna. Þessar hugleiðingar geta haft mjög slæm áhrif og aukið á erfiðleikana við að halda uppi verðgildi peninganna. Sannleikurinn er líka sá, eins og hæstv. fjmrh. tók fram, að ekki er sjáanlegt, að gengislækkun geti leyst vandann nú, enda fer því víðs fjarri, að nokkur ákvörðun sé uppi um það að framkvæma nýja gengislækkun. En þessar ástæðulausu bollaleggingar geta orkað til ills á sama hátt og flugufregnir, sem bornar eru út um það, að taka eigi upp innflutningshöft að nýju. Hafa slíkar fullyrðingar jafnvel verið settar í blaðaauglýsingar, sýnilega í því skyni einu að örva kaup almennings á neyzluvörum. Allt slíkt tal er í þágu upplausnarinnar.

Ég hef nú í stórum dráttum rætt nokkuð um þau helztu vandamál, sem við er að stríða. Það er ljóst, að afkoma þjóðarinnar almennt hefur aldrei verið betri en nú og hagur ríkissjóðs er einnig mjög góður. Þrátt fyrir þetta eru ýmis váleg ský á lofti, þannig að sýna verður fulla aðgætni. Þótt allt hafi til þessa gengið vel að segja má, þá eru kröfusjónarmiðin ískyggilega rík með þjóðinni. Allir sameinast um það að gera kröfur á hendur ríkinu, því þegar atvinnuvegirnir geta ekki staðið undir þeim kröfum, sem til þeirra eru gerðar, þá þykir sjálfsagt, að ríkið hlaupi undir bagga. Reynslan hefur þó ótvírætt sannað það, að tilgangslaust er að ganga fram hjá þeirri staðreynd, að lífskjör þjóðarinnar hljóta alltaf að takmarkast af framleiðsluverðmæti hennar, ef hún vill ekki verða öðrum háð efnahagslega. Framleiðslan hlýtur alltaf að verða mælikvarðinn á afkomu þjóðarinnar, og eina leiðin til bættra lífskjara er að auka framleiðsluna. Þetta virðist vera einföld staðreynd, en þó sýnist hún oft gleymast mönnum.

Undirstaðan að efnahagsafkomu þjóðarinnar nú er hin mikla uppbygging atvinnulífsins, sem hófst í stríðslokin og síðan hefur verið haldið uppi, eftir því sem getan hefur leyft. Án fullkominna framleiðslutækja og fjölþætts atvinnulífs getum við ekki haldið uppi þeim lífskjörum, sem þjóðin nú býr við. Það er því höfuðnauðsyn, að framleiðslan sé efld sem mest og auðlindir lands og sjávar hagnýttar eftir beztu getu til þess bæði að afla gjaldeyris og spara gjaldeyri. Því fer fjarri, að andvirði framleiðslu þjóðarinnar nú fullnægi kröfum hennar um ýmiss konar nauðsynjar erlendis frá, þótt framleiðslan hafi aukizt verulega, og þegar hverfa þær óvenjulegu gjaldeyristekjur, sem þjóðin fær nú, þá er ekki um annað að ræða en draga úr kröfunum eða stórauka framleiðsluna.

Sem betur fer horfir nú vel um sölu sjávarafurða, þótt framleiðslan aukist verulega frá því, sem nú er. Miklir möguleikar til aukinnar framleiðslu og nýrrar framleiðslu á ýmsum sviðum eru enn ónotaðir. Stærsta iðnfyrirtæki á Íslandi, áburðarverksmiðjan, hefur nú hafið starfsemi sína, og unnið er af fullum krafti að því að koma upp sementsverksmiðju. Bæði þessi fyrirtæki hafa mjög mikla þýðingu fyrir afkomu þjóðarinnar, en þau hafa einnig fært oss heim sanninn um það, að án erlends fjármagns er erfitt að nýta ýmsar auðlindir landsins. Það er engin minnkun fyrir okkur Íslendinga að þurfa að fá erlent fjármagn til uppbyggingar atvinnuvegum okkar, því að það hafa miklu stærri þjóðir orðið að gera. Þess eins verður að gæta, að hinu erlenda fjármagni sé varið til raunverulegrar framleiðsluaukningar, og vitanlega má ekki ganga lengra í lántökum erlendis en svo, að þjóðin fái auðveldlega undir þeim risið.

Fjárlfrv. fyrir árið 1955 er í meginatriðum í samræmi við þá stefnu ríkisstj. að stuðla að sem blómlegustu athafna- og menningarlífi í landinu, innan þeirra marka, sem gjaldgetan leyfir. Þá stefnu styður Sjálfstfl. einhuga. Framlög til raforkumála eru í samræmi við hina stórhuga stefnu ríkisstj. í þeim mikilvægu framfaramálum. Mikill minni hluti þess kostnaðar mun raunar lenda á ríkissjóði, ef allt fer að vonum, en ríkisstj. hefur giftusamlega tekizt að afla fjár til raforkuframkvæmdanna. Tillögur til frambúðarlausnar á lánsþörf til íbúðarbygginga, annað af mikilvægustu stefnumálum ríkisstj., munu væntanlegar á þessu þingi, en þær munu sennilega ekki heldur kosta framlög úr ríkissjóði. Ríkisstj. mun einnig vera að vinna að því að leysa með viðunandi móti lánsfjárþörf útvegsins og stofnlánadeildar landbúnaðarins og auk þess vinna að útvegun rekstrarfjár handa Iðnaðarbanka Íslands. Það er því með engu móti hægt að segja, að ekki sé af mikilli atorku og framfarahug unnið að hinum fjölþættustu umbótamálum.

Sjálfstfl. mun nú sem fyrr leggja áherzlu á það, að fjárl. verði afgreidd greiðsluhallalaus. Hann telur reynsluna hafa staðfest það ótvírætt, að frjálsræði í framkvæmdum og viðskiptum sé farsælasta leiðin til þess að örva framtak, framleiðslu og aukningu verðmæta, er tryggt geti góða efnahagslega afkomu þjóðarinnar og jafnhliða góða afkomu ríkissjóðs.

Það er engin ástæða til svartsýni vegna þeirra erfiðleika, sem nú er við að stríða, ef af heilindum og drengskap er unnið saman að lausn vandamálanna og kröfunum á hendur atvinnuvegunum og ríkisvaldinu er stillt í hóf. Alvarlegasta hættan er sú, að menn neiti að viðurkenna staðreyndir og þjóðin af skammsýni kalli yfir sig nýja skriðu verðbólgu og dýrtíðar, sem ekki verður hægt undir að risa. Vonandi reynist gifta þjóðarinnar næg til þess að forða henni frá því óláni.