16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

1. mál, fjárlög 1955

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hér er ein brtt. á þskj. 303 frá ríkisstj. Vil ég gera grein fyrir henni með fáeinum orðum. Hún er um, að greiða skuli uppbætur á þessu ári og næsta ári á grunnlaun og lífeyri frá alþýðutryggingunum og að áætla skuli í þessu skyni 6 millj. kr. útgjaldalið á 19. gr. fjárlaga.

Það hefur verið talsvert mikið rætt undanfarið um launakjör opinberra starfsmanna. Sett hefur verið á laggirnar n, til þess að endurskoða launalögin, en ekki unnizt tóm til þess að leggja nýtt launalagafrv. fyrir þetta þing. Því hefur verið lýst yfir af hendi ríkisstj., sérstaklega við 2. umr. fjárl., að það mundu verða lagðar fram till. um bráðabirgðaúrbætur í launamálum opinberra starfsmanna. Hér er nú sú till. komin, og hún fjallar um að hækka grunnlaunauppbæturnar, sem hafa verið nú um nokkur ár 10–17%, upp í 20% og að hækka bætur á eftirlaun úr 15%, sem þær hafa verið, og í 20%. Eftirlaunauppbæturnar hafa verið greiddar með 15% uppbót, þó ekki á hærri fjárhæð en 14400 kr., en till. er um að borga framvegis 20% uppbót, en þó ekki á hærri fjárhæð en 20 þús. kr. í grunn. Hámarkið er hækkað ásamt uppbótaprósentunni.

Hér er breytt tilhögun grunnlaunauppbótarinnar frá því, sem áður hefur verið, þar sem nú er gert ráð fyrir að greiða jafnháar uppbætur tiltölulega á öll laun. Launanefndin, sem nú starfar, ríkisstj. og stjórn Bandalags opinberra starfsmanna eru sammála um, að hyggilegt sé að breyta til í þetta horf.

Ég vil taka fram, að þessar uppbætur munu kosta ríkissjóð 6 millj. kr. á næsta ári. Þá kosta þær einnig 6 millj. kr. í ár, eftir því sem næst verður komizt. Samtals er því um 12 millj. kr. aukin útgjöld að ræða til uppbóta, sem skiptast á 2 ár. Það mun ekki fjarri lagi, að um 1 millj. af þessu hvort árið sé vegna uppbótanna á elli- og örorkulífeyri. Þetta er þó ekki nákvæmt. Ég vil taka fram, að það verður séð um, að hægt verði að borga launauppbæturnar út í næstu viku, ef fjárl. verða afgr. nú á morgun, svo sem horfur eru á að gert verði.

Þegar fjárlfrv. var lagt fram, var gert ráð fyrir nokkrum greiðsluafgangi, sem að mestu leyti yrði lagður í framkvæmdasjóð. Nú hefur frv. tekið allmiklum stakkaskiptum við 2. umr., og enn liggja fyrir till. frá hv. fjvn., sem yfirleitt eru gerðar í samráði við ríkisstj., um nokkuð verulegar breytingar á frv. Mér telst svo til, að ef þessar brtt. frá fjvn. og ríkisstj. verða samþ. núna við 3. umr., muni frv. hækka um sem næst 27 millj. í meðförum þingsins. Þetta er ekki nákvæm tala, en mun láta nærri. Þessu hefur verið mætt þannig, að tekjuáætlunin hefur verið hækkuð um 19 millj. frá því, sem hún var í frv., og horfið hefur verið frá því að leggja í framkvæmdasjóð. Þannig hafa verið gerðar till. um að jafna í frv. þessa miklu gjaldahækkun, 27 millj. Þetta þýðir, að frv. verður að vísu afgreitt greiðsluhallalaust, en ekki með neinum greiðsluafgangi, sem máli skiptir. Tekjuáætlunin er þannig, að mun nema 514 millj. Horfur eru á, að tekjurnar á þessu ári muni ná 550 millj. Þetta þýðir, að til þess að nokkur von sé um, að ríkisreksturinn verði greiðsluhallalaus á næsta ári, verður að verða eins gott tekjuár 1955 og þetta ár hefur verið. Það er ómögulegt að hugsa sér, að komizt verði af með minna en 30–40 millj. fyrir óvæntum greiðslum. Það sýnir reynslan örugglega nú orðið, og. mættu þó engin sérstök atvik koma fyrir, sem kostuðu nokkur veruleg útgjöld utan fjárlaga. Ekkert óvænt má koma fyrir þá stefnu, ef unnt á að vera að skila greiðsluhallalausum búskap, þótt jafngott tekjuár verði næsta ár og í ár. Þetta ár hefur á hinn bóginn verið alveg óvenjulega gott tekjuár fyrir þjóðina í heild og ríkissjóð, eins og allir vita. Ég held því þess vegna hiklaust fram, að hér sé teflt mjög tæpt. Við skulum þó vona, að þetta verði ekki að slysi.

Í raun og veru hefði þurft að afgreiða fjárlög þannig nú í þessu góðæri, að allverulegur greiðsluafgangur væri. Ef ráðgert er að eyða öllum tekjunum í beztu árunum, eru fyrirsjáanleg mikil vandkvæði, ef eitthvað ber út af frá því bezta um tekjur ríkisins. Stórfelldar kröfur hafa á hinn bóginn legið fyrir þessu þingi um fjárveitingar í framkvæmdir og í ýmsu öðru skyni, ef til vill stórfelldari en nokkru sinni fyrr, og það hefur verið lögð svo þung pressa á að fá eitthvað af þessum kröfum tekið til greina, að fjvn. og ríkisstj. hafa ekki treyst sér til þess að fylgja fram þeirri stefnu, sem mörkuð var í frv., — þeirri stefnu að hafa talsverðan greiðsluafgang, sem lagður væri í framkvæmdasjóð. Það hefur verið horfið frá því og hækkuð útgjöldin á frv., eins og ég þegar hef lýst. Þó er það von okkar, að frv. sé afgreitt þannig, að fjárl. verði greiðsluhallalaus í framkvæmd. Við það sjónarmið hefur stjórnin og fjvn. viljað halda fast.

Ég vil svo að lokum segja, að hér á hv. Alþingi hafa komið fram ýmsar fráleitar hugmyndir um afkomu ríkissjóðs í ár, sem ég sé ástæðu til þess að leiðrétta, áður en fjárlagaumr. lýkur. Það hefur verið talað um 60–70 millj. kr. greiðsluafgang. Þetta er fjarri öllum sanni. Ef við lítum á uppgjörið, miðað við 1. des. nú, og berum saman við reikningsskilin, miðað við 1. des. í fyrra, þá kemur í ljós, að mismunurinn á tekjum og gjöldum nú er nákvæmlega jafn og hann var á tekjum og gjöldum í nóvemberlok s.l. ár. í fyrra varð að vísu þó nokkur greiðsluafgangur, sem þá var varið til þess að borga niður skuldir og í ýmsu öðru skyni, sem hv. Alþingi hafði ákveðið. Þess vegna sýna þessar tölur núna, að það verður einhver greiðsluafgangur á árinu, en hann verður ekkert í áttina við það að vera 60–70 millj., eins og sumir tala um. Hér kemur þá einnig til, að með þeirri till. t.d., sem hér er nú lögð fram af hendi ríkisstj. um launauppbætur og uppbætur á tryggingargreiðslur, ellilaun og örorkubætur, á yfirstandandi ári, verður ráðstafað 6 millj. af ríkistekjunum í ár, sem borgaðar verða út næstu daga, og fleira hefur komið til, sem eykur ríkisútgjöldin mjög verulega frá því, sem fjárl. gerðu ráð fyrir. En þetta allt verður auðvitað miklu gleggra, þegar við komum saman aftur, og verður þá gerð grein fyrir því, hvernig afkoma þessa árs verður í höfuðdráttum. Ég skal því ekki fjölyrða meira um þetta nú, en ég vildi leiðrétta misskilning, sem á hefur bólað, varðandi afkomu yfirstandandi árs.