22.02.1957
Efri deild: 61. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1909 í B-deild Alþingistíðinda. (1807)

116. mál, félagsheimili

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til frekari skýringar á þessum orðaskiptum okkar hv. þm. V-Sk. (JK). Eins og honum er án efa kunnugt, hefur þjóðleikhúsið nú ákveðinn hluta af heildartekjum skemmtanaskattsins til að greiða sinn rekstrarhalla. Sá hluti hefur ekki reynzt nægilegur. Á s.l. ári varð rekstrartap umfram það fé, sem þjóðieikhúsið fékk úr félagsheimilasjóði. Gert hafði verið ráð fyrir því, þegar fjárl., sem nú eru til meðferðar, voru undirbúin, að rekstrarhalli umfram hlutdeild þjóðleikhússins í skemmtanaskatti til greiðslu á rekstrarhalla yrði 450 þús. kr. Það hefur komið í ljós við endurskoðun á þessum áætlunum, að sú tala er of lág. Rekstrarhalli verður aldrei undir 600–650 þús. kr. á því ári, sem nú er nýbyrjað. Er því alveg auðséð, að þjóðleikhúsið þarf auknar tekjur frá því, sem verið hefur, en getur ekki þolað tekjuskerðingu, ef reksturinn á ekki að dragast saman, eins og ég gat um áðan.

Þess ber að minnast, að 15% af skemmtanaskattinum hafa undanfarin ár gengið til þess að greiða byggingarskuldir þjóðleikhússins. Ógreiddar byggingarskuldir þess munu nú nema um 3.6 millj. kr., og um þær hefur allar verið samið, þannig að fyrir hendi er ákveðin greiðsluáætlun á þessum byggingarskuldum þjóðleikhússins. Það sést m.ö.o. fyrir endann á greiðslu þeirrar skuldaupphæðar. Auk þess hefur annar tekjustofn verið tryggður til þess að taka þátt í greiðslu þessara gömlu byggingarskulda þjóðleikhússins. Það kemur því að því fyrr eða síðar, að 15% af skemmtanaskattinum losna, þegar þessar skuldir hafa verið greiddar, og þar skapast möguleiki til þess að rétta hag bæði félagsheimilasjóðs og þjóðleikhússins nokkuð frá því, sem verið hefur, auk þess sem er til fullkominnar athugunar beinlínis að auka tekjur af skemmtanaskattinum í heild með nokkuð breyttu fyrirkomulagi á innheimtu skattsins.

Það eru þessir tveir möguleikar, sem eru til athugunar og ég hygg að liggi beinast við og skynsamlegast, annars vegar sá hluti af skemmtanaskatti, 15%, sem gengið hafa til greiðslu byggingarskuldanna, og hins vegar nokkur fyrirkomulagsbreyting á innheimtu skattsins sjálfs til þess að auka heildartekjurnar af skattinum. Það eru þessi atriði, sem augu okkar í menntmrn. hafa aðallega beinzt að til þess að leysa fjárhagsvanda bæði félagsheimilasjóðsins og þjóðleikhússins. Báðir aðilar eru í vanda staddir, og báðir aðilar þurfa að fá nokkra úrlausn sinna mála að minni skoðun.