07.03.1957
Efri deild: 65. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1927 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

116. mál, félagsheimili

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég tel fulla ástæðu til þess að gera grein fyrir atkvæði mínu í þessu máli.

Ég hef rekið mig á það á undanförnum árum og ekki sízt á s.l. ári, að félagsheimilasjóður hefur verið févana til þess að geta veitt þann stuðning við byggingu félagsheimila í dreifbýlinn, sem honum er ætlað að gera og er nauðsynlegt að hann geri. Á s.l. ári gat hann ekki borgað eyri, hvað þá meira, til fátækra byggðarlaga, sem eru að reisa sér félagsheimili. Þetta er staðreynd. Hitt er og staðreynd, að með því að fjölga þeim aðilum, sem geta út af fyrir sig byggt félagsheimili, staðið ein að því, og gefa þeim kröfur á félagsheimilasjóðinn, er verið að íþyngja sjóðnum og fjarlægja það, að hann geti lagt lið þeim, sem minni máttar eru, og þeim, sem sérstaklega hefur verið hugsað fyrir, þegar lögin voru sett, eins og hv. þm. N-Ísf. gerði grein fyrir. Það er víst mál, að í strjálbýlinu, sveitunum og smærri kaupstöðum, hvað þá kauptúnum standa öll félagssamtök að byggingu félagsheimila, og þau þurfa þess ekki með, að lögin séu breikkuð i þessu efni, eins og till. eru nú gerðar um. Hins vegar er það, að stærstu kaupstaðirnir og þá sérstaklega Reykjavík fá aukinn kröfurétt á sjóðinn, með því að verkalýðsfélög og verzlunarmannafélög og starfsmannafélög ríkisins og sveitar- og bæjarfélaga verði löggiltir aðilar.

Það er áreiðanlegt, að verkalýðsfélög, starfsmannafélög sveitarfélaga og verzlunarmannafélög munu jafnvel hvergi gefa síg fram öðruvísi en í félagi við önnur félagssamtök nema í Rvík.

Afstaða mín er því sú, að ég geri það með semingi og af stjórnarhollustu að fylgja því frv., sem hér liggur fyrir. En ég teldi það fjarstæðu af mér að fylgja þeirri till., sem borin er fram af hv. 6. þm. Reykv. um ríkis-, bæjarog sveitarfélagastarfsmannasamtökin og verzlunarmannasamtökin. Svo langt vil ég ekki ganga í því að gefa félagasamtökum þéttbýlisins, sem yfirleitt hafa betri úrræði en dreifbýlisfólkið, rétt til þess að eiga kröfu á sjóðinn.

Ég er algerlega sammála hv. þm. V-Sk. um nauðsynina á að auka tekjur sjóðsins. Sú nauðsyn er mikil, þó að ekki væri breikkað verksvið hans. Hún er mjög mikil. En ég tel ekki heppilegt að auka tekjur hans á þann hátt að ætla ríkissjóði að leggja honum tillag. Ég tel miklu heppilegra að gera það á annan hátt og láta yfirleitt, eins og ætlazt er til með núverandi tekjuöflun sjóðsins, skemmtanalífið í landinu bera uppi félagslega i heild þessa þörf, og ég treysti því, sem hæstv. menntmrh. hefur hér yfir lýst hvað eftir annað, að áður en þessu þingi lýkur komi fram till., sem tryggi það, að sjóðurinn fái auknar tekjur og það ekki minna auknar en nemur því, sem till. þeirra hv. 6. þm. Reykv. (GTh) og þm. V-Sk. (JK) gerir ráð fyrir.

Með þessum orðum þykist ég hafa gert grein fyrir atkvæði mínu.