29.03.1957
Efri deild: 79. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1988 í B-deild Alþingistíðinda. (2050)

135. mál, atvinna við siglingar á íslenskum skipum

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur að athuguðu því frv., sem hér er til umræðu, ákveðið að flytja lítils háttar brtt. við það.

Er það í fyrsta lagi, að í stað orðanna „allt að 100 rúmlestum“ í 5. málsgr. komi: allt að 120 rúmlestum — og að samsvarandi breyting verði einnig gerð í 7. mgr., enn fremur, að í stað orðanna „í 36 mánuði“ í 6. mgr. komi: í 30 mánuði. — Efnislega er þessi hreyting á þá leið í fyrsta lagi, að hver, sem hefur lokið prófi samkvæmt þeim bráðabirgðaákvæðum, sem f frv. felast, fái skipstjórnarréttindi á allt að 120 rúmlesta skipum í stað 100, eins og upphaflega var gert ráð fyrir í frv.

Þessi breyting er að nokkru leyti gerð samkv. tilmælum og ábendingu Landssambands ísl. útvegsmanna, sem sent var frv. til umsagnar. Lagði Landssambandið til í þessari umsögn, að réttindin, sem þessi námskeið veittu, sem hér eru ákvæði um, yrðu aukin upp í 150 lestir.

Nefndin gat ekki í heild fallizt á þetta, og varð samkomulag um að miða réttindin við 120 lestir. Samkvæmt upplýsingum Fiskifélagsins er skipafjöldi á bilinu 30 rúmlestir til 100 rúmlestir 283 að tölu, á bilinu frá 100 til 120 eru 26 skip, en á bilinu frá 120 til 150 aðeins 7 skip, svo að hérna virðist ekki muna mjög miklu, þó að ekki sé gengið til fullnustu inn á sjónarmið Landssambandsins í þessu efni.

Þetta er í raun og veru ekki heldur mikil efnisbreyting á frv. Það er næsta augljóst, að þau skip, sem hér er um að ræða, 100–120 lesta skip, stunda nákvæmlega sömu veiðar, róa á sömu mið, og því er næsta auðsætt, að það fylgir því ekki á nokkurn hátt meiri ábyrgð að fara með skipstjórn á þeim skipum heldur en þeim, sem eru allt að 100 tonnum. En að sjálfsögðu verður einhvers staðar að setja mörkin og hefur nefndin, eins og ég sagði, orðið sammála um að leggja til, að þau verði um 120 rúmlestir.

Hin breytingin, sem nefndin leggur til, er á þá lund, að lágmarkssiglingatími háseta eftir 15 ára aldur verði lækkaður úr 36 mánuðum í 30 mánuði.

Nefndinni höfðu borizt ábendingar um, að þessi tími væri óhæfilega langur, 36 mánuðir, og var í því sambandi bent á, að algengast væri eða a.m.k. mjög algengt, að menn stunduðu aðeins sjóinn á vetrarvertíðinni, eða í kringum sex mánuði á ári, og mundi þá ekki vera möguleiki á því fyrir menn, sem byrjuðu t.d. 17 ára gamlir, sem mun vera algengasti byrjunartími unglinga á sjónum, að öðlast skipstjórnarréttindi fyrr en í fyrsta lagi um 23 til 24 ára aldur og þætti óhæfilega hátt sett markið þar.

Það varð samróma álit í nefndinni, að það bæri að stytta þennan tíma. Sumir hefðu ef til vill getað fallizt á, að hann yrði styttur eitthvað meira en þarna er gert ráð fyrir, en samkomulag varð um að stytta hann um sem svaraði einni vertíð, eða um sex mánuði.

Þó að nefndin hafi ekki getað fallizt á það sjónarmið, sem kom fram í áliti eða umsögn stjórnar Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, tel ég þó rétt að gera hv. þd. grein fyrir því, hvað þau samtök höfðu um þetta frv. að segja, en í stuttu máli var umsögnin á þá leið, að sambandið væri algerlega samþykkt frv. að öðru leyti en því, að það teldi algerlega óhæft, að öll próf í sambandi við námskeiðin yrðu ekki haldin við stýrimannaskólann. En eins og auðsætt er, þá er gert ráð fyrir því, að prófin verði haldin á þeim stöðum, þar sem námskeiðin eru.

Þessu sjónarmiði til stuðnings bendir Farmannasambandið á, að á þeim f jórum stöðum, sem halda á námskeiðin, séu ekki tök á að kenna meðferð ýmissa siglingatækja og öryggistækja og þurfi því nemendurnir að dvelja um nokkurt skeið við stýrimannaskólann og ljúka prófi þaðan; enn fremur felst í þessu öryggi um það, að jafnar kröfur verði gerðar til allra, sem þessi námskeið sækja. Nefndin hefur ekki getað fallizt á þetta sjónarmið. Hún hefur aflað sér upplýsinga um, að þau tæki, sem þarna er aðallega átt við eða eingöngu, eru radartæki og miðunarstöðvar. En hún hafði einnig kynnt sér það, að meðferð þessara tækja er mjög einföld og auðlærð, og auk þess eru radartæki til í fiskiskipum á öllum þessum stöðum, og a.m.k. á einum staðnum, Akureyri, eru radartæki einnig í landi, svo að það virðist ekki ástæða til að hafa áhyggjur út af því, að nemendur á þessum námskeiðum gætu ekki kynnt sér meðferð þessara tækja.

Hvað miðunarstöðvarnar áhrærir, var það einnig upplýst fyrir n., að verð miðunarstöðva, sem þarna þyrfti til kennslu, væri ekki nema milli 4 og 5 þús. kr., og virðist það ekki vera nein frágangssök, að þau tæki séu útveguð fyrir námskeiðin.

Viðvíkjandi þriðju röksemdinni gegn því, að prófin verði haldin úti á landi, þeirri, að með því kynni að verða ósamræmi í þeim kröfum, sem gerðar eru til nemenda, þá er á það að benda, að í frv. er fyrirmæli um það, að öll námskeiðin séu á vegum stýrimannaskólans, og ætti það að vera full trygging fyrir því, að sömu kennsluaðferðir og sömu námsgreinar séu að öllu leyti lagðar til grundvallar því námi, sem þar fer fram, og þeim prófum, sem haldin eru að kennslu lokinni.