01.11.1956
Neðri deild: 9. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla til gamans að segja sessunaut mínum, hv. 9. landsk., frá því í sambandi við það, þegar hann var að tala um, að fylgismaður Þjóðviljans hefði verið óánægður með að lesa í honum gamlar greinar úr Morgunblaðinu, að einn af fylgismönnum hans sagði, þegar hann var að lesa greinar úr Morgunblaðinu, sem ræddu þetta mál, sem við erum að ræða um hér nú, og þá kaupkröfupólitík, sem Sjálfstfl. er nú farinn að reka: Ég held nú bara, að Morgunblaðið ætli að verða verra en Þjóðviljinn í kaupkröfupólitíkinni.

Það er nú margt breytilegt í voru landi. Frv. það, sem hér liggur fyrir til umr., er flutt til staðfestingar á brbl. þeim, er hæstv. ríkisstj. gaf út fyrir tveimur mánuðum um festingu á kaupgjaldi og verðlagi í landinu. Í sambandi við þessa umr. þykir mér rétt að benda á það, að þegar Framsfl. rauf stjórnarsamstarfið við Sjálfstfl. á s. l. vetri, var það vegna þess, að flokkurinn taldi, að ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar væri svo alvarlegt, að nýrra úrræða þyrfti að leita, og hann lýsti því jafnframt yfir, að hann teldi, að það væri ekki hægt að vinna að lausn málsins í samstarfi við Sjálfstfl. Flokkurinn lýsti því þá yfir, að það yrðu hinar fjölmennu stéttir í landinu, bændur og verkamenn og annað launafólk, sem yrðu að taka höndum saman til þess að leysa þetta mál. Þau brbl. eða það lagafrumvarp, sem liggur fyrir hér í hv. d., er fyrsti árangurinn af þessari stefnuyfirlýsingu Framsfl.

Það er óhætt að fullyrða það, að almenningur í landinu hefur tekið vel þessum brbl. Hann hefur fagnað því nýja viðhorfi, sem hefur skapazt með því samkomulagi, sem hefur tekizt með stéttasamtökum fólksins í landinu, og stendur á bak við þessi lög.

Þessum brbl. er ekki ætlað að gilda nema til næstu áramóta, en það er skoðun Framsfl., að því aðeins takist að leysa þann vanda, sem efnahagsmál þjóðarinnar eru nú í, að þetta samkomulag verði varanlegt, samtök fólksins haldi áfram, samtök bænda og verkamanna í þessu máli.

Það hefur margt komið fram í þessum umr., sem hefur verið fróðlegt að heyra. T. d. þótti mér það nokkur ný lunda, er ég hlustaði á það í ræðu hv. 2. þm. Reykv., þegar hann hélt því fram, að hver einasta ríkisstj., er til valda hefði komizt nú, hefði gert slíkt og hið sama, og það bæri því ekki að þakka þetta. Ég var ekkert hissa á því, þó að hv. þm. áliti, að það væri ekki ástæða til þess að þakka hæstv. ríkisstjórn, en hitt taldi ég nýlundu að heyra, að þeir Sjálfstæðisflokksmenn teldu ástæðu til nokkurra aðgerða í þessum málum. Ég man ekki betur en í kosningabaráttunni, þar sem ég var kunnugastur, væri því haldið fram, að hér væru allir hlutir í lagi og engin ástæða til stóraðgerða. (Gripið fram í.) Ég tók það fram hér áðan, að Framsfl. taldi, að samstarf bænda og verkamanna þyrfti að koma til, ef ætti að takast að leysa þetta mál.

Þeir hv. alþm., sem talað hafa hér af hálfu stjórnarandstöðunnar, hafa haldið því fram, að till. þær, sem hv. 1. þm. Rang. flutti í fyrrv. ríkisstj. um niðurgreiðslu á vísitölu, hefðu getað náð því takmarki, sem hér er farið fram á að ná. Enda þótt þessar till. hafi oft verið ræddar, vil ég benda á það, að þar var aðeins um það að ræða að greiða vísitöluna niður. Það voru engar hömlur settar við hækkuðu verðlagi eða kaupgjaldi í landinu að öðru leyti en því, er til vísitölunnar kom. Þetta hefði þýtt það, að ríkissjóður hefði orðið að taka að sér stórfellda niðurgreiðslu, sem hefði orðið um 12 vísitölustig frá 1. maí til 1. sept., en 12 vísitölustig þýða yfir 70 millj. kr. greiðslu, ef miðað er við eitt ár. Og hvað mundi nú t. d. hv. 9. landsk. segja um það? Tekna hefði þurft að afla til þeirrar greiðslu, ekki síður en til þeirrar, sem við erum að ræða um núna, og mér skildist samt á ræðu hans um daginn, að þær mundu fyrst og fremst verða teknar af launþegunum í landinu. Hins vegar mun sú leið, sem hefur verið valin, vegna þess að samkomulag tókst um stöðvunina, ekki kosta ríkissjóð nema 24–25 milljónir, miðað við það, að hún standi eitt ár. Hér er því um meginmun að ræða, þar sem annars vegar var aðeins rætt um niðurgreiðslu á vísitölu, en hér er um stöðvun að ræða í kaupgjalds- og verðlagsmálum.

Það kom annars margt athyglisvert fram í ræðu hv. 2. þm. Reykv. hér á mánudaginn. T. d. benti þessi hv. þm. á það, að verðlag hefði haldizt stöðugt í landinu, meðan ríkisstj. hv. 1. þm. Skagf., Steingríms Steinþórssonar, sat hér að völdum. Og hann tók það meira að segja fram, að þetta hefði átt sér stað þrátt fyrir kauphækkun, sem hefði orðið á þessu tímabili. Hv. þm. ræddi svo nokkuð um ástæðuna til verðbólgunnar og sagði svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Enda þótt kaupgjald og verðlag hafi átt aðalþátt í hækkun dýrtíðarinnar og verðþensluskrúfunnar, mega menn ekki loka augunum fyrir því, að verðbólga verður ekki læknuð eingöngu með verðstöðvun eða kaupbindingu um stuttan tíma. Framkvæmdir í landinu geta líka sett allt á annan endann, ruglað framleiðsluna og sett efnahagskerfið úr skorðum. Í allri þeirri löngu baráttu, sem hér á landi hefur verið háð við verðbólguna s. l. 15 ár, hefur jafnan verið litið á fjárfestinguna sem tiltölulega saklausan þátt í dýrtíðardansinum og er enn.“

Þetta segir hv. þm. En má ég minna hann og aðra hv. þingmenn Sjálfstfl. á það, að það var samkv. kröfu þeirra við stjórnarmyndunina 1953, sem fjárhagsráð var lagt niður og fjárfestingarhömlur voru afnumdar. Og að því leyti sem þær voru látnar gilda, var komizt á bak við þær, svo sem sumar stórhallir hér í miðbænum minna á. Og ég hef ekki heyrt annað en að þeir hv. sjálfstæðismenn teldu það vera stórt blóm í sínum barmi, að þeir hefðu einmitt komið með þessa frelsisskrá, sem kom með afnámi fjárhagsráðs 1953. Það er hins vegar rétt, að taumlaus fjárfesting getur haft áhrif á verðbólguna, en því hefur ekki verið haldið fram eða það hefur ekki verið talið stefna Sjálfstfl. til þessa. M. a. mun þessi taumlausa fjárfesting hafa átt sinn þátt t því að kalla á þá kaupkröfupólitík, sem varð á síðasta kjörtímabili.

Um rafvæðingu dreifbýlisins er það aftur að segja, að hvort tveggja er til, að það hefur ekki verið stórkostlegur mannafli bundinn við þá framkvæmd, enn fremur hefur hún unnið að því að halda jafnvægi í byggð landsins, og það er einn meginþátturinn í lækningu verðbólgunnar, að jafnvægi haldist í byggð landsins.

Í sambandi við þá yfirlýsingu sjálfstæðismanna, að nú sé verið að framkvæma þá stefnu, sem þeir hafi alltaf fylgt, langar mig til þess að rifja nokkuð upp stefnu þeirra í dýrtíðarmálunum, því að hún hefur að mínum dómi ekki verið verðstöðvun.

Ég hef bent á það, hvað gerðist eftir 1953, þegar þeir tóku við forustunni í ríkisstjórn. En ég vil einnig leyfa mér að benda á það, að árið 1942 fóru sjálfstæðismenn einir með stjórn landsins í sjö mánuði. Á því tímabili hækkaði vísitalan úr l83 stigum, sem hún var í aprílmánuði, upp í 272 stig, sem hún var komin í desember. Og ég man ekki eftir því, að hv. 2. þm. Reykv., sem þá gerðist ráðh. í utanþingsstjórninni, teldi, að þeir hefðu varað við verðbólgunni, sjálfstæðismenn þá, eins og þeir eiga að hafa gert nú. Það getur vel verið, að mig misminni, en ég held það nú samt ekki. Og það er í sjálfu sér ekkert undarlegt, þó að þeir hv. sjálfstæðismenn hafi fylgt verðbólgustefnunni, þegar athuguð eru ummæli, sem fram komu í ræðu hv. formanns flokksins, hv. þm. G-K., og prentuð eru í Alþingistíðindum frá 1944, í B-deild, á bls. 305, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég er hv. þm. Eysteini Jónssyni sammála um það, að atvinnuvegirnir verði að bera sig. En ég er honum ekki sammála um þá svartsýni, að það muni þeir ekki gera. Sjávarútvegurinn getur borið sig eins og er, og það er enginn greiði gerður með því að vera stöðugt að hrópa úlfur, úlfur. Slíkt er einungis til þess að veikja trú almennings.“

Og þessi sami hv. þm. segir í þingræðu, sem prentuð er í Alþingistíðindum 1945, í B-deild, á bls. 267, og ég ætla einnig að vitna til, með leyfi hæstv. forseta:

„Inn á við hefur dýrtíðin miðað að því að dreifa tekjum milli framleiðenda og annarra og þannig verið til eðlilegrar auðjöfnunar, öllum þorra manna til hagsbóta.“

Það er engin ástæða til, að menn eða flokkur, sem hefur þessa skoðun á verðbólgunni, standi gegn henni.

Hv. sjálfstæðismenn hafa ekki unnið að því að stöðva verðbólguna, nema síður sé. Ég er hins vegar á þeirri skoðun, að almenningur í þessu landi líti ekki á verðbólguna sem sérstaklega hentuga leið til auðjöfnunar eða happadrjúga fyrir heilbrigðan atvinnurekstur. Hins vegar mun hún hafa reynzt alls konar braski og þess háttar starfsemi happadrjúg leið. Það eru því mikil og gleðileg tíðindi, ef þeir Sjálfstæðisflokksmenn hverfa nú frá verðbólgustefnunni að meira jafnvægi í efnahagsmálum landsins, en það hafa þeir látið í veðri vaka í ræðum sínum hér, a. m. k. á mánudaginn. Og ég held, að það sé fullkomin ástæða til, að það verði almenn gleði í mannheimum yfir því afturhvarfi, hvað sem himneskum herskörum líður.

Hins vegar er því ekki að neita, að þeir hv. þm. Sjálfstfl., sem tekið hafa þátt í þessum umr., hafa játað fylgi sitt við frv. með vörunum. En ræður þeirra hafa verið svo sitt í hverja áttina, að jafnvel svo litlir söngmenn eins og ég er hlutu að finna, að samæfður var kórinn ekki. Í stuttu máli var niðurstaða af ræðum þessara hv. þingmanna, að því er mér virtist, þannig, að hv. 1. þm. Reykv. var með málinu, a. m. k. í sinni fyrri ræðu. Hv. 2. þm. Reykv., sem að vísu ræddi þetta mál með nokkurri alvöru, var með því að nokkru leyti, þó var verðbindingin hæpin. Hv. 9. landsk. var aftur algerlega á móti kaupbindingunni. Og svo kom hv. 1. þm. Rang. Hans aðalinnlegg í umr. var, að bændur væru fótum troðnir. Það var nú annað en kom fram í ræðu hv. 9. landsk, þm., þar sem hann virtist álíta, að niðurgreiðsla á landbúnaðarafurðum væri aðallega framkvæmd með peningum, sem kæmu frá launþegunum. Þessi stefna þeirra sjálfstæðismanna er því ekki ljós, og ég held, að þurfi meira til, ef á að leysa þessi mál.

Um ræðu hv. 1. þm. Rang. vil ég annars segja það, að það er að vísu búið að svara honum það vel af hæstv. landbrh., að það er ekki ástæða til að gera það frekar. En það gladdi mig stórum, að þessi hv. þm. skyldi bera svo mikið traust til framleiðsluráðsins sem hann gerði og ég geri líka. Og það sýndi bezt, að ekki var þýðingarlaus sá forsvari bændastéttarinnar, sem hún átti hér á Alþ., þegar Framsfl. var að berjast fyrir framgangi þessara laga og tilveru Stéttarsambands bænda. Það var þegar nýsköpunarstjórnin sat að völdum. Þá þótti það ekki góðra gjalda vert að hlynna að þeim félagsskap. Hv. 1. þm. Rang. var samt svo ánægður með þá ríkisstj., að hann lýsti trausti sínu við hana í lokin, þó að hann hefði fylgt henni seinlega í upphafi. Það var því ánægjulegt, að hv. þm. skyldi viðurkenna þessi verk Framsfl. svo vel.

Herra forseti. Ég hef leitt rök að því hér að framan, að stefna Sjálfstfl. í efnahagsmálum hefur ekki verið stöðvun á verðbólgunni, nema síður sé, heldur verðbólgustefna. Ég hef einnig bent á það og vil undirstrika það að lokum, að stefna Framsfl. er sú, að varanleg lausn fáist ekki í efnahagsmálum þjóðarinnar, nema áframhald verði á samstarfi fólksins í landinu til sjávar og sveita.