20.05.1958
Neðri deild: 101. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1593 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

172. mál, aðstoð við vangefið fólk

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls hér í d. benti ég á, hversu óviðeigandi og ranglátt það væri af löggjafarvaldinu að afhenda nýstofnuðu félagi, þótt líknarfélag sé, einn tekjustofn ríkissjóðs til skattlagningar, er næmi um 15 millj. kr. á fimm árum. Ég benti á, að framlög almennings til einhvers félags, þótt líknarfélag væri, ættu ekki að vera skyldukvöð, kvöð, ákveðin með lögum, heldur frjáls framlög hvers og eins. Ég benti enn fremur á, að öðrum líknarfélögum bæri ekki minni réttur til fjáröflunar, en hinu nýstofnaða félagi, sem nú á að afhenda þessa miklu fúlgu, 15 millj., með skattlagningu á almenning, og þess vegna væri hér um ranglæti að ræða gagnvart öðrum félögum, ef inn á þessa braut ætti að leggja.

Mér virðist nokkurn veginn ljóst af áliti n., að fjmrh. hafi lagt blessun sína yfir, þótt furðulegt megi teljast, að tekjustofnar ríkissjóðs séu sérstaklega skattlagðir til framkvæmdasjóða vissra félaga.

Sú breyting, sem gerð hefur verið á frv., staðfestir líka þetta. Að vísu virðist, að n, hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að ekki sé viðeigandi að taka beint fram í lögum, að afhenda skuli einu tilgreindu félagi mikla fjárfúlgu, sem lögð er á tekjustofna ríkissjóðs. Og þess vegna er svo látið líta út, að ríkissjóður sjálfur sé að taka skattinn. N. segir í áliti sínu, að hún vilji ekki fallast á þá skipun, að félagi einstaklinga sé fenginn til umráða slíkur skattstofn, og telur þegar komið út á varhugaverða braut í þeim efnum, og þess vegna mælir n. með því, að frv. nái fram að ganga.

Mér finnst n. vera allósamkvæm sjálfri sér. Hún fordæmir þessa braut, sem þegar hefur verið lagt inn á og verið er að leggja inn á með því frv., sem lagt var fram í Nd., en leggur samt til, að frv, verði samþ., að vísu með nokkurri breytingu. En ef við tökum til athugunar þessa breytingu, erum við þá ekki að leggja inn á alveg nýja leið í opinberum skattamálum? Breytingin er sýnilega ekki gerð til annars, en breiða yfir nafn og númer — ef svo mætti segja — þess félags, sem upphaflega var í frv., vegna þess að menn eru búnir að fá augun opin fyrir því, að þessi leið er óaðgengileg. Það er ekki sæmilegt að fara inn á slíka leið í opinberum fjármálum. En í brtt. n. — þrátt fyrir fordæmingu n, á þessari leið — er opin leið með reglugerð, sem félmrn. á að setja, að afhenda þessu félagi eða öðru framkvæmd og yfirráð yfir því fé, sem upp úr þessu fæst. Og kemur nokkrum til hugar, að núverandi félmrh., ef hann situr öllu lengur, en til næsta dags, — en það virðist nú vera heldur óráðið í augnablikinu, — kemur nokkrum til hugar, að hann, sem mælir með þessari leið í Ed., mundi hika við að útbúa reglugerðina á þann veg, að fé þetta rynni beint til þessa félags, sem hér er um rætt? Og hver er þá orðinn munurinn á þessu og þeirri leið, sem n. sjálf er að fordæma?

Brtt. er því ekki frávik frá þeirri leið, sem bæði ég og n. telur ranga, en það er að skattleggja tekjustofna ríkissjóðs í þágu einstakra félaga. Fram hjá því verður heldur ekki gengið, að þær breyt., sem gerðar hafa verið á frv. í báðum d., sýna, að þm. eru siður en svo ánægðir með þá braut, sem hér er verið að ganga inn á. En sú nýja braut, sem farið er inn á, ef frv. er samþ. í þeim dularbúningi, sem n. nú hefur fært það í, er sú, að eftir að ríkissjóður til sinna þarfa hefur skattlagt tekjustofnana til hins ýtrasta, eftir því sem löggjafarvaldið treystir sér til, þá eru þessir sömu tekjustofnar afhentir til skattlagningar fyrir einstök félög, að vísu félög, sem vinna að þörfum málum og ekki sízt þeim málum, sem ríkissjóður ætti helzt að sjá farborða. Finnst mönnum þetta vera rétt fjármálastefna eða eðlileg sköttun á almenning, að ríkissjóður leggur fyrst gjald á skattstofnana, sem að sjálfsögðu er tekið allt hjá almenningi, og afhendir þá síðan og segir: Gerið þið svo vel, þið megið nota þennan stofn til þess að taka þetta mikið úr vasa almennings, ef það bara er látið renna í annan sjóð? Að vísu ætlar ríkissjóður nú að taka það til sín fyrst í stað. En með reglugerð má svo ákveða síðar, að það renni til einstakra félaga.

Nú mætti spyrja: Ef ríkissjóður á að taka til sín þetta fé, sem tekið er af hans gömlu skattstofnum, og nota í þessu skyni, hvers vegna er þá ekki svona mál eins og öll önnur tekið inn á fjárlög? Þar á þetta mál heima. Og ríkissjóður á að sjá þessu máli farborða með þeim tekjum, sem hann á eðlilegan hátt tekur af skattgreiðendunum.

Þetta frv. er lögþvingun á greiðslu til fimm ára. Þau tvö hliðstæðu fordæmi, sem eru til, eru hvorugt byggt á lögþvingun. Almenningi er frjálst, hvort hann greiðir skattinn eða ekki. Og báðar þessar fjáröflunaraðferðir eru í gildi til eins árs í senn, Ég hef þess vegna borið fram brtt. um, að tímanum verði breytt í eitt ár og tillagið verði lækkað úr 10 og niður í 5 aura.

Ég er andvígur þessari stefnu, eins og ég hef margtekið fram. En ef á að taka hana upp, þá álit ég að eigi að bæta úr því ranglæti, sem öðrum félögum er sýnt með því að útiloka þau frá sams konar möguleika um tekjuöflun. Ég hef þess vegna borið fram till. um tekjuauka til tveggja félaga, sem starfa hér í bænum. Annað er félag, sem hefur byggt upp hæli fyrir drykkjusjúka menn, og hitt er gamalt líknarfélag, sem starfað hefur hér í áratugi og hefur nú á stefnuskrá sinni að koma upp barnaspítala, sem af öllum er talið eitthvert mesta nauðsynjamál, sem hér er nú á dagskrá. Félagið Bláa bandið var stofnað af mönnum, sem höfðu áhuga fyrir því að verða að líði í baráttunni við áfengisbölið. Lög voru samþykkt fyrir mörgum árum, er gefa ríkisvaldinu fyrirmæli um að byggja hæli yfir drykkjusjúkt fólk. Ríkissjóður eða hið opinbera hófst ekki handa. En þessir menn hófust handa, og þeir hafa nú haldið uppi hæli í 2–3 ár með ágætum árangri. Þegar ríkissjóður brást skyldu sinni að sjá drykkjusjúkum fyrir nauðsynlegri hjálp, hóf þetta félag starfsemi sína til þess að bæta úr aðkallandi þjóðfélagsþörf. Ég hef þess vegna lagt til, að af hverri flösku áfengis, sem seld er í áfengisverzluninni, renni 3 kr. í framkvæmdasjóð þessa félags til þess að halda uppi þessu nauðsynlega hæli fyrir drykkjusjúka menn. Ég veit að vísu, að þetta félag hefur fengið einhvern styrk af því fé, sem ætlað er í þessu skyni, en það er langt frá því, að styrkurinn sé nægilegur, og það er langt frá því, að félagið með þeim styrk geti rekið stofnun, er fullnægi þeim gífurlegu þörfum, sem hér eru á hjúkrun á drykkjusjúkum mönnum og konum.

Allir bæjarbúar þekkja starfsemi kvenfélagsins Hringsins, sem starfað hefur að líknarmálum hér í áratugi og safnað hefur með frjálsum samskotum fé til mjög brýnna þjóðfélagsþarfa. Kvenfélagið hefur unnið að því um langan tíma að byggja barnaspítala, sem telja verður þjóðfélagslega nauðsyn, Þetta félag hefur sýnt, að það er verðugt þess að njóta styrktar á svipaðan hátt og það félag, sem um er fjallað í þessu frv., ef það opinbera á annað borð fer inn á þessa braut og lætur fé í té á þennan hátt.

Í sambandi við þetta mál er svo ekki úr vegi að benda á það, sem kemur fram í erindi, sem Félag ísl. iðnrekenda hefur sent þinginu um þetta mál, að það geti líka verið hætta á því, að tekjustofnunum, bæði þessum og öðrum, sem hlaðið er á gjöldum, verði ofboðið með því, sem á þá er lagt. Og þegar gjaldstofnarnir eru orðnir ofhlaðnir, hætta þeir að gefa þær tekjur, sem að er stefnt. Þetta er gamall sannleikur, sem segir til sín hér jafnt og annars staðar undir svipuðum kringumstæðum.