07.05.1958
Sameinað þing: 43. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (2366)

30. mál, brotajárn

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað nokkuð um hagnýtingu brotajárns hér á landi. Eins og þm. muna, er mál þetta ekki nýtt, og hafa þegar verið gerðar nokkrar undirbúningsrannsóknir. M.a. hefur n, haft tækifæri til að kynna sér allýtarleg skjöl varðandi málið frá Iðnaðarmálastofnun Íslands. Það kemur fram í þessum skjölum, að menn eru alls ekki á eitt sáttir um, hvort hagkvæmt muni eða ekki að vinna brotajárn hér. Sérstaklega var það athyglisvert, að ýmsar erlendar verksmiðjur, sem spurðar hafa verið, virðast hafa vantrú á því, að hér sé um nægilega mikið járnmagn að ræða, svo að hagkvæmt geti verið að vinna það. Hins vegar er niðurstaða ýtarlegra skýrslugerða frá iðnaðarmálastofnuninni sú, að þetta geti orðið hagkvæmt hér á landi og rétt sé fyrir Íslendinga að halda þessu máli vakandi, gera frekari athuganir, því að hvort tveggja er, að brotajárn eykst hér ár frá ári, og einnig, að ýmis tæknileg atriði varðandi vinnslu og hagnýtingu járnsins breytast. Með tilliti til þessa telur n., að það sé rétt að halda þessum athugunum áfram, og leggur til, að athugun á málinu verði haldið áfram, eins og fram kemur í nál.