21.02.1958
Sameinað þing: 27. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í D-deild Alþingistíðinda. (2372)

63. mál, heymjölsverksmiðja

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. á þskj. 104 um rannsókn á því, hvort æskilegt er, að komið verði upp heymjölsverksmiðju með það fyrir augum að draga úr notkun á innfluttu kjarnfóðri. Einnig þarf sú athugun að leiða í ljós, hvar rekstrarskilyrði væru bezt fyrir slíka verksmiðju.

Eins og kunnugt er, þá er árlega flutt inn mikið af erlendu kjarnfóðri, og fer þessi innflutningur stöðugt vaxandi vegna fjölgunar búpeningsins og vegna þess, að bændur hafa í auknum mæli talið sér hag að því að nota fóðurbæti til fóðurs og aukningar á framleiðslunni. Það væri þess vegna þess virði að reyna að gera sér grein fyrir því, hvort unnt væri að draga eitthvað úr þeirri gjaldeyrisnotkun, sem fer vaxandi vegna innflutnings á útlendu kjarnfóðri.

Lítið hefur verið gert að því hér á landi að framleiða heymjöl. Það hefur aðeins verið gert í smáum stíl á Sámsstöðum í Fljótshlíð, lítils háttar, og að ég hygg aðeins einu sinni í Hveragerði. Þótt þetta hafi verið gert í smáum stíl, hefur reynslan þó sýnt, að unnt er að gera þetta. Og það hefur einnig verið rannsakað hér af atvinnudeild háskólans fóðurgildi íslenzka heymjölsins. Hefur komið í ljós, að ef um snemmslegið hey er að ræða, þarf 1.3 kg af heyi í fóðureiningu, sem þannig er hraðþurrkað, en það er, eins og kunnugt er, 1 kg af byggi í fóðureiningu. Munar því ekki hér svo ýkja miklu, hvað meira þarf af íslenzku heymjöli í fóðureiningu heldur en t.d. byggi.

Nú mundi einhver segja, að íslenzkir bændur ættu að rækta bygg og fóðurkorn. En það er vitað mál, að það er miklum erfiðleikum bundið, vegna þess að bændur hafa ekki yfir svo miklum vinnukrafti að ráða. Þetta hefur verið reynt lítils háttar hér á landi, en það hefur ekki orðið almennt, vegna þess að bændur hafa ekki haft vinnukraft og vegna þess að það mundi tæplega borga sig, þótt vinnukraftur fengist, að framleiða korn á þann hátt, sem skilyrði hérlendis leyfa, og borga taxtakaup. Ég geri ráð fyrir, að það mundi tæplega borga sig, frekar en það geti borgað sig að framleiða mjólk og kjöt, ef bændur ættu hverju sinni að greiða taxtakaup. Um heymjölsframleiðslu er öðru máli að gegna. Það verður að framleiðast í verksmiðju, sem væri útbúin með þeim tækjum, sem bezt eru á því sviði. Till. fer fram á rannsókn í þessu efni. Það, sem þarf að rannsaka, er, að hve miklu leyti við Íslendingar gætum sparað erlent kjarnfóður með því að framleiða íslenzkt heymjöl í landinu.

Það er þegar vitað, að það má blanda talsverðu heymjölsmagni í fóðurblöndu, án þess að fóðurblandan verði nokkuð verri til fóðurs eða mjólkur. Ég hef talað við fóðurfræðing og búnaðarfróða menn um þetta mál, og þeir hafa sagt mér, að það mætti blanda frá 10 og upp í 30% saman við erlent kjarnfóður, án þess að fóðurblandan yrði nokkuð verri, en hún væri eingöngu úr útlendu mjöli. 10–30% byggist á því, í hvaða ástandi heyið er, sem gefið er. Ef heyið er snemmslegið og hefur verið hirt grænt, má ekki blanda eins miklu af heymjöli í fóðurblönduna og ef gefa skal hrakið hey og síðslegið. Þá má blanda meira af heymjöli í fóðurblönduna, og kemur heymjölsgjöfin þá að fullu gagni. Þannig hefði verið þörf fyrir mikið af íslenzku heymjöli eftir rosasumarið 1955, að því er fóðurfræðingar og búnaðarfróðir menn telja. Og það er reyndar alltaf, þótt heyin séu góð og mikil, þörf fyrir fóðurmjöl. Ef t.d. mætti alltaf nota allt að 10% í blönduna, þá er það ákaflega mikið magn yfir heildina, sem þannig mætti nota yfir árið. Einnig er ágætt að nota heymjöl í hænsnafóður, og hefur reyndar undanfarin ár verið flutt talsvert inn af erlendu heymjöli til blöndunar í hænsnafóður. Fróðir menn telja, að það megi nota miklu meira af íslenzku heymjöll í hænsnafóður, en gert hefur verið og að það séu tvímælalaust not fyrir mikið af íslenzku heymjöli og það mætti þannig spara erlendan gjaldeyri, ef það væri fyrir hendi, án þess að fóðurblöndurnar, sem bændur ættu að kaupa, væru nokkuð verri að gæðum, en fóðurblöndur, sem eingöngu eru með útlendu efni.

Þegar þetta er fyrir hendi, þarf því að rannsaka í fyrsta lagi: Hver verður stofnkostnaður heymjölsverksmiðju, hversu stór þarf hún að vera, og hvar verður hún bezt staðsett? Í öðru lagi þarf að rannsaka, hvort heppilegra er að byggja eina verksmiðju tiltölulega stóra eða fleiri verksmiðjur smærri með það fyrir augum að draga úr flutningskostnaði á milli staða. Þetta þarf vitanlega að athuga, og getur vel komið til greina, þótt rekstrarkostnaður stóru verksmiðjunnar sé ódýrari, en smærri verksmiðja, að það vinnist upp með því, að flutningskostnaður verður minni, ef verksmiðjurnar eru fleiri en ein, því að flutningskostnaður innanlands er, eins og kunnugt er, allmikill, og ber vitanlega í þessu tilfelli að líta á það og hafa í huga, þegar athugun er gerð á staðsetningu þessarar verksmiðju. Það er vitanlega fleira, sem þarf að athuga í þessu efni. Skilyrði til grasræktunar þarf t.d. að hafa í huga.

Það er kunnugt, að sandgræðsla ríkisins á mikið land, sem verið er að rækta upp á Rangársöndum. Það væri þess vegna ekki óeðlilegt, þótt skilyrði þar fyrir verksmiðju þættu hentug, auk þess sem þar væri unnt að fá vinnuafl með sérstökum hætti, þar sem eru vistmennirnir á drykkjumannahælinu í Gunnarsholti, sem nú munu vera á milli 20 og 30 og líklega verða á næstunni nær 40, eftir að viðbótarbygging við hælið hefur verið tekin í notkun. Þarna væri verkefni fyrir þessa ógæfusömu menn, sem annars er dálítið erfitt að finna og notfæra sér, en sandgræðsla ríkisins og vistheimilið eru, eins og kunnugt er, nágrannar á Rangárvöllum. En eins og ég sagði áðan, ber vegna flutningskostnaðar að athuga, hvort ekki væri heppilegra að hafa verksmiðjurnar fleiri, en aðeins eina.

Ég hef hugsað mér, þótt ekki sé talað um það í þessari till., að það yrði skipuð n. til þess að rannsaka þetta mál, og mér kæmi til hugar, að þetta væru þrír menn sérfróðir, einn væri tilnefndur af Búnaðarfélagi Íslands, einn af atvinnudeild háskólans og sá þriðji af Verkfræðingafélagi Íslands. Tel ég eðlilegt, að í þessa n. væri skipaður verkfróður maður, og það mætti ætla, að Búnaðarfélag Íslands tilnefndi sérstaklega búfróðan mann, sem hefði vel vit á fóðrunarmálum og öðru þess konar, og atvinnudeildin sömuleiðis. Ætti þá að vera vel fyrir því séð, að ekki væri flanað að neinu í þessu efni, sem vitanlega ber að varast, heldur þetta mál rannsakað ofan í kjölinn, áður en hafizt verður handa.

Ég reikna með því, að það geti orðið allmikill gjaldeyrissparnaður í þessu efni. En rannsóknarnefndin ætti að geta gert sér fulla grein fyrir því, eftir að það liggur nokkurn veginn fyrir samkvæmt nákvæmri áætlun, hvað notkun heymjölsins getur orðið mikil árlega. Um stofnkostnaðinn er ekki hægt að segja að svo stöddu. Áætlun þarf að semja um hann. En ég gæti trúað, að það yrði tæplega hálft togaraverð, sem hér væri um að ræða í stofnkostnað, kannske miklu minna. Rannsóknin ætti að leiða það í ljós, og einmitt í sambandi við kostnaðaráætlun um slíka verksmiðju er heppilegt að hafa verkfróðan mann, sem t.d. Verkfræðingafélag Íslands tilnefndi.

Ég tel ekki ástæðu til að fara að svo stöddu fleiri orðum um þetta mál. Það er hér aðeins farið fram á rannsókn á mikilsverðu máli, sem gæti orðið til þess að skapa nýjan atvinnuveg í landinu, gæti orðið til þess að spara gjaldeyri og gæti átt sinn þátt í því að byggja hér upp atvinnulífið og færa okkur nær því að verða sjálfum okkur nógir.

Þar sem ákveðin var ein umr. um till., legg ég til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.