30.05.1958
Sameinað þing: 48. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (2407)

173. mál, lágmark félagslegs öryggis

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Í fjarveru frsm. allshn. vil ég gera grein fyrir þessu nál. í örstuttu máli.

Hér er um að ræða fullgildingu á alþjóðasamþykkt um lágmark félagslegs öryggis. Allshn. hefur athugað þetta mál og aflað sér upplýsinga um það hjá viðkomandi opinberum stofnunum. En það er helzt, sem við viljum benda á í sambandi við þessa alþjóðasamþykkt, að þegar núverandi tryggingalöggjöf var undirbúin, var þessi samþykkt athuguð með tilliti til hinnar nýju löggjafar, og nefndin, sem undirbjó þá löggjöf, var ekki aðeins þeirrar skoðunar, að Ísland gæti og ætti að fullgilda þessa alþjóðasamþykkt, heldur er beinlínis gert ráð fyrir því í tryggingalöggjöfinni.

Fullgilding á þessari alþjóðasamþykkt hefur þýðingu, töluvert alvarlega þýðingu bæði fyrir Tryggingastofnun ríkisins og erlenda ríkisborgara, sem nú eru búsettir hér á landi. Skv. þeim upplýsingum, sem Tryggingastofnunin gaf allshn., er nú svo háttað með útlendinga, sem dveljast hér á landi og hafa hér fastar tekjur, að Tryggingastofnunin verður skv. lögum að taka af þeim tryggingagjöld, en hún má hins vegar ekki greiða þeim bætur nema mönnum frá þeim þjóðum, sem við höfum gert við sérstaka gagnkvæma samninga viðkomandi tryggingarmálum. Hér eru því staddir í landinu, að því er Tryggingastofnunin hefur tjáð nefndinni, nokkur hundruð útlendingar, sem eru krafðir um tryggingagjöld, en ekki geta fengið neinar af þeim bótum, sem tryggingalöggjöfin gerir ráð fyrir, fyrr en fastir alþjóðlegir samningar hafa verið gerðir um það. En fullgilding á þessari alþjóðasamþykkt mundi nægja til þess, að Tryggingastofnunin gæti látið þetta fólk njóta fullkomins og sjálfsagðs réttlætis. Það er fyrst og fremst með tilliti til þessarar raunhæfu þýðingar, sem allshn. mælir með því, að hæstv. Alþ. samþykki fullgildingu á þessari alþjóðasamþykkt.