14.12.1957
Efri deild: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

73. mál, kosningar til Alþingis

Friðjón Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég mun nú ekki lengja þessar umr. mikið, úr því sem komið er, enda hef ég ekki heyrt allar síðustu ræður, sem fluttar hafa verið hér um málið. Ég vil aðeins svara örfáum athugasemdum, sem hv. 6. þm. Reykv. (GTh) gerði að umtalsefni í sinni ræðu. Annars virtist mér flest það, sem hann ræddi hér um, vera meiri og minni hártoganir á frv. og ekki veigamikil atriði.

Hann virtist vera í vafa um það, hvað átt væri við með orðinu skrá í 3. gr. frv., en þar segir, að frambjóðendum og umboðsmönnum þeirra sé óheimilt að hafa meðferðis á kjörfundi kjörskrá eða aðra slíka skrá.

Ég geri ekki ráð fyrir, að það sé nein nauðsyn á því, að ég fari að reyna að túlka þetta atriði. Hv. þm. veit þetta nákvæmlega eins vel og ég og hver annar. Það er að sjálfsögðu átt við skrá, sem jafngildir kjörskrá eða getur komið í staðinn fyrir kjörskrá, og þarf ekki, að ég ætla, að fara um það fleiri orðum.

Þá taldi hann, að ekki væri nægilega skýrt kveðið á í 1. tölulið 3. gr. um bann við því, að frambjóðendur og umboðsmenn þeirra hafi meðferðis á kjörfund kjörskrá, taldi, að líklegt væri, að eftir orðanna hljóðan væri heimilt að senda þeim kjörskrá inn á kjörfund, en þeim væri einungis óheimilt sjálfum að hafa með sér slíka skrá. Þetta er að sjálfsögðu misskilningur hjá hv. þm., enda trúi ég vart, að hann sjái ekki betur en hann þóttist sjá í þessu efni. Í töluliðnum stendur, að óheimilt sé að hafa kjörskrá meðferðis á kjörfundi. Það stendur ekki í gr., að það sé óheimilt að hafa kjörskrá meðferðis á kjörfund, heldur á kjörfundi, og á því er nokkur efnismunur, eins og allir munu sjá, sem kæra sig um það.

Þá spyr sami hv. þm. um það, hvaða efnismunur sé á því að skrifa hjá sér, eins og þetta var orðað í 3. gr. frv. eins og það var upphaflega, þegar það var lagt hér fyrir, og hinu, að rita sér til minnis. Raunverulega þarf ekki að svara þessu heldur. Hv. þm. veit það vel. Hér er ekki um efnismun að ræða. Það var einungis það, að betur þótti fara á því að orða þetta með þessum hætti. Meiri hl. allshn. þótti betur fara á þessu orðalagi heldur en hinu, sem var í frv. eins og það upphaflega var, og er því ekki verið að breyta neinum efnisákvæðum frv. með þessu.

Þá klifar hv. þm. enn á því, að með frv. sé verið að torvelda kosninguna fyrir stærsta flokknum. Ég á erfitt með að trúa því, að hv. þm. meini þetta í alvöru. Ég fæ ekki séð, að þessi frumvarpsákvæði geti bitnað, ef maður mætti hafa það orðalag, á einum flokki frekar en öðrum. Að vísu vil ég alls ekki orða þetta þannig, að frv. bitni á neinum, því að ég sé ekki að það sé neinum til tjóns, og allra sízt tel ég, að þar sé nokkrum mismunað. Að sjálfsögðu gengur þetta jafnt yfir alla, hvort sem það er stærsti flokkurinn eða minnsti flokkurinn eða aðrir flokkar. Það skiptir engu máli. Allir verða að sæta sömu ákvæðum um kosningalög, eins og vera ber.

Þá talaði sami hv. þm. um það, að ef frv. þetta yrði að lögum, mundi það auka kosningasmölun, þannig að mér skildist á honum, að hann gerði ráð fyrir því, að nú mundu kosningasmalar ganga hús úr húsi og kanna allan daginn eða reyna að ná til hvers manns og spyrja þá, hvort þeir hefðu ekki kosið, og drífa þá á kjörstað, ef svo væri ekki.

Ég veit ekki, hvort þetta verður reynt, en ég dreg það í efa. En verði þetta einhvern tíma reynt, þá er ég sannfærður um, að það verður ekki reynt oftar, en einu sinni, því að slíkt er nánast óframkvæmanlegt, a.m.k. hér í Reykjavík og í stærstu kaupstöðum, en það eru einmitt þeir staðir, þar sem sú venja hefur verið viðhöfð að fylgjast nákvæmlega með því, hverjir hafa kosið og hverjir hafa ekki sótt kjörfundi, og smöluninni hefur þá verið hagað eftir því.

Þá ræddi sami hv. þm. æði mikið um það, að frambjóðendum og umboðsmönnum þeirra væri samkvæmt frv. óheimilt að láta í té upplýsingar um það, hverjir hefðu kosið og hverjir hefðu ekki sótt kjörfund.

Þetta ákvæði er tekið hér upp í frv. og er raunverulega eitt af meginatriðum frv., og það þarf ekki að gera frekari grein fyrir en þegar hefur verið gert, til hvers þetta er. Það er skýrt í grg. frv. og hefur komið fram hér í umr. Þetta er gert beinlínis til þess að koma í veg fyrir það, að sú atkvæðasmölun, sem átt hefur sér stað venjulega við kosningar í Reykjavík og kaupstöðum og máske víðar, falli niður, enda eru ekki nein rök fyrir því, að æskilegt sé að smala kjósendum eins og fénaði til kosninganna. Ef þeir kæra sig ekki um að greiða atkv., þá ætti þeim að vera fullkomlega heimilt að sitja heima og fara hvergi.

Í samræmi við þetta ákvæði um, að óheimilt sé að senda upplýsingar af kjörfundi, er síðan ákvæði 4. gr. um meðferð kjörskránna, þeirra kjörskráreintaka, sem notuð hafa verið við kosninguna. Það er gert ráð fyrir því, að um þessi kjörskráreintök verði leynd, þau verði innsigluð og enginn geti fengið aðgang að þeim, þannig að ekki verði hægt að rannsaka eftir á, hverjir hafa kosið og hverjir hafa ekki neytt atkvæðisréttar. Slíkt er ekki æskilegt og ástæðulaust, enda á það að vera einkamál hvers og eins, og það er mál, sem aðra varðar ekki um, hvort einhver hefur notað þennan rétt sinn eða ekki notað hann. Ég sé ekki, að hér sé um nein óeðlileg ákvæði að ræða, og þau eru í samræmi við þessa stefnu, sem gert er ráð fyrir í frv.

Þá vil ég geta þess í sambandi við ræðu hv. 6. þm. Reykv. um 5. gr., að hann ræddi þar nokkuð um flokksmerki, merki lista eða önnur slík auðkenni sem þar greinir. Ég vil benda hv. þm. á það, að í 5. gr. frv., eins og það er prentað upp eftir 2. umr. í Ed., er prentvilla. Þar er einni kommu ofaukið. Það er komma, sem stendur á milli orðanna „merki lista“. Þar á engin komma að vera, enda er slík komma ekki í tveimur fyrri útgáfum frv., eins og hv. þm, geta gengið úr skugga um, ef þeir bera þetta saman. En þessi komma mundi breyta merkingu þarna og verða til þess að raska því, sem tilætlunin er samkvæmt greininni.

Ég held, að ég ræði ekki frekar um þetta. Þetta er þegar orðið augljóst, hvernig þessu máli er háttað, og ætti þess vegna ekki að vera þörf á frekari skýringum um það.

Ég vil aðeins að lokum drepa á það, að hv. 6. þm. Reykv. (GTh) og hv. þm. V-Sk. (JK) hafa andmælt brtt. minni, sem ég flutti hér skriflega fyrr við þessa umr., og telja, að lögbinda eigi það, að kosning í kaupstöðum skuli hefjast kl. 9 árdegis.

Ég vil aðeins benda á það aftur, svo að mönnum sé það vel í minni, að ástæðan til þess, að ég flyt mína brtt., var einfaldlega sú, að ég taldi engin rök fyrir því, að kjörfundur þyrfti að hefjast kl. 9 árdegis í kjördæmi, sem hefur nokkur hundruð kjósendur. Það er algerlega ástæðulaust, og yfirkjörstjórninni er fullkomlega treystandi til þess að meta það, hvenær ástæða sé til eða hvenær æskilegt megi teljast. að kjörfundur hefjist fyrr en kl. 10, og þess vegna hef ég lagt til í minni brtt., að þetta sé lagt á vald yfirkjörstjórnar.