12.02.1958
Sameinað þing: 26. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (2438)

54. mál, aðsetur ríkisstofnana og embættismanna

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 86 leyft mér að flytja till. til þál., að látin verði fara fram endurskoðun á lagaákvæðum og stjórnarákvörðunum um aðsetur ríkisstofnana og embættismanna og að lagðar verði fyrir Alþ. till. til breyt., eftir því sem ástæða þykir til, að endurskoðun lokinni.

Lagt er til, að fulltrúum frá fjórðungsþingum Austfirðinga, Norðlendinga og Vestfirðinga verði gefinn kostur á að taka þátt í endurskoðuninni svo og einum fulltrúa frá fjórðungsþingi Sunnlendinga, ef slíkt fjórðungsþing yrði stofnað.

Það er skoðun mín, að hér sé hreyft máli, sem Alþ. eigi að gefa gaum, og ég vona, að hv. þm. komist að þeirri niðurstöðu, að rétt sé og tímabært að láta þá endurskoðun fara fram, sem gert er ráð fyrir í tili. Staðsetning embætta og ríkisstofnana skiptir miklu máli. Er þess þá fyrst að geta, að árangur af störfum þeim, sem unnin eru, getur að einhverju leyti farið eftir því, hvernig þær eru í sveit settar. Mörg embætti eða opinber störf eru þess eðlis, að aðsetur þeirra, sem störfin vinna, verður að vera bundið við ákveðið byggðarlag. En innan byggðarlagsins getur verið um fleiri, en einn stað að ræða. Þess eru ýmis dæmi, að skipt hafi verið um aðsetursstað embættismanns innan héraðs og þá í samræmi við breytingar, sem orðið hafa á öðrum sviðum. Og vegna hinna öru breytinga, sem orðið hafa í seinni tíð, getur verið ástæða til að athuga þann þátt málsins í heild.

Sérstaks eðlis eru svo þau störf, sem ekki eru unnin í þágu afmarkaðra byggðarlaga, heldur landsins í heild. Þessi störf hafa farið mjög vaxandi á síðustu áratugum. Í þessum flokki eru æðstu embættismenn í ýmsum greinum og stofnanir, sem sumir þeirra ráða yfir, svo og aðrar ríkisstofnanir, þ. á m. skólar, sem ekki eru sérstaklega ætlaðir einstökum byggðarlögum, en sóttir meira og minna úr öllum byggðum landsins. Reynslan er nú sú, að flestum þessum stofnunum og embættum hefur verið ákveðinn staður í Reykjavík. Stundum hefur embættið eða stofnunin verið flutt til höfuðstaðarins, en stundum og sjálfsagt oftast starfað þar frá öndverðu. Ástæðan er óefað sú, að í Reykjavík var á sínum tíma talin bezt aðstaða til að inna störfin af hendi, m.a. vegna þess, að þangað og þaðan voru samgöngur greiðastar. Um störf er óhætt að segja, að varla hafi verið hægt að leysa þau annars staðar af hendi, svo að vel væri, í þann tíð, þegar þeim var ákveðinn þar staður. Síðan hefur þetta svo komizt í vana og nýjar stofnanir eða ný embætti verið staðsett í Reykjavík, þótt aðrir staðir hefðu engu síður komið til greina og jafnvel fremur, ef menn hefðu gefið sér tóm til að athuga það mál. Vera má, að af hálfu Reykjavíkur hafi verið eitthvað að þessu unnið, en þó efast ég um, að mikil brögð hafi að því verið.

Nú er það almennt viðurkennt í orði, að vinna beri að jafnvægi í byggð landsins. Einnig í Reykjavík er þessu haldið fram af ýmsum nú án teljandi andmæla. Það er staðreynd, að hröð fjölgun í höfuðstaðnum veldur miklum erfiðleikum fyrir bæjarfélagið og þá, sem þar eru fyrir, en hins vegar er miklum fjölda byggðarlaga mein að fólksfæðinni og þjóðinni í heild og þjóðerninu mein að því, að byggðarlög glati sjálfstæði sínu að meira eða mínna leyti sakir fólksfæðar eða leggist í eyði.

Nú er og hefur raunar alllengi á margan hátt verið unnið gegn því af hálfu ríkisvaldsins, að svona fari, þótt sú viðleitni gangi nú fyrst undir ákveðnu nafni. Til flestra þessara ráðstafana þarf fjármagn, stundum mikið, hvort sem þær eru gerðar í sveit eða við sjó. Þess vegna ganga þær líka hægar, en skyldi. Allt tekur sinn tíma, jafnvel þótt fyrir hendi sé afl þeirra hluta, sem gera skal, sem því miður er ekki alltaf.

Ein er þó sú ráðstöfun, sem framkvæmanleg væri, án þess að til þess þyrfti að verja fjármagni til muna umfram það, sem gert verður hvort eð er. Sú ráðstöfun er í því fólgin að flytja til eitthvað af þeim embættum og ríkisstofnunum, sem nú starfa í Reykjavík, og fá þeim aðsetur annars staðar í landinu, á þeim stöðum, þar sem ætla má að fyrir hendi séu viðunandi starfsskilyrði. Till. hafa verið uppi um þetta efni bæði hér á hinu háa Alþ. og annars staðar. Í grg. till. á þskj. 86 eru nefnd dæmi slíkra till. Í rökstuðningi þessara till. hefur m.a. verið til þess vitnað, að margt sé nú breytt frá því, sem áður var, samgöngur um land allt greiðari, húsakostur meiri og betri, raforku verið veitt víða um landið, sérmenntun ekki eins staðbundin og áður var o.s.frv. Sumir bæir eða kaupstaðir, t.d. á Norður- og Vesturlandi, eru nú eins stórir eða stærri, en Reykjavík var undir síðustu aldamót, en starfsskilyrði þar og víðar eins góð eða betri, en þau voru fyrrum í höfuðstaðnum, þegar slíkum stofnunum var ákveðinn þar staður. Hins vegar er á það bent með réttu, að starfsemi embætta eða stofnana, sem hér getur verið um að ræða, mundi hafa þó nokkur áhrif í þá átt að hamla gegn fólksflutningi úr þeim byggðarlögum eða landshlutum, sem hefðu þær innan sinna vébanda. Í slíkum tilfellum mundi hér geta verið um talsvert þýðingarmiklar miðstöðvar að ræða. Í þessu sambandi er ástæða til að athuga hið gagnstæða, t.d. hver áhrif það mundi hafa, ef eitthvert hérað væri t.d. svipt héraðsskóla sínum eða annarri hliðstæðri stofnun.

Fyrir Reykjavík skiptir það hins vegar litlu eða engu, þótt eitthvað fækki embættum eða stofnunum þar, því að nóg mun þar jafnan verða af slíku, þótt einhverjar breytingar séu gerðar í þá átt, sem vikið er að í þessari till. En þetta mál er að sjálfsögðu rannsóknarefni. Það er að sjálfsögðu ekki hægt að flytja hvaða embætti eða stofnun sem er burt úr Reykjavík og á annan stað. Sum embætti og stofnanir verða að vera í höfuðstaðnum og geta naumast starfað annars staðar, en um aðrar stofnanir og önnur embætti gegnir öðru máli. Og val nýrra aðsetursstaða þarf þá jafnframt að athuga vandlega.

Að þessu athuguðu tel ég rétt, að fram fari almenn endurskoðun varðandi aðsetursstaði embætta og ríkisstofnana í landinu, og er það meginefni till. Jafnframt felast í till., ef samþ. verður, fyrirmæli um það að nokkru leyti, á hvern hátt unnið skuli að endurskoðuninni, en þar er gert ráð fyrir því, að fulltrúum fjórðungsþinga verði gefinn kostur á að eiga þátt í endurskoðuninni og þá auðvitað jafnframt tækifæri til að koma tili. á framfæri. Fjórðungsþingin á Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum eru nýlega stofnuð og styðjast við hreyfingu þá, sem uppi hefur verið í þessum landsfjórðungum og miðar að því að efla sjálfstæði landshlutanna, byggð þeirra, atvinnulíf og menningu. Ef stofnað yrði fjórðungsþing á Suðurlandi, yrði það einnig að eiga þess kost að taka þátt í slíku samstarfi, en mér er ekki kunnugt um, að það hafi enn þá orðið. Ég hygg, að frá fjórðungsþingunum mætti vænta gagnlegra athugana og tillagna um þetta mál.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að þessari till. verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjvn.