20.02.1958
Neðri deild: 54. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1873 í B-deild Alþingistíðinda. (3019)

Landhelgismálið

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Hv. þm. G-K. sagði snemma í ræðu sinni, að ég hefði skrifað í Alþýðublaðið grein um viðhorf sjálfstæðismanna til landhelgismálsins án tilefnis, og hann ítrekaði það síðar í ræðu sinni, að hér væri um að ræða óþarfar umræður. Ég verð að segja, að sjaldan hafa menn heyrt formann Sjálfstfl. gera eins lítið úr Morgunblaðinu, því að það er einmitt samkv. beinni kröfu í svörtum ramma á forsiðu Morgunblaðsins, að þetta mál er upplýst. Hann virðist ætlast til þess, að landsmál séu rædd þannig, að Morgunblaðið slái upp því, sem því sýnist, en svo eigum við hinir að þegja. Tilefnið er ekki ómerkilegra en þetta, svo að hann getur þakkað sjálfum sér eða sínum ágæta „lautinant“, ritstjóra Morgunblaðsins, ef eftirleikurinn er ekki nákvæmlega eins og hann vill hafa hann.

Allur málflutningur þm. G-K. í þessu máli byggist á einni reginvitleysu, Honum er boðið eða flokki hans að kynnast þessu máli og ræða það með ríkisstj. á því stigi, þegar málið er á umræðugrundvelli í ríkisstj. Og vegna þess að honum er sýndur sá trúnaður að segja honum frá nokkrum mismunandi skoðunum, sem fram hafa komið, þá hrópar hann: Ríkisstjórnin er klofin, ríkisstjórnin er klofin, ríkisstjórnin er klofin.

Þetta er þakkirnar, sem stjórnin fær fyrir að leita trúnaðar þessa fyrrv. ráðherra í málinu, á meðan það var enn þá á umræðustigi. Ég veit ekki, hvort hann hefur búizt við, að mál verði til í ríkisstjórnum eins og Pallas Abena, sem stökk altygjuð út úr höfði Seifs, að það séu ekki umræður og geti ekki verið mismunandi skoðanir, áður en stjórnin tekur sínar endanlegu ákvarðanir. Og það er einmitt þetta, sem gerist hér. Sjálfstfl. er sýnd sú mikla kurteisi, að honum er boðin þátttaka í málinu, meðan það er enn þá á umræðustigi, en hann fer þannig að, að hann túlkar þetta á þá lund að auglýsa á forsiðu Morgunblaðsins og þar með fyrir öllum umheimi, að það sé skoðanamunur eða klofningur innan stjórnarinnar, sem alls ekki er fyrir hendi.

Hins vegar var það athyglisvert, að Sjálfstfl. tók aldrei því boði að láta í ljós skoðun í málinu, og formaður Sjálfstfl., stærsta stjórnmálaflokks landsins, segir það enn þá hér, nokkrum dögum áður en Genfarráðstefnan hefst, að hann vilji ekkert segja, hvaða stefna sé réttust. Sjálfstfl. hefur enga stefnu í þessu stóra máli þjóðarinnar. Hann hefur enga stefnu, aðra en þá að reyna að rægja ríkisstj. og það, sem hún er að gera í málinu.

Það, sem ríkisstj. hefur gert í þessu út á við, sýnir fullkomna einingu. Það, sem gerzt hefur með áburði Morgunblaðsins og þm. G-K. í ræðu hans hér, er ekkert annað en það, að enn einu sinni hefur sézt, hvernig Sjálfstfl. bregzt við, þegar reynt er að fá hann til heiðarlegs samstarfs um mikilvæg málefni.

Ég skal ekki rekja einstök atvik þessa máls, þar hafa aðrir enn þá betri aðstöðu, en ég tel mig hafa haft fullkomlega nægilegar upplýsingar til þess að standa við allt það, sem ég hef sagt á prenti. Formaður Sjálfstfl. las raunar sjálfur upp úr svarbréfi sjútvmrh. við hinu fyrsta og hortugasta bréfi Sjálfstfl., þar sem sjútvmrh. ítrekar það, að ríkisstj. hafi enga ákvörðun tekið um málið. Svo er það sagt honum til lasts og látið bera vott um einhvern tvískinnung, að hann skuli láta í ljós, að hann muni verða til viðræðu um að reyna að finna sameiginlegan málstað. Ég veit ekki, hvort vinnubrögðin í Sjálfstfl. eru þannig, að það sé talið manni til lasts, að hann sé fús til þess að slá eitthvað af sinni skoðun til þess að ná þjóðareiningu eða einingu allra flokkanna í mikilvægum utanríkismálum. Ég hefði ekki talið, að það væri atriði til þess að lasta mann fyrir.

Sannleikurinn er sá, að það eru ekki sjálfstæðismenn, sem buðu samstarf, heldur stjórnarflokkarnir, sem buðu þeim það. Það voru Ólafur Thors, hv. þm. G-K., og Bjarni Benediktsson, hv. 1. þm. Reykv., sem mættu á fundi hjá ríkisstj. til að ræða þetta samstarf. Þar settu þeir tvö skilyrði: Það fyrra, að þeir fengju ýtarlega skýrslu um málið. Og þeir fengu hana. Hún meira að segja var hérna í þessari pontu rétt áðan. Þar var rakið, hvað gerzt hafði í málinu í tíð núverandi stjórnar, allt frá því að sjálfstæðismenn fóru úr ráðherrastólunum. Og í öðru lagi óskuðu þeir eftir, að Hans G. Andersen ambassador í París, sem er talinn fremsti sérfræðingur íslenzka ríkisins í þessu máli, væri kallaður heim, svo að þeir Bjarni og Ólafur gætu við hann talað. Hans G. Andersen kom alla leið frá París, gekk á eftir þessum mönnum í marga daga, en þeir vildu ekkert við hann tala. Er þetta samstarfsvilji? Og það var ítrekað í bréfi sjútvmrh. 6. nóv., að ríkisstj. legði á það áherzlu að fá að heyra, hvaða tillögur stærsti stjórnmálaflokkur landsins hefði um eitt höfuðatriði þessa máls. En það hefur aldrei komið fram, og sjálfur formaður þessa flokks viðurkennir hér á Alþingi í dag, að flokkurinn hafi enn þá enga stefnu í þessu máli.

Mér sýnist málstaður hv. sjálfstæðismanna ekki svo sterkur, að hann gefi tilefni til að vera að ráðast hvorki á unga þingmenn né gamla, ráðherra eða aðra. Þeir hefðu átt að taka því boði, sem þeim var gert í upphafi, og vinna heiðarlega að samstöðu íslenzku þjóðarinnar í þessu máli, sem skiptir miklu fyrir hana, í stað þess að halda þannig á málinu frá byrjun að reyna að skapa sér tilefni til þess að ráðast á einstaka ráðherra og stjórnina alla í málinu. Það er tilgangur, sem kemur berlega í ljós, og hann mælir ekki með stærsta stjórnmálaflokki landsins eða forustumönnum hans.