13.12.1957
Sameinað þing: 19. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Frsm. meiri hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þennan þingfund lengi. Það er aðeins í tilefni af því, sem komið hefur fram í ræðum nú allra síðast í þessum umr., sem ég sé ástæðu til þess að taka hér aðeins til máls að nýju.

Það er fyrst varðandi það, sem hv. 11. landsk. þm. (FÞ) bar hér fram sem fsp. til n. eða mín. Það var varðandi hækkunartill., sem við gerum á liðnum um laun dýralækna, og þar gerir hann nokkurn samanburð á því, sem segir í fjárlagafrv. sjálfu og skýringum við það, og okkar till. Ég skal taka fram, að sú upphæð, sem við í fjvn. leggjum til að tekin sé inn á frv., er laun þriggja nýrra dýralækna. En þar er sagt, að fjórir nýir dýralæknar taki til starfa á næsta ári, og er skýringin á því sú, að frá því er skýrt í athugasemdum við sjálft fjárlagafrv., að þar sé þegar gert ráð fyrir launum eins dýralæknis.

Hvort ástæða er til þess að hafa þessa upphæð hærri, vegna þess að fleiri munu taka til starfa á árinu ,en þarna er gert ráð fyrir, skal ég ekkert um segja. Þessar till. n. eru gerðar samkvæmt tilmælum landbrn., sem í sínum till. vitnar til þess, sem yfirdýralæknir hefur um málið að segja, og þetta er hans áætlun. Annars er mér — og ég veit ekki annað, en sama gildi um aðra nm. — ekki kunnugt um, hvernig þessum málum er háttað, en við höfum gert till. okkar eftir þeim upplýsingum, sem yfirdýralæknir og landbrn. hafa okkur sent, og vænti ég þess, að það mál teljist upplýst af okkar hálfu, eins og það nú stendur.

Í sambandi við ræðu þá, sem hv. 1. þm. Rang. flutti hér nú í síðara sinn, er hann tók til máls, þá vék hann mjög að því, og það gerði raunar Magnús Jónsson, hv. 2. þm. Eyf., líka, að það hefði verið vanhugsað af mér að minnast á þær till., sem við þm. Sósfl. á s.l. kjörtímabili gerðum í sambandi við afgreiðslu laganna um framleiðslusjóð, t.d. till. um að skattleggja banka og olíufélög, því að við höfum ekkert sinnt um þær till., eftir að við höfðum aðstöðu til þess að ráða einhverju um framgang mála með því að taka þátt í ríkisstj. Báðir þessir menn létu eins og þeir vissu alls ekki, að neinn skattur hefði verið lagður á banka í þessu skyni. En það má nú raunar rifja það upp, að svo hefur verið gert. Þeir bera árlega 10 millj. kr. skatt af sinni gjaldeyrisverzlun til útflutningssjóðs. Þetta er að vísu lægri upphæð, en ég og flokksmenn mínir teldum eðlilegt að leggja á þessar stofnanir, en skattur er það engu að síður. Og þeir vildu a.m.k. á þeim tíma, sem hann var á lagður, ekki telja sanngjarnt að taka skatt með þessum hætti, þó að þeir muni nú ekki lengur eftir því, að hann sé til.

Um skattlagningu á olíufélögin er það að segja, að hún er að vísu óbein með verðlagsákvæðum, en á sínum tíma voru olíufélögin látin sæta verðlagsákvæðum, sem a.m.k. Sjálfstfl. mundi hafa talið jafngilda 30 millj. kr. árlegri skattlagningu á þau félög.

Það er sama um það að segja, að ég og mínir flokksbræður höfum yfirleitt talið, að ganga mætti þó lengra í þessum efnum. En þótt við tökum þátt í ríkisstjórnarsamstarfi, ráðum við þar vissulega ekki einir öllu og hljótum að fara þær leiðir, sem samkomulag næst um innan þeirra takmarka, sem við teljum þó að hægt sé við að una.

Varðandi það, sem hv. þm. A-Húnv. sagði hér og endurtók að nokkru og þó með öðrum hætti nú, en áður, álit sitt um það, hvert útlit væri í fjármálum þjóðarinnar, þá get ég vissulega verið honum sammála um, að þegar horft er fram á veginn um efnahags- og fjármál þjóðarinnar, er sú braut ekki öll blómum stráð, Það er vissulega alveg rétt. En það er dálítið annað, hvort glíma þarf við einhverja örðugleika eða hvort menn sjá ekkert nema svartnætti eitt fram undan.

Ég vil benda á, að þrátt fyrir það, að þessi hv. þm. málar ástand okkar fjármála með mjög dökkum litum og telur hér upp í umr. langar þulur um hækkanir á útgjöldum ríkisins til eins og annars, og sumt af því gerir hann nú vissulega án þess að gæta fullrar sanngirni, — svo að ég aðeins taki dæmi um það, þá telur hann það að því er virðist óeðlilegt, að það hækki rekstrarútgjöld fyrirtækis eins og t. d, landssímans, sem bætir árlega við sitt kerfi mjög verulegu og við sinn rekstur mjög verulegum stækkunum. Auðvitað þarf hann meira til sinna útgjalda, en hann fær líka meiri tekjur. Tekjunum sleppti nú alveg þessi hv. þm. í sinni upptalningu, en taldi alla útgjaldaaukninguna sanna það, að núverandi ríkisstj. væri óalandi og óferjandi.

Og nú í þessari upprifjun sinni um fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, getur hann þess, að hann hafi sjálfur og í eigin persónu gert till. um það í samgmn., að framlag til þjóðvega yrði fært í frv. úr 12 millj. kr. upp í 20 millj. kr. Ja, það hefði orðið svei mér góður póstur fyrir hann í upptalninguna um hækkanir og ávirðingar núverandi ríkisstj., ef samþ. hefði verið.

Þannig getur jafnvel hinum ágætustu mönnum fatazt í röksemdafærslu og sinni upptalningu, þegar um það er að ræða, að ofurkapp er lagt á að deila á ríkisstj. fyrir hennar fjármálastefnu, jafnvel þó að hún gangi í þessu tilfelli í sömu átt og nokkru hægar, en viðkomandi þm. vill sjálfur viðhafa á einum ekki ómerkum pósti fjárlaganna.

Er ég þá kominn að ræðu hv. þm. N-Ísf., sem lagði hér á það mikla áherzlu í þessum ræðustóli, að ég mundi hafa farið með rakalausar blekkingar og uppspuna að því leyti, sem ég sneri máli mínu til hans hér fyrr í nótt.

Hann tekur upp þær tölur, að 140 þús. kr. halli sé á útgerð meðalstórs vélbáts hér við Faxaflóa samkvæmt útreikningum Landssambands ísl. útvegsmanna, miðað við þann rekstrargrundvöll, sem reiknað er út frá, og þar með sé tekið meðaltal aflamagns s.l. fimm ára. Og á sama hátt með meðaltali þriggja ára sé rekstrartap togara 11/2 millj. kr.

Það má vera rétt hjá honum, að slíkur sé útreikningur Landssambands ísl. útvegsmanna, eins og í hliðstæðum útreikningum þessa sama landssambands í fyrra. Var þá útgerðin hallalaus, ætti ég spyrja? Sannar þetta eitthvað um það, að enginn grundvöllur sé eða versnandi grundvöllur sé fyrir útgerð í landinu?

Ég gaf þessum hv. þm. eitt heilræði, þegar ég talaði til hans hér fyrr, og það var, að hann skyldi spyrja um það flokksbróður sinn, Davíð Ólafsson, hvort það væri rétt, sem þessi hv. þm. N-Ísf. hafði hér haldið fram, að enginn grundvöllur væri fyrir rekstri bátaflotans á komandi vertíð eða hann færi hríðversnandi frá s.l. ári. Ekki hafði hann uppi nein orð um, að hann hefði prófað að hafa samband við þennan flokksbróður sinn og spyrja hann, og ég vænti þess, að hann hafi ekki gert það. Það gæti líka verið, að hann hefði gert það, þó að hann sé ærið hljóður um það og geti ekki um það samtal í einu eða neinu. En málin standa sem sagt svo, að það liggja fyrir útreikningar mjög mætra manna, þ. á m. þess manns, sem ég hef hér nefnt, fiskimálastjórans, um það, að miðað við núgildandi rekstrargrundvöll fiskibátaflotans, sem samið var um um s.l. áramót, sé ekki um að ræða neitt rekstrartap á meðalbát á vetrarvertíð, ef ekki bregðist aflinn.

Þær 140 þús. kr. í tap á vélbát og 11/2 millj. kr. tap á togara, sem reynt er að halda fram að sé raunverulegt um þessi skip, gæti ekki byggzt á neinu öðru en afla, sem væri verulega fyrir neðan meðallag nú. Þessu vil ég leyfa mér að halda fram, jafnvel þótt þessi hv. þm. leyfi sér að telja þetta vera rakalausar blekkingar.

Ég hef farið fram á það við hann, að hann tali um þessa hluti við menn, sem eru bæði honum og mér fróðari um þessi efni, og ég vænti þess, að þó að hann hafi ekki glöggvað sig á því í kvöld, að ég fer hér með rétt mál, en hvorki rakaleysur né blekkingar, þá muni hann síðar komast að raun um, að svo er ekki, og hann hafi þá á sínum tíma manndóm í sér til þess að viðurkenna, að hér er alls ekki um neinar blekkingar að ræða, heldur þann raunveruleika, sem út kemur úr dæminu að fróðra manna yfirsýn.