19.12.1957
Sameinað þing: 21. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég vildi mega byrja á því, að ég á hér á þskj, 206 eina brtt. um það að hækka tillag til verzlunarskólans frá því, sem er í fjárlagafrv. Hlutfallið á milli verzlunarskólans og samvinnuskólans hefur undanfarin ár verið 1 á móti 3. Nú er svo komið, að verzlunarskólanum eru ætlaðar 440 þús. kr. og samvinnuskólanum 320 þús. kr. í till. meiri hl. fjvn, Það hefur á undanförnum árum jafnan verið farið fram á það, að styrkur til þessara tveggja skóla á hvern nemanda væri hinn sami. Nú hefur því verið haldið fram og ef til vill að nokkru leyti með réttu, að samvinnuskólanum beri tiltölulega hærri styrkur vegna þess, að hann sé nú orðinn heimavistarskóli, en samkvæmt þessum till. fær samvinnuskólinn nú 5.000 kr. á hvern nemanda, á sama tíma og verzlunarskólinn fær 1.300 kr. á hvern nemanda. Þessi mismunur er orðinn svo gífurlegur og óréttlátur, að Alþingi ætti að sjá sóma sinn í því að leiðrétta þetta. Eins og till. mín er, að verzlunarskólinn fengi 825 þús. á móti 320 þús. til samvinnuskólans, væri hlutfallið þannig, að verzlunarskólinn fengi 2.500 kr. á nemanda, en samvinnuskólinn 5.000 kr. á nemanda, og mundu margir hyggja, að þessi mismunur væri nægilegur til þess að vega á móti því, að samvinnuskólinn er nú orðinn heimavistarskóli. Ég flyt ekki þessa till. til þess að reyna að rýra hlut samvinnuskólans, síður en svo, en mér finnst það vera ranglæti að gera svo, eins og hér er gert, upp á milli tveggja alveg hliðstæðra skóla. Ég er að vísu ekki mjög bjartsýnn, að þessi till. nái fram að ganga, en ég taldi sjálfsagt, að hún kæmi fram, til þess að vakin væri athygli á þessu ranglæti, sem hér kemur fram.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að frv. það, sem hér liggur fyrir, mundi mörgum þykja með nokkuð undarlegum hætti. Ja, ég verð að segja, að það er ekki furða, þó að maðurinn hafi fundið til þess, að einhverjum mundi þykja frv., sem hér er lagt fram, með dálítið undarlegum hætti. Hann sagði, að þó að þessar 65 millj. kr. væru teknar út úr frv., sem væru ætlaðar til dýrtíðarráðstafana, þá væri ekki ætlunin, að dýrtíðarráðstöfunum væri hætt að svo miklu leyti, sem ekki verða tök á að standa undir þessum útgjöldum að óbreyttu. Af þessu mætti ráða, að það sé meining ríkisstj. að reyna að róa eins lengi og hún getur með þessar 40 millj. í dýrtíðaruppbætur, sem n. hefur skilið eftir á frv., en mér telst til, að það mundi endast stjórninni í fjóra mánuði.

Hv. frsm. talaði mjög borginmannlega um þann sparnað, sem stuðningsflokkar ríkisstj. hefðu sýnt í meðferð fjárlaganna, og sparnaðurinn er 21/2 millj. kr. Ekki var það lítið af 800 millj. kr. fjárlögum. Það má segja, að af nokkru sé að státa. En hann gat þess ekki í sömu andránni, að margfaldar útgjaldatillögur á við þessa fjárhæð hefðu verið fram bornar af þessum stuðningsmönnum stjórnarinnar um sama leyti, og svo sagði hann í sambandi við þessar 65 millj. kr., sem þeir taka út af fjárl., að þetta væri nú að vísu ekki sparnaður að taka út þessar 65 millj. kr. Það er ekki að furða, þótt hann þyrfti að skýra það fyrir hv. þm., að þetta væri nú í rauninni ekkí sparnaður, þótt það væri tekið út af fjárl. Mér finnst það raunar furðulegt, að hann skuli afneita þessari fjöður í sparnaðarhattinn, því að svo virðist sem þessi fjöður hafi þó hreinsað úr hálsinum kökkinn, sem mest stóð í stjórnarliðinu.

Hæstv. fjmrh. bar fram sína gömlu spurningu, þegar hann talaði hér í kvöld: hvernig vilja sjálfstæðismenn afgreiða fjárl.? Það er mikið um þetta spurt, hvernig sjálfstæðismenn vilji afgr. fjárl., og það er ekki að furða, þó að ráðh. og stjórnarliðið spyrji um þetta, því að síðan 10. okt. og til þessa dags hefur stjórnarliðið með hæstv. ráðh. í broddi fylkingar ekki fundið neina leið til þess að brúa bilið, sem er á fjárl., og það má segja, að hæstv. fjmrh. hafi gefizt upp við þetta verk á mjög ömurlegan hátt. Ég vil nú spyrja: Til hvers eru þessir menn að taka að sér stjórn landsins, ef þeir geta ekki sjálfir ráðið fram úr þeim vandamálum, sem þeir hafa tekið að sér? Sjálfstæðismenn eru reiðubúnir að leysa vandamál efnahagsmálanna, ef þeim verður það falið eða ef hæstv. ríkisstj. vill viðurkenna formlega uppgjöf sína og vanmátt til þess að stjórna landinu og ráða fram úr þeim vandamálum, sem við er að stríða.

Mér þykir leitt, að hæstv. fjmrh. er ekki í salnum, vegna þess að mig langaði til þess að víkja til hans nokkrum orðum. Eysteinn Jónsson hefur nú verið fjmrh. í þessu landi í 12 ár, að vísu ekki samfleytt, en lengur en nokkur annar maður hefur haft á hendi stjórn fjármála á Íslandi. Það mætti því ætla, að hann hefði meiri reynslu í því, en nokkur annar maður, að fást við þessi mál. Hann er glöggur maður og greindur, enda venjulega varfærinn í slíkum málum, ef flokkahagsmunir villa honum ekki sýn. En það getur nú komið fyrir hann eins og marga aðra góða menn. Enginn maður hefur verið jafndásamaður af málgögnum flokks síns og Eysteinn Jónsson, sem jafnan hafa talið hann mesta fjármálasnilling þjóðarinnar. Enginn nema hann í þeirra augum getur farið með fjármál ríkisins, svo að vel fari, eða fetað hina réttu braut í þessum vandasömu málum. Fáum mönnum hefur verið hampað jafnmikið fyrir viturlega fjármálastjórn á undanförnum árum. En þrátt fyrir allt þetta mikla hól er fjmrh. sýnilega að missa tökin á sjálfum sér, síðan hann gekk í björg með kommúnistum. Varfærni hans og glöggskyggni virðist nú með öllu horfin. Hann gengur um þögull og þungbúinn, eins og hann sé undir fargi eða undir valdi einhvers dávalds, sem hafi ósýnilegt vald yfir honum. En stundum örlar þó á hans gamla varúðartón, sem að vísu nú hljómar aðeins sem hversdagslegur barlómur. En þá rís dávaldurinn upp og klappar á öxlina á honum og segir, að þetta sé nú ekki eins slæmt og hann heldur, og hæstv. fjmrh. róast þá og heldur áfram sinni krossgöngu. Þeir, sem starfað hafa með honum, hafa kunnað að meta það, sem hann hefur til brunns að bera, og harma nú einlæglega að sjá, hvert hlutskipti hans er orðið í þeim óholla félagsskap, sem hann hefur verið í um sinn. Ógæfan hefur setzt í götu hans, og hún hefur búið honum hlutskipti, sem fáir trúðu að hann mundi hljóta. Eftir 12 ára fjármálastjórn, sem að vísu er ekki hafin yfir gagnrýni, en hefur þó verið mörkuð að verulegu leyti af ákvörðunum, sem hann eftir beztu vitund taldi réttar, hefur nú hent hann það óskiljanlega lánleysi að leggja fram við 3. umr. á Alþingi herfilegustu og háðulegustu fjárl., sem Alþingi hefur nokkurn tíma verið beðið um að samþykkja. Þannig endar oft ferill merkra manna og jafnvel mikilla þingskörunga, þegar þeir af pólitísku ístöðuleysi ganga til samstarfs við erkióvini sína og lúta þeirra leiðsögn gegn samvizkunnar og skynseminnar mótmælum.

Hann byrjaði á því í upphafi þings, eins og kunnugt er, að leggja fram fjárl. með 71 millj. kr. halla. Það var fyrsta áfallið. Ég hygg, að Eysteini Jónssyni hafi aldrei komið til hugar, að það ætti fyrir honum að liggja að leggja fram á Alþingi fjárl. með slíkum greiðsluhalla. Þegar hann hélt ræðu sína á þinginu 16. okt. s.l. um fjárl., var tónninn mjög aumur, svo að vægt sé til orða tekið, Hann sagði sér til afsökunar m.a.: „Ríkisstj. hafði ekkert tækifæri til að ráðgast við stuðningsflokka sína á Alþ. um fjárlagafrv., áður en það væri lagt fram.“ Það var sem sé aðalástæðan hjá hæstv. fjmrh. fyrir því, að hann leggur fyrir þingið frv. með 71 millj. kr. greiðsluhalla, að hann hefur ekki haft tækifæri til að tala við stuðningsflokka sína um málið. En látum það gott heita. Síðan 16. okt. og til þessa dags er nú liðið á þriðja mánuð. Á þessum tíma hlýtur hann að hafa haft tækifæri til þess að tala við stuðningsflokka sína, og eftir því sem ég hef heyrt, hefur hann setið á löngum ráðstefnum með þeim. En hver er árangurinn? Árangurinn er enginn. Eftir allan þennan tíma geta þeir ekki fundið lausnina á því, sem hæstv. ráðh. hafði ekki getað lagfært, af því að hann hafði ekki getað talað við fylgismenn sína.

En hæstv. félmrh. hélt líka ræðu 16. okt., og hann sagði m.a.: „Þeir flokkar, sem að stjórninni standa, munu áreiðanlega verða sammála um það og sjá örugglega um, að fjárl. næsta árs verði afgreidd frá þinginu greiðsluhallalaus.“

Þetta hefur þeim nú tekizt, því að eins og hæstv. félmrh. segir, kemur ekki til mála annað en „við“ afgreiðum frv, hallalaust frá þinginu. Og skoðum til, nú er þessi vandi leystur. En hann segir enn fremur: „Það er kunnugt, að fjmrh. Eysteinn Jónsson gætir jafnan fyllstu varfærni.“ Já, við getum víst tekið undir það líka. Það má segja, að þetta er ekki ljótur vitnisburður frá slíkum manni.

Hæstv. fjmrh, sagði meira 16. okt. Hann sagði m.a.: „Og svo kemur í ljós, eins og ég sagði, að tekjur hafa brugðizt verulega á þessu tímabili (þ.e. frá janúar til ágúst) og útlit er mjög alvarlegt.“ Og enn segir hann: „Er nú raunar þegar fyrirsjáanlegt, að greiðsluhalli verður hjá ríkissjóði.“ Ég vil nú gjarnan spyrja: Er þetta aðeins barlómur? Er hann að haga sér hér eins og góður bóndi, sem kann að berja sér? Ég skal engan dóm leggja á það, enda var ég jafnnær eftir þær upplýsingar, sem hæstv. ráðh. gaf hér í deildinni í kvöld einmitt um þetta efni. Ég var sem sagt jafnnær eftir skýringar hans.

En eftir að hæstv. fjmrh. hafði málað ástandið svo dökkum litum eins og hann gerir í þessum setningum, þá kom hæstv. félmrh. á eftir með sína ræðu, klappar á öxlina á fjmrh. og segir m.a.: „Ég bíð rólegur, að reynslan skeri úr um það, hverjar verði tekjur þessa árs, um það er lýkur. Mætti þá svo fara, að rekstrarhalli fjárlagafrv. væri til muna minni orðinn undir áramótin, en hann er nú talinn.“ Og svo segir hann enn fremur: „Mætti að skaðlausu skera nokkuð niður útgjöld fjárlaganna.“ Já, þá komum við brátt að því, það er niðurskurður kommúnista á fjárlögunum til þess að nema burt greiðsluhallann. Ég kem að því seinna.

Hér virðast koma fram greinilega tvær stefnur hjá ríkisstj. Önnur kemur fram hjá hæstv. fjmrh., sem segir, að ástandið sé mjög alvarlegt. En svo kemur annar ráðherra, sem segir, að hann bíði rólegur og það sé mjög auðvelt að skera niður útgjöldin í fjárlagafrv. til þess að ná jöfnuði á frv. Hann var ekki smeykur við slíkan vanda. Það er kunnugt, að kommúnistar hafa haldið því fram, að mjög auðvelt sé að skera niður ýmsa liði í frv. til þess að ná jöfnuði. Þeir hafa einnig skýrt frá því víða, að engin þörf sé á að greiða útveginum meiri styrk og þess vegna þurfi ekki að leggja á neina nýja skatta til þess að fá fé til þess að standa undir þeim styrk. En þetta stingur dálítið í stúf við það, sem hæstv. fjmrh. segir einmitt um sama efni. En sparnaður kommúnistanna hefur ekki séð dagsins ljós. Þessar 21/2 millj. kr., sem formaður meiri hl. fjvn. var svo borginmannlegur yfir, brúa ekki bilið, sem er á fjárlögunum, og barlómur Eysteins hefur einnig lítinn árangur borið.

Sá 71 millj. kr. tekjuhalli, sem var á frv., þegar hann lagði það fram, er nú orðinn að 90 millj. kr. greiðsluhalla, eins og hann hefur sjálfur skýrt frá hér í dag og eins og blað hans, Tíminn, skýrir einnig frá í morgun. En tekjuhallinn hefur verið tekinn út, því að Eysteinn lætur ekki fjárlög ganga í gegnum þingið með tekjuhalla. Slík fjármálasnilli sem hér kemur fram hefur víst aldrei fyrr verið sýnd á Íslandi. Það má segja, að fjárlögin hafi verið hv. stjórnarflokkum eins og óþægur foli, og folinn reyndist þeim svo erfiður að beizla, að þeir tóku upp þá gömlu aðferð hestamanna, þeir réðust í að gelda folann, og þá var burt numið það, sem hefur valdið óróanum, og nú er allt fallið í ljúfa löð. Þetta var náttúrlega þjóðráð, og a.m.k. verður að segja það, að stjórnarflokkarnir eru stóránægðir með þetta þjóðráð, sem þeir hafa fundið upp. Það leynir sér ekki í því, sem fram hefur farið.

Það er öllum vitanlegt, að þó að þessum 65 millj. kr. sé kippt út úr frv., verður að greiða þessar 65 millj. Að vísu getur stjórnin lifað eitthvað til að byrja með á næsta ári. Mér telst til, eins og ég sagði áðan, að hún gæti lifað í 4 mánuði. En ef hún hefur ekki peninga til áframhaldandi dýrtíðargreiðslu eftir þann tíma, þá getur hún ekki lifað deginum lengur. Þá eru hennar dagar taldir. Slík fjármálaafgreiðsla hefur held ég aldrei sézt hér á landi, og segja verður, að það er ekki vansalaust að leggja slíkar fjármálatillögur fyrir Alþingi.

Menn spyrja nú: Á að fella niður dýrtíðargreiðslurnar á næsta ári? Þeir segja nei. Það á ekki að fella þær niður. Þá er spurt aftur: Á þá að leggja þessar 90 millj. kr., sem nú eru teknar út úr fjárlögunum, sem nýja skatta á landsmenn eftir nýárið? Er þetta gert eingöngu til þess að blekkja þjóðina í tvo mánuði, blekkja þjóðina, meðan hún gengur til bæjarstjórnarkosninga, til þess að menn haldi, að þessir skattar séu ekki á leiðinni? Kommúnistar sögðu: Við ætlum að skera niður útgjöldin. — Þeir þorðu ekki að skera niður útgjöldin. Þeir komu með sinn sparnað, 21/2 millj., sem ekki mun hafa nokkur áhrif á mismuninn á fjárlögunum.

Þeir sögðu: Útgerðin þarf ekki meiri styrk, og þess vegna þarf ekki heldur að leggja á skatta til þess að standa undir slíkum styrk, — Það er slúður, sem þeir þora heldur ekki að standa við. Útgerðin þarf að líkindum 90–100 millj. kr. viðbótarstyrk. Það er að vísu ekki hægt að fullyrða um þessa upphæð nákvæmlega, en eftir því sem kröfur útvegsmanna hafa verið undanfarið, telja kunnugir menn líklegt, að þörfin fyrir aukinn styrk til útvegsins sé eitthvað í námunda við þessa fjárhæð. En af hverju er þá ekki þingið látið fjalla um þetta vandamál? Af hverju er ekki fundin á þinginu leið til þess að komast út úr þessu vandamáli, í staðinn fyrir að senda þingið heim í hálfan annan mánuð, eða kalla þingið saman strax eftir áramótin og taka þá til óspilltra málanna til þess að leysa úr vandanum? Nei, það er ekki gert. Og af hverju er greiðsluhalli fjárlaganna tekinn út til geymslu? Það er af því, að stjórnarflokkarnir þora ekki að afla nýrra tekna fyrir bæjarstjórnarkosningarnar. Ef þeir þyrðu að afla nýrra tekna fyrir bæjarstjórnarkosningarnar, mundu þeir kalla þingið saman 6. eða 10 jan. og láta það ganga frá tillögum.

Ef hv. stjórnarflokkar hafa ekki nú neina hugmynd um það, hvernig þeir ætli að taka á málunum, eftir þann umhugsunartíma, sem þeir hafa haft, síðan hæstv. fjmrh. lagði fram fjárlögin, er þá nokkur, sem hefur von um, að þeir fái nokkrar nýjar hugmyndir, þangað til þingið kemur aftur saman? Þeir þora ekki að horfa framan í kjósendur, því að þá mundu þeir verða að koma eins og jólasveinar með pokann sinn fullan af álögum. Einmitt það þora þeir ekkí að gera, vegna þess að bæjarstjórnarkosningarnar geta haft meiri áhrif á örlög ríkisstj. en menn vilja nú láta uppi. En þingið kemur saman eftir janúarlok, og þá verða líka kosningarnar um garð gengnar. Þá er hægt að samþykkja hvaða álögur sem eru, vegna þess að þá er langur tími til næstu kosninga, og það er sagt, að kjósendurnir séu yfirleitt fljótir að gleyma. Þá verður komið aftan að kjósendunum, og þá verður ekki hikað við að leggja nýja skatta á fyrir 200 millj. kr., ef þess er þörf, og það er allt, sem bendir til þess, að ekki verði hjá því komizt. Að vísu veit ég, að hæstv. útvegsmálaráðherra lofar öllum öllu fögru, en ég er ekki viss um, að það eitt út af fyrir sig brúi bilið, sem nú er á milli hans og útvegsins. En á meðan á þessu stendur, er neitað öllum sköttum. Því er neitað, að von sé á nokkrum nýjum sköttum frá stjórnarliðinu, þegar þingið kemur saman aftur. Við skulum sjá, hvernig þær efndir verða. En á meðan geymir hæstv. fjmrh. greiðsluhallann sinn í ís, svo að hann verði ekki fyrir skemmdum fram yfir kosningar. Ég segi eins og hæstv. félmrh.: það er kunnugt, að Eysteinn Jónsson gætir jafnan fyllstu varfærni.