06.12.1957
Neðri deild: 34. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Jóhann Hafstein:

Herra forseti, Ég skal aðeins gera örstutta aths., og hún er sú, að ég í umræðunum í gær innti eftir svörum eða bar fram alveg ákveðnar og tilteknar spurningar, og ráðherrar voru þá ekki við, og fann að því. Ég hefði búizt við, að við þeim spurningum a.m.k. væri hægt að fá greið svör. Ég skal endurtaka þær. Ég spurði, hvað tekjur útflutningssjóðs hefðu orðið miklar af þessu yfirfærslugjaldi. Ég spurði í öðru lagi: Hvernig hefur verið hagað framkvæmd þessarar löggjafar, innheimtu gjaldsins? Og í þriðja lagi: Hvað er álitið að framkvæmd þessarar löggjafar sé til mikilla hagsbóta fyrir íslenzku skipafélögin í samkeppni sinni við önnur félög? Og ég byggi þessa spurningu á því, að það hefur t.d. verið áætlað, að heimild Eimskipafélagsins og annarra til þess að hækka farmgjöld, sem eru háð verðlagseftirliti, — hvað það nú var, 1 eða 11/2 %, — mundi samsvara tilteknum hluta af hækkuðum rekstrarkostnaði, sem leiddi af vinnudeilunni í sumar og þeim kjarabótum, sem þá var samið um. Hvað er áætlað að framkvæmd þessarar löggjafar fylli upp mikið af væntanlegum hækkuðum tilkostnaði? Þessar þrjár tilteknu spurningar bar ég fram, og ég vil mega vænta þess, að a.m.k. séu við þeim gefin svör. Svo þakka ég forseta.