16.12.1957
Efri deild: 41. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

66. mál, farsóttarlög

Frsm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Frv. til farsóttalaga er ekki nýmæli, heldur fjallar það um breytingar á lögum nr. 66/1933, um varnir gegn útbreiðslu næmra sjúkdóma. Eftir að sóttvarnarlög nr. 34/1954 gengu í gildi, varð nokkurt misræmi á milli þessara laga, og þess vegna er þetta frv. fyrst og fremst fram borið.

Helztu breytingu er að finna í 3. gr. frv., 1. mgr., þar sem rætt er um, hverjar sóttir skuli taldar varnskyldar, og í 17. gr. um refsiákvæðin. Er þeim breytt til fulls samræmis við samsvarandi ákvæði sóttvarnarlaganna.

Þá er í 15. gr. efnisbreyting á þá lund, að fellt er niður fortakslaust ákvæði um ráðningu sótthreinsunarmanns í hverju umdæmi. Sótthreinsanir, eins og þær áður tíðkuðust, eru nú að allmiklu leyti úreltar orðnar, og því er ekki talin ástæða til að hafa fasta sótthreinsunar menn á hverjum stað. Heimild er þó til þess í frv., ef sveitarstjórn óskar þess, og sótthreinsunarmenn skal skipa, þegar mikið liggur við, svo sem þegar um varnskyldar sóttir er að ræða.

Loks er í 16. gr. ákveðið nokkru nánar, en gert er í gildandi lögum um greiðslu kostnaðar af farsóttavörnum.

Aðrar breytingar eru orðalagsbreytingar einar, og eru þær allvíða. Tel ég ekki ástæðu til að rekja þær. Ýmsir hafa hnotið um orðið „sóttvarnarsóttir“, sem kemur fyrir í 3. gr. og víðar, en það eru þær fimm varnskyldu sóttir, sem þar eru taldar upp. Þetta orð mun þegar vera notað í sóttvarnarreglugerð, og því er óheppilegt að fara að skipta um það hér.

Frv. hafði þegar, áður en það kom fram, verið sent til umsagnar ýmsum faglegum aðilum, svo sem læknadeild háskólans og stjórn Læknafélags Íslands, og þeir efnislega ekkert haft við það að athuga.

Hv. heilbr.- og félmn. athugaði frv. og ræddi það á tveimur fundum, auk þess sem tveir nm. áttu tal við landlækni um það. Hefur nefndin ekkert að athuga við efni þess og mælir einróma með, að það verði samþykkt óbreytt.