03.03.1958
Neðri deild: 59. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (913)

93. mál, kostnaður við rekstur ríkisins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. þm. A-Húnv. var nú heldur að sækja í sig veðrið aftur og taka upp gamla lagið. Hv. þm. sagði, að ekki væru þó borgaðar út fjárhæðirnar, nema fjmrh. skrifaði upp á. Það er nú lóðið. Þetta er endurskoðandi landsreikninganna, sem segir þetta. Ég held hann sé búinn að vera endurskoðandi landsreikninganna milli 10 og 20 ár. Stenzt þetta nú hjá hv. þm.? Ég held, að þetta standist heldur illa. Hver ráðh. sem er getur gefið út reglugerðir, ef hann hefur til þess lagaheimildir, sem hafa í för með sér útgjöld og það oft milljóna útgjöld, jafnvel miljónatuga útgjöld, án þess að fjmrh. geti nokkuð um það haft að segja. Getur þannig hvaða ráðh. sem er eftir okkar stjórnskipan komið því til vegar, að menn komi með löglegar kröfur á ríkissjóð, sem verður að borga. Alveg sama er um mannaráðningar. Og reynslan um það er ólygnust, eins og ég hef margtekið fram, að tugum saman, máske hundruðum saman, hefur fólk verið ráðið af öðrum ráðuneytum á undanförnum áratugum, án þess að það hafi verið minnzt ú það við fjmrn., og þá ekkert verið annað að gera, en greiða launin út. Það er lögleg krafa á ríkissjóð. Hvort þessi stjórnskipan er heppileg eða ekki, það er annað mál, en svona er þetta og við þetta verður fjmrh. að búa. Og svo kemur það oft í þokkabót, að þeir, sem stofna til útgjaldanna, státa ósjaldan af því að hafa gert þetta eða hitt, en deila svo eða senda út sína menn til þess að deila á fjmrh. fyrir það, að útgjöldin hafi vaxið.