24.04.1959
Neðri deild: 115. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1360 í B-deild Alþingistíðinda. (1187)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Frv., sem hér liggur fyrir, hefur að geyma tillögur um breytingar á stjórnarskrá Íslands. Tillögur þessar eru þó takmarkaðar við kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulag, og er það raunar ekki nýtt. Breytingar á þeim atriðum voru siðast gerðar 1942, en þar áður 1933.

Með breytingunni, sem gerð var 1933, voru stjórnmálaflokkarnir mjög efldir til valda í landinu. Þá voru m.a. sett í stjórnarskrána ákvæði um uppbótarþingsæti til jöfnunar milli þingflokka, eins og það er nefnt. Á lagamáli eru uppbótarþingmenn þessir nefndir landskjörnir þingmenn. Réttara væri þó að nefna þá flokkskjörna þm. Uppbótarþm. eru fallnir frambjóðendur í kjördæmum. Samantalin atkvæði flokkanna eru lögð til grundvallar, þegar uppbótarsætunum er úthlutað. Kjósendurnir, sem leggja til þessi atkvæði, vita oft harla lítið um það, hvaða mönnum atkvæði þeirra muni koma á þing. Atkvæðin eru gefin flokkunum, og þeir fá þingsætin út á þau. Margt getur skrýtilegt skeð í því flokkahappdrætti, eins og dæmin sanna. Það getur jafnvel komið fyrir, að atkvæðin komi öðrum flokki að gagni en þeim, sem kjósendurnir töldu sig vera að styðja. Dæmi um þetta er frá síðustu alþingiskosningum. Þá skeði það, að átta síðustu kjósendurnir, sem komu á kjörstað í einu kjördæmi til að kjósa framboðslista síns flokks, urðu til þess með þátttöku sinni í kosningunni að koma á þing frambjóðanda annars flokks, sem féll í kjördæmi í öðrum landsfjórðungi. Segja má, að skipting uppbótarsætanna milli þingflokka fari fram eftir reglum hlutfallskosninga, þó að fyrirkomulagið á vali þingmannanna úr hópi hinna föllnu sé með sérstökum hætti og þannig, að útkoman úr þeim reikningsdæmum geti orðið ærið skrýtin, eins og ég hef hér nefnt dæmi um.

En áður voru um tíma, frá 1915 til 1933, í gildi lög um landskjörna þm. Þeir voru sex talsins, þeir voru kjörnir í sérstökum kosningum með hlutfallskosningafyrirkomulagi um land allt, þ.e.a.s. þrír og þrír í senn. En kjör þeirra var á engan hátt tengt við kosningu hinna kjördæmakosnu þm., eins og nú er með uppbótarmennina. Í því gamla landskjöri vissu kjósendur því fullkomlega, hvaða menn þeir voru að velja til þingsetu. Þar gat aldrei komið fyrir, að þátttaka manna í kosningum yrði til að fleyta á þing einhverjum manni úr öðrum stjórnmálaflokki en þeim, sem þeir höfðu greitt atkvæði.

Allt frá endurreisn Alþingis fyrir meira en 100 árum hefur vali flestra þm. verið hagað þannig, að héruð landsins, þ.e. sýslurnar, og á síðari tímum einnig stærri kaupstaðir hafa haft þm. hvert fyrir sig. Þm. hafa verið þeirra fulltrúar á löggjafarsamkomunni og einnig umboðsmenn á mörgum öðrum sviðum.

Það er alkunnugt, að afskipti hins opinbera, Alþingis og ríkisstjórnar, hafa farið stórkostlega vaxandi á flestum sviðum þjóðlífsins. T.d. er það orðið svo í atvinnumálum, að þar er það mjög takmarkað, sem menn geta aðhafzt í raun og veru, nema til komi ýmiss konar leyfaveitingar og fyrirgreiðsla af hálfu opinberra stofnana. Með þessum sívaxandi afskiptum þess opinbera af lífi manna og högum hefur farið stöðugt vaxandi þörf héraðanna fyrir það að hafa sérstaka umboðsmenn fyrir sig á löggjafarsamkomunni, sem gætu jafnframt sinnt öðrum málum fyrir héruðin og íbúa þeirra, en flest þarf nú, eins og kunnugt er, að sækja til Reykjavíkur, þar sem ríkisvaldið hefur sitt aðsetur og ríkisstofnanir langflestar, a.m.k. allar þær áhrifamestu og þær, sem mest afskipti hafa af atvinnumálum um land allt og mörgu öðru.

En nú á samkvæmt þessu frv. að svipta héruðin þeim rétti að hafa sérstaka fulltrúa fyrir sig. Þau mega ekki lengur hafa sérstaka málsvara hvert fyrir sig. Og hvað er þeim boðið í staðinn? Fólkinu um land allt er gefinn kostur á í kosningum að merkja við listabókstaf einhvers flokksins með nöfnum manna, sem fjöldi kjósendanna hefur engin persónuleg kynni af. Í stað sérstaks fulltrúa, sem þeir þekkja, eiga þeir að fá að kjósa lista með nöfnum manna, sem flestir eru þeim ókunnir og eru því í augum þeirra aðeins númer í flokkssafni.

Það, sem hér er boðið, er efling flokkavaldsins í landinu til stórra muna. Verði þetta samþykkt, verður margfalt erfiðara, en áður fyrir kjósendur yfirleitt að hafa áhrif á val frambjóðenda og þar með á kjör þm. Það má búast við og raunar telja víst, að þannig fari, að menn frá fjölmennustu byggðarlögunum verði í efstu sætum á framboðslistunum á hverju kjörsvæði. Flokkarnir munu telja það vænlegast til atkvæðasöfnunar að haga framboðum þannig. Það er því stórkostleg hætta á, að fámennari héruðin innan hvers kjörsvæðis verði algerlega afskipt.

Ég vil nefna hér t.d. tvö af hinum fámennari kjördæmum landsins, sitt í hvorum landshluta. Annað þeirra er Vestur-Skaftafellssýsla. Það hefur reyndar af öðrum í þessum umr. verið minnzt á það kjördæmi. Vestur-Skaftafellssýsla er víðlent hérað. Þar eru sandar, jökulvötn og hafnlaus strönd, en á milli fljótanna miklu og eyðisandanna eru hýrar og gróðursælar sveitir. Þar býr dugandi fólk, þroskað í baráttunni við náttúruöflin. Síðustu 30 árin hafa 5 menn átt sæti á Alþ. fyrir þetta hérað, 3 framsóknarmenn og 2 sjálfstæðismenn til skiptis. Allir þessir 5 þingfulltrúar Vestur-Skaftfellinga hafa fæðzt og alizt upp þar í sýslunni, sumir þeirra átt þar heima alla ævi, og allir hafa þeir verið gerkunnugir héraðinu, fólkinu, sem þar býr, og viðfangsefnum þess. En hvaða möguleika hafa Vestur-Skaftfellingar til þess að koma manni frá sér á þing, ef hin fyrirhugaða breyting nær fram að ganga? Samkvæmt frv. á Vestur-Skaftafellssýsla að vera á kjörsvæði með Rangárvallasýslu, Árnessýslu og Vestmannaeyjum, og þar á að kjósa 6 menn í einu, auðvitað með hlutfallskosningafyrirkomulagi. Kjósendatalan í Vestur-Skaftafellssýslu er um það bil 10% af heildartölu kjósenda á þessu svæði. Af því má sjá, að möguleikar Vestur-Skaftfellinga til að koma að manni úr sínum hópi eru ákaflega takmarkaðir. Mestar líkur eru til, að þeir verði þar algerlega út undan. Jafnvel þó að íbúar þessa héraðs gengju allir saman í eina fylkingu, yfirgæfu þá flokka, sem þeir hafa fylgt undanfarið, þá væru þeir ekki öruggir með að koma einum manni af sex á þing á þessu stóra kjörsvæði. Þannig á að búa að fólkinu, sem þarna býr.

Hitt héraðið, sem ég vil nefna, er Norður-Þingeyjarsýsla. Það er líka víðlent hérað og fagurt, og þar eru landkostir góðir eins og í Skaftafellssýslu, en þar eru auk þess útgerðarstöðvar og góð mið fyrir landi. Miðað við fólksfjölda skila Norður-Þingeyingar mikilli framleiðslu í þjóðarbúið, bæði land- og sjávarafurðum. Eins og Vestur-Skaftfellingar hafa þeir að undanförnu haft fulltrúa á þingi úr sínum hópi, menn, sem þar hafa fæðzt og alizt upp og eru nákunnugir byggðarlaginu og fólkinu, sem þar býr. En nú er þeim ætlað, eins og Vestur-Skaftfellingum, að verða á kjörsvæði með miklu fjölmennari héruðum. Mun láta nærri, að í Norður-Þingeyjarsýslu sé eins og í Vestur-Skaftafellssýslu um það bil 10% af kjósendatölu hins fyrirhugaða stóra kjördæmis. Nái þessi breyting fram að ganga, eru þeir því eins illa settir og hafa jafnlitla möguleika og Vestur-Skaftfellingar til þess að koma fulltrúa frá sér á löggjafarsamkomuna.

Hér í Reykjavík eru starfandi nokkur átthagafélög, sem svo eru nefnd. Eitt af þeim er félag Þingeyinga, gagnlegur og góður félagsskapur eins og önnur félög af sama tagi. Heyrzt hefur, að eitt af góðum viðfangsefnum félagsins um þessar mundir sé að eiga hlut að því, að komið verði upp minnismerkí um Skúla landfógeta á fæðingarstað hans, Keldunesi í Norður-Þingeyjarsýslu. Liklega er þetta á döfinni núna í tilefni af því, að innan skamms eru 250 ár liðin frá fæðingu þessa merka manns. En það lítur út fyrir, að fleiri en Þingeyingar hafi í hyggju að minnast 250 ára afmælis Skúla Magnússonar landfógeta. Þrír stjórnmálaflokkar á Alþingi ætla að gera það, að vísu með nokkuð sérstökum hætti, en auðvitað samkv. sínu innræti. Þeir ætla að svipta fæðingarhérað Skúla fógeta réttinum til að hafa sérstakan fulltrúa á Alþingi. Afmælið nálgast óðum, og því þarf að hafa hraðan á, svo að þessu verði komið í framkvæmd fyrir afmælisdaginn.

Ég hef nefnt hér sem dæmi tvö víðlend og fögur héruð, strjálbýl og að sumu leyti harðbýl. Ég veit ekki, hvort menn hafa leitt hugann að því, hvað þjóðin yrði miklu fátækari, ef þessi héruð legðust í auðn, ef þar yrði hvergi mannabyggð og eldur á arni. Og ég vil spyrja: Er það of mikið að leyfa því fólki, sem byggir þessi héruð, að hafa sérstaka fulltrúa fyrir sig á löggjafarþingi þjóðarinnar, einn fyrir hvort héraðið, eins og það hefur lengi haft? Og hverjum er slíkt til tjóns?

Fólkið í fámennari byggðunum hefur ýmiss konar örðugleika við að etja umfram hina, sem búa á þéttbýlli svæðum. En þetta fólk á hinum strjálbýlli landsvæðum gegnir mjög þýðingarmiklu hlutverki í þjóðfélaginu: að halda við byggðinni og afstýra því, að byggileg héruð leggist í auðn. Störf þess ætti að meta að verðleikum og veita því stuðning í lífsbaráttunni. En hér er farið öfugt að. Hér er verið að ráðast gegn þessu fólki og hagsmunum þess. Ætlunin er að svipta það þeim rétti, sem það hefur lengi búið við, að hafa sérstaka fulltrúa og málsvara fyrir sig á þingi þjóðarinnar.

Hlutfallskjörnir þm. í stórum kjördæmum geta aldrei fyllt það skarð, sem verður, þegar héruðin eru svipt sínum sérstöku fulltrúum. Þeir þekkja aðeins tiltölulega fáa kjósendur á hinum stóru svæðum. Þá skortir það samband við fólkið og þekkingu á kjörum þess og aðstöðu allri, sem þm. þurfa að hafa og margir kjördæmakjörnir þm. hafa nú. Þm. stóru kjördæmanna hafa ekki möguleika til að kynnast héruðunum innan þeirra og fólkinu, sem þar býr, nema að mjög takmörkuðu leyti, og án þess kunnugleika geta þeir ekki innt sín umboðsstörf af hendi, svo að vel fari.

Það eru óviturlegar till., sem hér eru fram bornar í frv.-formi. Þær munu, ef samþykktar verða, leiða til ófarnaðar ekki aðeins fyrir það fólk, sem þar með verður svipt eðlilegum réttindum, heldur jafnframt fyrir þjóðina alla.

Menn þeirra flokka, sem standa að þessu frv., hafa mjög talað og skrifað um það, að einn flokkur lifi á ranglæti núverandi kjördæmaskipunar, sem þeir nefna svo, núverandi kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulag veiti þessum flokki, Framsfl., mikil forréttindi. Þetta skraf þeirra hefur ekki við nein rök áð styðjast. Stjórnarskráin veitir engum sérstökum stjórnmálaflokki forréttindi, allir flokkar hafa sama rétt til að keppa um þingsæti, jafnt í fjölmennum sem fámennum kjördæmum, og utanflokkamenn hafa það einnig enn þá.

Ég vil nefna hér dæmi um eitt fámennt kjördæmi, það er Seyðisfjarðarkaupstaður. Árin 1931–42 var Alþýðuflokksmaður þm. þess kjördæmis. Næstu 14 árin var þm. þess í Sjálfstfl. Aldrei heyrðist talað um það á þeim árum, að það væru forréttindi fyrir Alþfl. og Sjálfstfl. að hafa þm. fyrir þetta fámenna kjördæmi. Það voru heldur engin fríðindi eða forréttindi þeim til handa. Það eru þá ekki heldur nein forréttindi fyrir Framsfl., þó að núverandi þm. þessa kjördæmis sé í þeim flokki. En meiri hl. stjskrn. heldur enn fram þessari vitleysu um forréttindi eins flokks í nál. sínu á þskj. 406. Að sjálfsögðu vita allir þessir menn vel, að þeir eru hér að fara með ósannindi. En ef til vill gera þeir ráð fyrir að geta veitt einhverja kjósendur, sem lítið hugsa, í þetta net sitt, og því leggja þeir það út. Þeir bera ekki svo mikla virðingu fyrir sjálfum sér, að þeir hiki við að fara með ósannindin, ef verða mættu þeirra illa málstað til nokkurs framdráttar í bili.

Aðstandendur þessa frv. segjast trúa á ágæti hlutfallskosningafyrirkomulagsins. En þeir eru blendnir í trúnni. Um það vitna oft verk þeirra og saga þeirra öll. Þeir segja, að þm. eigi að kjósa með þessu fyrirkomulagi einkum til þess að tryggja rétt minni hlutans. En þegar búið er að kjósa þm. á þing og þeir eru komnir þar til starfa og eiga m. a. að velja framkvæmdastjórn ríkisins, sem við nefnum ríkisstjórn, þá er allt í einu horfið frá þessu ágæta fyrirkomulagi, hlutfallskosningum. Nú eru 52 menn á Alþingi. Ef 27 þeirra koma sér saman um val manna í ráðherrastóla, eins og nýverið hefur gerzt hér og öllum er í fersku minni, þá gildir það, hinir 25 hafa þar ekkert að segja. Skyndilega er hér breyting á orðin, engin þörf lengur að tryggja rétt minni hlutans eða láta hann hafa nokkra valdaaðstöðu í ríkisstjórninni, hann má una við réttleysið. Þannig er hollusta þeirra manna, er standa að þessu frv., við réttlætið, sem þeir segjast vera að þjóna. Þegar að því kemur að velja menn í hæstu sætin, þá varpa þeir öllu sínu réttlæti fyrir borð.

Og hvernig haga þeir sér í ýmiss konar félagsskap, þar sem þeir eru þátttakendur og ráðamenn, t.d. í stéttarfélögunum? Það hefur nokkuð verið minnzt á það af öðrum í þessum umræðum, engar hlutfallskosningar eru þar. Oft hefur verið talað um það, að á næstsíðasta Alþýðusambandsþingi, þar sem nokkur hundruð fulltrúar áttu sæti, hafi mjög naumur meiri hluti fengið alla fulltrúana í stjórn sambandsins. Það þykir gott á þeim bæ. Enginn skilji orð mín svo, að ég telji, að í slíkum félagsskap eigi að hafa hlutfallskosningar, og ekki mundi ég vera með í því að lögbjóða slíkt, það er vitanlega mál, sem félagsmenn í slíkum samtökum eiga að ákveða sjálfir, hvaða kosningafyrirkomulag þeir nota. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi um það, að þeir menn, sem boða ágæti hlutfallskosninga, afneita trú sinni í verkum.

Með stjórnarskrárbreytingunni 1942 var gengið lengra en áður út á braut hlutfallskosninga. Í þessu frv. er lagt til, að framvegis verði allir þm. kjörnir með hlutfallskosningafyrirkomulagi í stórum kjördæmum. Jafnframt eiga ákvæðin um flokkskjörnu þm., uppbótarþm., að haldast. Hér er því haldið enn lengra út á braut flokksræðisins, vald flokkanna og flokksstjórnanna á enn að efla. Það er ástæða til að íhuga, hvernig hlutfallskosningar hafa gefizt hjá okkur og uppbótarsætafyrirkomulagið. Við þetta hefur þjóðin búið í 25 ár. Hvað er það, sem hefur öðru fremur sett svip sinn á þingstörfin og stjórnarfarið hjá okkur á þessu tímabili? Enginn einn flokkur hefur haft meiri hluta og því ekki getað stjórnað samkv. sinni stefnu, og engin varanleg samvinna tveggja eða fleiri flokka hefur tekizt. Langvarandi samningaumleitanir milli flokka um stjórnarmyndanir og afgreiðslu mála hafa tafið þingstörfin um lengri tíma, oft svo að skiptir mánuðum. Í samningaþófinu verða flokkarnir að víkja út af þeirri leið, sem þeir hefðu kosið að fara. Afleiðingin er oft sú, að ekki er fylgt neinni ákveðinni og skýrt markaðri stefnu í veigamiklum málum, sem úrlausnar krefjast. Þetta er öllum vel kunnugt, ég þarf ekki að rekja þá sögu meir. Fullvíst er, að í þessum efnum fást engar umbætur með því að samþykkja frv., sem hér liggur fyrir. Það er þvert á móti líklegt til að auka til stórra muna á þann glundroða og þau vandræði, sem ég hef hér nefnt. Til lækningar á því ástandi þarf að grípa til annarra ráða. Þetta er sumum öðrum þjóðum ljóst, sem um þessar mundir eru að hverfa frá hlutfallskosningafyrirkomulaginu eða fjalla um till. um slíkt, í því skyni að koma á hjá sér heilbrigðara stjórnarfari.

Frsm. meiri hl. stjskrn., hv. 1. þm. Reykv. (BBen), sagði í ræðu sinni hér í dag, að það þyrfti að vera sama kosningaaðferðin um land allt. Þetta er eitt af því, sem er nýtilkomið hjá þeim hv. þm. Við höfum hér undanfarið lengi búið við það, sem kalla mætti blandað kosningakerfi. Það eru hlutfallskosningar í sumum kjördæmum, en flest kjördæmin einmenningskjördæmi. Og hverjir voru það, sem komu þessu fyrirkomulagi á, sem við nú búum við? Ekki sízt flokkur hv. 1. þm. Reykv. (BBen), sem átti mikinn hlut að þeirri breyt., sem gerð var á kosningatilhögun með stjórnarskrárbreytingunni 1933 og aftur 1942, og með þeim flokki var þá einnig Alþfl. í fyrra skiptið og Sameiningarflokkur alþýðu í síðara skiptið, en það eru þessir þrír flokkar, sem standa að því frv., sem hér er til umr. Þeim þótti þá vel nothæft að hafa blandað fyrirkomulag, og það hefur verið bent á það í þessum umr., að slíkt þekkist í öðrum löndum, t.d. í Vestur-Þýzkalandi, sem er öðrum löndum til fyrirmyndar nú á margan hátt.

Hv. 1. þm. Reykv. vitnaði mjög í ræðu sinni í fyrirkomulag búnaðarþingskosninga og taldi, að þetta væri, skildist mér, nokkuð sniðið eftir þeim. Hann á að vita það, þessi hv. þm., og hlýtur að vita það, að einmitt þar er notað hvort tveggja, hlutfallskosningar, þar sem kosnir eru tveir og allt upp í fimm þm. til búnaðarþings á hverju kjörsvæði, en svo eru líka margir þeirra kosnir í einmenningskjördæmum. Og þess hefur ekki orðið vart, að það yrðu neinir árekstrar út af þessu eða að það torveldaði á neinn hátt eðlileg störf búnaðarþings, þó að þannig væri um tvenns konar kosningafyrirkomulag að ræða til þeirrar stofnunar. Allt fer þar vel.

Meiri hl. stjskrn. mælir með samþykkt þessa frv. Hann styður árásina á hin sérstöku kjördæmi og vill svipta þau sjálfstæði sínu, og hann hefur valið sitt orðalag til að lýsa verknaðinum. Í nál. sínu talar hann um bróðurhönd til fámennisins. Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti, sem helgislepjan lekur af yfirgangsmönnum, þegar þeir eru að framkvæma sín ofbeldisverk.

Og Morgunblaðið tekur upp sitt stóra letur, þegar það segir frá nál. meiri hl. Það dregur einmitt þetta fram með bróðurhöndina í stóru fyrirsögnina, sem nær þar þvert yfir síðu.

Hvernig skyldi það hafa verið í Þýzkalandi fyrir tuttugu árum, þegar einvaldsherrann þar var að svipta nágrannana sjálfstæði sinu? Ætli hann og hans menn hafi þá ekki að eigin dómi verið að rétta bróðurhönd til fámennisins? Var það ekki sams konar bróðurhönd, sem aðrir réttu Eystrasaltsríkjunum nokkru síðar, þegar þau voru svipt sjálfstæði sínu? Var það ekki, að sögn yfirgangsmannanna, eingöngu gert fyrir þau sjálf? Sögðu þeir ekki, að þau yrðu sterkari með því að sameinast fjölmennari ríkjum? Er það ekki svipuð bróðurhönd, sem nú hefur verið rétt fram austur í Tíbet? Bróðurhöndin hefur líka sézt hér á okkar landi um þessar mundir. Nál. meri hl. stjskrn. var útbýtt hér á þingi í þessari viku, þriðjudaginn í síðustu viku vetrar. Þann sama dag var bróðurhöndin að verki hér í þingsölunum. Það voru greidd atkv. um fjárlagafrv. að lokinni 2. umr. þess. Þar voru að sjálfsögðu greidd atkv. um margar till., er snertu mörg mál. Ég ætla ekki að gera hér að umtalsefni nema eitt mál, sem þar voru greidd atkvæði um. Þeir stjórnarstuðningsmenn, sem skipa meiri hl. stjskrn., réttu upp sínar bróðurhendur til þess að lækka fjárframlagið til raforkuframkvæmdanna um meira en 10 millj. kr., og flokksbræður þeirra allir réttu líka fram sínar bróðurhendur að þessu verki.

Fjórir af þeim fimm hv. þm., sem standa að nál. meiri hl., eru búsettir hér í Reykjavík, höfuðborg landsins. Reykvíkingar hafa fyrir alllöngu fengið rafmagn frá stórvirkjun í Árnessýslu til heimilisþarfa og annarrar notkunar. Þeir fengu það á sínum tíma með aðstoð þjóðarheildarinnar. Án þeirrar aðstoðar hefði orðið dráttur á því, meiri eða minni, að Reykjavík fengi rafmagn til fullnægingar sinni þörf. Nokkur síðustu árin hefur ríkið lagt fram töluvert fé til rafstöðvabygginga og dreifingar raforkunnar um byggðir landsins. Margt fólk í kaupstöðum, kauptúnum og sveitahéruðum landsins hefur því fengið þessi mikilsverðu og eftirsóttu þægindi á undanförnum árum. En margir biða enn í von um að fá rafmagnið til sín til þess að gera heimilin bjartari, hlýrri og vístlegri og til þess að létta sér störfin.

Eins og ég sagði áður, eru fjórir af fimm mönnum í meiri hl. stjskrn. Reykvíkingar, en fimmti nm. er hv. 2. þm. Skagf. (JS), sem áður hefur nokkuð komið við sögu í umr. um þetta mál. Hann lét sig hafa það ásamt öðrum stuðningsmönnum stjórnarinnar að rétta upp sína bróðurhönd til stuðnings því að lækka framlagið til raforkuframkvæmda úti um land um meira en einn milljónatug. Afleiðingin verður sú, að fólkið í Skagafirði og mörgum öðrum héruðum þarf að bíða lengur, en annars hefði orðið eftir rafmagninu. Það lítur út fyrir, að núverandi stjórnarstuðningsmenn líti svo á, að fólkið úti um land geti vel beðið eftir rafmagninu, ef þeir fá það í staðinn, að hv. 2. þm. Skagf. og sálufélagar hans segjast vera að rétta því bróðurhönd. Hv. 2. þm. Skagf. er búinn að fá rafmagnið leitt heim á heimili sitt.

En hvað á að koma í staðinn fyrir þær breytingar á kjördæmaskipun, sem boðaðar eru í þessu frv.? Í stað þess ætti að koma nokkur fjölgun kjördæmakosinna þingmanna á þéttbýlustu stöðum landsins, þ. e. í Reykjavík og nokkrum öðrum stöðum. Þetta á að ákveða, og það er hægt að gera án þess að svipta önnur héruð rétti sínum til að hafa sérstaka fulltrúa á þingi. Þannig var áður unnið að þessum málum, t.d. rétt eftir síðustu aldamót. Þá var þm. bætt við í Reykjavík vegna fólksfjölgunar í bænum og lögákveðin nokkur ný kjördæmi á stöðum, þar sem veruleg fólksfjölgun hafði orðið. Hvers vegna geta menn ekki orðið sammála um þessa eðlilegu lausn á málinu? Þeir, sem ekki vilja á það fallast, hljóta að hafa einhver annarleg sjónarmið í huga.

Aðalatriði málsins er þetta: Héruðin, sem nú hafa sérstaka fulltrúa á Alþingi hvert fyrir sig, eiga að halda þeim rétti. Að svipta þau þeim réttindum með lagaboði er algerlega óverjandi athæfi og ósamboðið hinu háa Alþingi.