25.04.1959
Neðri deild: 116. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Hv. 5. landsk. þm. (BG) vék í ræðu sinni í gær að till. Austfirðinga og Norðlendinga og því, sem ég hafði áður sagt um það efni. Hann viðurkenndi, að sá skilningur minn væri réttur, að markmið fjórðungsþinganna á Austurlandi og Norðurlandi hefði verið með till. þeirra að reisa skorður við valdi höfuðborgarinnar. En með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er stefnt að því, að atkvæðamagn þéttbýlisins vegi meira um skipan Alþingis, en verið hefur. Það er stefnt að því að færa til þungamiðju valdsins, svo að notuð séu orð Jóns Þorlákssonar, sem hann viðhafði á sinni tíð, og er því augljóst, að þetta frv. stefnir ekki í sömu átt og till. fjórðungsþinganna gerðu. Þetta er meginatriði og í raun og veru það, sem úr sker um þennan samanburð.

Ég vefengi ekki, að hv. 5. landsk. þm. hafi farið með rétt mál, þar sem hann vitnaði í einstakar till., sem birtar höfðu verið hér og hvar og fram bornar á Austurlandi og Norðurlandi. En ég vil benda honum á, ef hann hefur ekki athugað það áður, að þær tilvitnanir allar eru í gögn, sem prentuð voru, á meðan málið var á umræðustigi. Nú er það svo, að þegar unnið er að tillögugerð, og m. a. má minna á það í sambandi við þetta frv., þá er rætt um ýmis atriði, sem verða ekki að niðurstöðu. Ef menn vilja sýna sanngirni í málflutningi, er eðlilegast að ræða málið eins og það liggur fyrir, þegar niðurstaða er fengin.

Nú var það svo, að þegar þessi mál höfðu verið á döfinni um alllanga hríð, var skipuð nefnd manna til þess að samræma þessar till. og fella þær í eina heild og móta þá niðurstöðu, sem fjórðungsþing Austfirðinga og Norðlendinga vildu gera að sínum till., og þeir 4 menn, sem kvaddir voru til að samræma sjónarmiðin og ganga frá þessum till., voru Hjálmar Vilhjálmsson þáverandi sýslumaður á Seyðisfirði, Erlendur Björnsson bæjarstjóri á Seyðisfirði, Jónas G. Rafnar lögfræðingur á Akureyri og Karl Kristjánsson oddviti á Húsavík, núverandi alþingismaður. Þegar þeir höfðu unnið þetta verk, var prentaður bæklingur, þar sem þessar niðurstöður eru felldar saman og liggja fyrir till. með grg., og það, sem ég sagði um þetta mál, byggði ég á því, sem endanlega varð að niðurstöðu.

Í þessum till. Austfirðinga og Norðlendinga kemur það glöggt fram, að þeir stefna að því að dreifa ríkisvaldinu, ekki aðeins að héruðin fái aukin áhrif á skipan Alþingis, heldur einnig að færa ýmsa þætti framkvæmdavaldsins út í héruðin, þ. á m. starfsemi, sem innflutningsskrifstofan hefur á hendi, auka bankastarfsemina úti í héruðunum o.s.frv. Ekkert liggur fyrir um það í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, að það sé ætlun þeirra, sem að því standa, að efla hin nýju kjördæmi á þann hátt að færa t.d. bankastarfsemi þangað og auka sjálfstæði þeirra landshluta í viðskiptalífinu gagnvart störfum, sem innflutningsskrifstofan innir af hendi, og annað slíkt. Ekkert slíkt hefur komið fram í þessum umræðum.

Við höfum báðir minnzt á í þessum umr., bæði hv. 5. landsk. og ég, það sem við köllum blandað kosningakerfi. Ég vil nú álíta, að við förum í þessu efni báðir með rétt mál. En við höfum ef til vill látið þetta hugtak, „blandað kosningakerfi“, ekki tákna nákvæmlega það sama. Mér virðist, að þegar hv. 5. landsk. talar um blandað kosningakerfi, þá eigi hann eingöngu við það, þegar mismunur er á kosningaaðferð eftir landshlutum innan ákveðins ríkis. Ég hef leyft mér að orða þetta þannig, tala um blandað kosningakerfi, þegar kosið er eftir tvennum reglum, tvennum eða jafnvel fleiri reglum, til löggjafarþings í einu ríki, þó að þar komi ekki til mismunandi aðferð eftir landshlutum innan ríkisins.

Hv. 5. landsk. vefengdi ekki þær tölur, sem ég dró fram í umræðunum um hlutfall kjósenda bak við þingmenn í einstökum kjördæmum Noregs. En hann vildi, hv. 5. landsk., draga af því þá ályktun, að með þeim till., sem hér lægju fyrir, væri landshlutunum, sem eru í fjarlægð við höfuðstaðinn, að minnsta kosti gert eins hátt undir höfði og gert væri í Noregi. Hér dregur hv. þm. fram dæmi eða samanburð, sem fær ekki staðizt, vegna þess að uppbótarsætin grípa inn í hér, en þau koma ekki til greina í Noregi.

Nú er það svo, að þegar litið er á það, hvort þéttbýlið á meiri eða minni þátt í kjöri uppbótarmannanna hér, þá ber að líta á þær reglur, sem beitt er við ákvörðun þá, sem farið er eftir við úthlutun uppbótarsæta. Í fyrsta lagi kemur til greina sú regla, að þegar ákveðið er, hvað hver flokkur á að fá mörg uppbótarsæti, þá er heildaratkvæðatala flokksins tekin til greina, hvar sem þau atkvæði eru greidd í landinu. Við þá ákvörðun er því atkvæðatala þéttbýlisins í fullu gildi miðað við atkvæðatölu strjálbýlisins. Það er því í raun og veru atkvæðatala þéttbýlisins, sem vegur mest, þegar ákveðið er, hvað hver flokkur fær marga uppbótarþingmenn. Það má því segja, að atkvæði þéttbýlisins skili vissum fjölda uppbótarmanna inn á þing. Og nú með þessum tillögum, sem hér liggja fyrir, þá virðist mér vera stefnt að því, að fullur jöfnuður muni nást milli þingflokka, þegar fyrst verður kosið hlutfallskosningu í nokkuð stórum kjördæmum, og þannig jafnast á milli flokkanna, að því leyti sem sú kosning segir til um, og síðan kemur úthlutun uppbótarsæta. Og nú er svo ráð fyrir gert í frv., sem hér liggur fyrir, að úthluta skuli 11 uppbótarsætum, hvernig sem hlutföllin eru milli flokkanna, þannig að af því leiðir það, að vel getur svo farið í framkvæmd, að allir flokkar fái uppbótarmann kjörinn, einn eða fleiri. Þegar búið er að koma á svona mikilli jöfnun, þá er ekki lengur hægt að tala um staðarlegt misrétti í raun og veru, þá skila atkvæðin í þéttbýlinu víssum fjölda landskjörinna þingmanna inn á þing auk hinna kjördæmakjörnu. Þá er ekkert eftir annað en það, að hinir einstöku þingmenn, sem taka sæti flokkanna sem landskjörnir þingmenn eða uppbótarmenn, þeir eiga ef til vill ekki búsetu í Reykjavík eða mesta þéttbýlinu. En meira að segja það atriði á ekki að vera bundið í stjórnarskránni samkv. frv. því. sem hér liggur fyrir.

Hv. 5. landsk. þm. vék að því, að einmenningskjördæmafyrirkomulagið hefði þann ókost hjá vaxandi þjóð, að vegna aukins fólksfjölda þyrfti stöðugt að fjölga kjördæmunum. Reynslan sýnir, að þetta er ekki á fullum rökum reist. Og jafnvel þótt ekki sé miðað við einmenningskjördæmafyrirkomulag, þá er nú samt rík tilhneiging til þess að fjölga þingsætum. M.a. kemur það fram í þessu frv., og mun þó hafa verið um það rætt á vissu stigi málsins að fjölga þm. meira, en varð að niðurstöðu. Þar er ekki einmenningskjördæmasjónarmiðið, sem lagt er til grundvallar, heldur þá jöfnuður milli flokka, þannig að það er fleira, sem kallar á fjölgun þm. hjá vaxandi þjóð, heldur en einmenningskjördæmin. En það hefur ætíð verið svo, síðan Alþingi a.m.k. fékk löggjafarvald, að fjöldi kjósenda í hinum einstöku kjördæmum hefur verið misjafn, og það er eftirtektarvert, að milli héraðanna innbyrðis hefur þetta engum ágreiningi valdið, þannig að eitt hérað hafi verið að gera kröfur á hendur öðru um jöfnuð þeirra á milli innbyrðis.

Kosningalögin, sem sett voru 1877, voru grundvölluð á stjórnarskránni frá 1874. En skömmu eftir að þau kosningalög tóku gildi eða nánar tiltekið 1880, þá var þannig ástatt hér á landi, að á bak við hvern þjóðkjörinn þm. voru 2.415 íbúar. Nú var það strax þá, að fjöldi íbúanna í einstökum kjördæmum var misjafn. T.d. hafði Suður-Þingeyjarsýsla 1880 1.352 íbúa fram yfir meðaltal, en Norður-Þingeyjarsýsla hafði aftur á móti 846 íbúa neðan við meðaltalið. Svipað er að segja um t.d. Snæfellsnessýslu, hún hafði 857 íbúa umfram meðaltal, en Strandasýsla 554 undir meðaltali. Nú eru engin dæmi þess, að þessi héruð innbyrðis, sýslurnar, hafi borið fram kröfur um það að fá þessu breytt. Það er ekki kunnugt um, að Suður-Þingeyingar hafi nokkurn tíma amazt við því, að Norður-Þingeyingar kysu sinn sérstaka fulltrúa, þrátt fyrir það að það sé fámennara hérað. Nei, jöfnunin, sem talið er nauðsynlegt að framkvæma á milli héraðanna, kröfurnar um þann jöfnuð koma ekki heiman að frá fólkinu sjálfu eða forustumönnunum í héruðunum, kröfurnar um það koma frá flokksstjórnunum, miðstjórnum flokkanna, sem hafa aðsetur hér í Reykjavík. Svona hefur þetta jafnan verið, og þannig er þetta nú með þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Þessi skipan, að láta hvert hérað og hvern hrepp kjósa sérstaka fulltrúa, á sér fornar rætur og er mjög rótföst í okkar þjóðskipulagi, ekki einungis gagnvart skipan Alþingis, heldur gagnvart héraðsstjórn allri. Það er kunnugt, að innan sýslnanna eru hrepparnir þær félagseiningar, sem kjósa t.d. sýslunefndirnar. Nú eru hrepparnir í hverri sýslu mjög misjafnir að fólksfjölda, og svo hefur ævinlega verið. En það er föst regla og forn hér á landi, að hver hreppur, hvort sem hann er fámennur eða fjölmennur, kýs einn mann í sýslunefnd, og allir hafa sýslunefndarmenn jöfn atkvæði, þegar málefni sýslunnar eru afgreidd. Og fólkið úti í héruðunum sættir sig svo vel við þessa fornu skipan, að þó að tilfærsla verði á íbúafjölda hreppanna innan sýslutakmarkanna, eins og ég þekki greinilega dæmi um, þar sem er vaxandi þorp, en heldur minnkandi sveitahreppar, þar sem ég er kunnugastur, þá eru aldrei bornar fram kröfur um jöfnuð að þessu leyti. Fólkið vill una hinu forna skipulagi og láta þann hrepp, sem hefur lægri fólkstölu, hafa það forna vald, sem hann hefur haft um skipun héraðsstjórnanna.

Í nál. meiri hl. stjskrn. standa þessi orð: „Ekki þarf að eyða orðum að þeirri fjarstæðu, að kjördæmi séu lögð niður með því að samelna þau og gera þau þannig sterkari. Sameinaðir stöndum við, en sundraðir föllum við, á ekki síður við í þessu sambandi, en öðrum.“

Mér finnst illa viðeigandi, að þessi orð skuli standa í nál. meiri hl. stjskrn. Það er öllum augljóst, hverjum manni, sem kominn er til vits og ára, að með því frv., sem hér liggur fyrir, er stefnt að því að stofna ný kjördæmi í landinu, 8 stór kjördæmi. Ekki er stefnt að því að hafa tvenns konar kjördæmakerfl, þannig að það verði bæði kosið eftirleiðis í sýslunum, einmenningskjördæmunum, sem nú eru, og í hinum nýju kjördæmum, sem á að stofna. Um leið og nýju kjördæmin eru stofnuð, eru því eldrí kjördæmin að sjálfsögðu lögð niður. Þetta skilur hver maður, sem kominn er til vits og ára. Og að mínu viti hafa allir þeir, sem standa að meiri hl. stjskrn., næga dómgreind til þess að skilja þetta mál til hlítar og gera hér greinarmun á réttu og röngu. En fyrst svo langt er gengið í þessari málfærslu að segja villandi frá svo augljósu efnisatriði eins og þessu, þá er í sjálfu sér ekki furða, þó að fleira sé þannig fram sett, að það þurfi ofur lítillar athugunar við.

Hér er vikið að því, að sýslurnar í landinu séu myndaðar þannig, að það séu hin gömlu skatthéruð konunganna og að með þeirri skipan, sem lögð er til í frv., sé tekinn upp þráðurinn, sem slitnaði, er þjóðveldi Íslendinga leið undir lok, kjördæmin nú svari að ýmsu til hinna fornu þinga og fjórðunga á okkar fyrri frelsisdögum, þá þurfti enginn að una því að vera í þingi með goða vegna þess eins, að þeir væru í sömu þinghá, heldur gat hann kosið hvern sem var í hinum sama fjórðungi. Mér virðist, að þetta sé dregið fram í nál. meiri hl. stjskrn. til þess að reyna að sýna sambandið á milli hinna fornu félagsheilda annars vegar og þeirra félagsheilda, þ.e.a.s. stóru kjördæmanna, sem nú eigi að stofna, og að sambandið sé hugsað þannig, að hin stóru kjördæmi samsvari að nokkru leyti fjórðungunum fornu, og vegna þess að bændur á þjóðveldisöldinni hafi haft frelsi til þess að segja sig í þing með einum goða og úr þingi hjá öðrum, þá sé hér verið að veita hliðstæðan rétt, að menn geti kosið mann af hvaða flokki sem er í hinum stóru kjördæmum. Ég fæ ekki betur skilið, en að sambandið sé hugsað á þennan veg með þessari líkingu.

Þegar þetta er athugað, verður fyrst að gera sér grein fyrir því, hverjar og hvernig hinar fornu félagsheildir voru. Þá koma fyrst til greina goðorðin, í öðru lagi þinghárnar og í þriðja lagi fjórðungarnir. Hér er sagt afdráttarlaust, að réttur bænda til þess að segja sig í þing með einum goða og úr þingi hjá öðrum hafi verið bundinn við fjórðunginn. Það er fræðilegt atriði, sem ég get látið liggja á milli hluta. En ég ætla það þó sannast mála, að fræðimenn greini nokkuð á um það, hvort þessi réttur var bundinn við fjórðunginn eða eitthvað víðtækari í víssum tilfellum. En ótvírætt er það, að þessi réttur var fyrir hendi.

Þá er á það að líta, ef samanburðurinn á að hafa gildi, hvort þessi forni réttur var bundinn við persónu manns fyrst og fremst eða við félagsheild, hvort hann var bundinn við — á nútímamáli — flokkslega heild. Þegar á þetta er litið, þá verður að gera sér grein fyrir því, að í fornu máli hefur orðið „þingmaður“ aðra merkingu en í nútímamáli. Þingmaður var að fornu sá, sem goðinn gat kvatt til þingferðar eða þingreiðar með sér, og þeir, sem fóru ekki til þings með goðanum, áttu þingfararkaupi að gegna til að standast þann kostnað, sem goðinn hafði af þinghaldinu. Og þingmennirnir mynduðu þingsveit goðans.

Nú er það augljóst, ef litið er á fornar heimildir, að þessi réttur til að segja sig í þing með einum goða var fyrst og fremst bundinn við persónu mannsins. Mér þykir það því furðulegra, að þetta skuli vera skráð í nál. meiri hl. stjskrn., vegna þess að einn flm. þessa frv. og einn þeirra manna, sem skrifar undir nál., hefur gert sér far um að kanna þetta atriði á fræðilegum grundvelli. Hv. 3. þm. Reykv. (EOl) fjallar um þetta atriði í bók sinni „Ættarsamfélag og ríkisvald“, og þar segir hann á bls. 97: „En merkasta ákvæðið, sem að því lýtur að tryggja rétt bænda til að velja goða, er rétturinn, sbr. 83. kafla þingskapaþáttar, til þess að segja sig úr þingi eins goða og í þing til annars.“ Og Einar Olgeirsson segir enn fremur, þar sem hann kveður upp úr með sína skoðun um þetta atriði á bls.93–94 í sömu bók: „Goðinn er trúnaðarmaður og forustumaður þingsveitarinnar, en ekki drottnari.“ Og enn fremur segir Einar Olgeirsson: „Goðinn er forustumaður og trúnaðarmaður bænda í þjóðfélaginu.“ Hér er þetta alveg skýrt og greinilega fram sett, sú skoðun, a.m.k. þessa nm. í meiri hl. stjskrn., að þessi réttur hafi fyrst og fremst verið bundinn við persónulegt tillit til goðans, en hafi ekki verið félagslegur réttur, sem var miðaður við félagsheildina.

En þótt þessi réttur væri fyrir hendi, sem ótvírætt er, þá hlaut að fara svo í framkvæmd í þjóðveldinu forna, að það væri fremur undantekning en meginregla, að einn þm. eða bóndi á þjóðveldisöld væri í goðorði í mikilli fjarlægð við heimili sitt. Það var margt í stjórnskipulaginu, sem knúði til þess, að þingmaður veldi sér goða þann höfðingja, sem næstur var bústað hans. Goðinn hafði á hendi forustu um löggjafarvaldið, og hann hafði á hendi dómnefnu bæði á vorþingunum heima í héruðum og eins í fjórðungs- og fimmtardómana. Og að því leyti sem framkvæmdavaldið í þjóðveldinu forna var til, þá var það raunar úti í héruðunum í höndum goðanna. Það voru því gagnkvæmir hagsmunir — goðans annars vegar að hafa þingsveit sína sem stærsta og sem næsta sér og hins vegar þingmannsins eða bóndans að vera skjólstæðingur þess héraðshöfðingja, sem næstur var vettvangi, — sem knúði til þess, að menn völdu sér yfirleitt þann goða, sem næstur var vettvangi.

En þá er á það að líta, hvort við það var unað í þjóðveldinu forna, þegar það var á blómaskeiði sínu, að þinghárnar væru mjög stórar, þær félagsheildir, sem þannig voru settar upp. Það er glöggt dæmi um það úr Norðlendingafjórðungi, því að í upphafi þjóðveldisins voru þar þrjár þinghár. En vegna þess að Þingeyingar neituðu að vera í sama þingi og Eyfirðingar og vegna þess að Húnvetningar neituðu að sækja til Skagafjarðar á héraðsþing þar, þá varð að breyta þessu og setja upp fjögur þing, fjórar þinghár í Norðlendingafjórðungi. Þetta hafði þau áhrif, að það varð að fjölga í lögréttu, og það hafði áhrif á skipun dómsvaldsins að víssu leyti, þannig að hinir fjórðungarnir urðu að fá inn í lögréttuna menn, sem höfðu löggjafarvald þar, en ekki vald á borð við goða heima í héraði, menn, sem oft eru nefndir goðagildi, og þeir fengu rétt til dómnefnu í fimmtardómi.

Þá er því haldið fram, að ekki sé samband á milli þinghánna fornu og sýslnanna, sem síðar urðu til, sýslurnar séu hin gömlu skattheimtuumdæmi konunganna. En þegar lítið er alveg sagnfræðilega og rökrétt á þetta mál, þá er augljóst, að það er greinilegt samband þarna á milli. Vorþingin voru ekki aðeins skattheimtuþing, heldur jafnframt héraðsdómur, og þinghárnar í Norðlendingafjórðungi voru fjórar: Þingeyraþing verður Húnavatnssýsla, Hegranesþing verður Skagafjarðarsýsla, Vaðlaþing verður Eyjafjarðarsýsla, Þingeyjarþing verður Þingeyjarsýsla, — og á Suðurlandi: Skaftafellsþing verður Skaftafellssýsla, Þingskálaþing verður Rangárvallasýsla, Árnesþing verður Árnessýsla, Kjalarnesþing verður Gullbringu- og Kjósarsýsla. Og sýslurnar tóku við af vorþingunum að því leyti, að dómstigið, héraðsdómurinn, var bundið við sýslurnar, þær urðu lögsagnarumdæmi.

Þegar þetta er skoðað sagnfræðilega, verður því ekki hnekkt, að sýsluskipanin, lögsagnarumdæmin í landinu og þar af leiðandi sú kjördæmaskipan, sem nú er í gildi, er forn arfur allt frá þjóðveldisöld.

Þá skal ég víkja að öðru atriði í nál. meiri hl. stjskrn., sem er nær nútímanum. Hér er í nál. vitnað til þess, að hlutfallskosningar urðu ekki Frakklandi að falli 1940, því að þá var kosið þar í einmenningskjördæmum. Enn er óvíst, hvernig til tekst um hina nýju kosningalöggjöf, er De Gaulle hefur nú komið á, en víst er, að valdataka hans var ekki með lýðræðislegum hætti.

Í umr. í gær gerði ég nokkurn samanburð á kosningafyrirkomulagi í ýmsum löndum, þ. á m. þeim mun, sem er á kosningafyrirkomulaginu í Frakklandi annars vegar og í Vestur-Þýzkalandi hins vegar. Það er rétt með farið hér, að kosningafyrirkomulag í Frakklandi hefur tekið tíðum breytingum. En mér finnst nú satt að segja seilzt um hurðarás til lokunnar, þegar sérstaklega er vitnað í árið 1940, vegna þess að þá stóð yfir heimsstyrjöld, og í raun og veru er erfitt að dæma um það, hvort eitt eða annað kosningafyrirkomulag á þátt í því, hvernig til tekst, þar sem stórveldi beita vopnavaldi.

En það er fróðlegt í sambandi við þetta mál að gera sér sem gleggsta grein fyrir því, hvaða tilraunir hafa verið gerðar í Frakklandi um breytingar á kosningafyrirkomulagi, síðan heimsstyrjöldinni lauk, og hver er aðdragandi þess þar, sem sagt er réttilega í nál., að valdataka þess manns, sem nú ræður mestu þar í landi, sé ekki með lýðræðislegum hætti.

Ég hef með höndum grg., sem tekin er saman í sendiráði Íslands í París og er algerlega óhlutdræg og sagnfræðileg um þennan þátt málsins. Til þess að koma í veg fyrir, að því verði haldið fram, að ég halli máli í frásögninni, vil ég — með leyfi hæstv. forseta — lesa orðrétt þann kafla úr þessari grg., sem að þessu atriði lýtur:

„Eftir síðari heimsstyrjöldina var ákveðið að semja nýja stjórnarskrá, og ráðgjafarþingið, sem í lok ófriðarins starfaði með bráðabirgðastjórn De Gaulles hershöfðingja, samdi frv. til nýrra kosningalaga til stjórnlagaþingsins.

Festu menn nú mjög augun á því ójafnræði, sem einmenningskjördæmin gætu skapað flokkunum, og það var nefnt sem dæmi, að komið hefði fyrir, að einn flokkur hefði ekki þurft nema 7.134 kjósendur til þess að koma að manni, en hjá öðrum hafi atkvæðin verið 66.385 eða nífalt fleiri á hvern kosinn þingmann. Þótti ráðgjafarþinginu meira réttlæti gagnvart flokkunum í hlutfallskosningum, og samþykkti það frv., sem gekk óvenjulangt í því að tryggja flokkunum „réttlæti“ í þessu efni.“ — Ég tek fram, að orðið réttlæti er hér innan gæsalappa.

„Meðal athyglisverðra atriða í frv. má geta þess, að flokkarnir áttu að fá uppbótarsæti, ef þeim nýttust ekki öll atkvæðin í kjördæmunum. Fyrst var þessum uppbótarsætum skipt innan stórra landssvæða. Skyldu talin saman þau atkvæði, sem hver flokkur átti afgangs úr kjördæmunum, og eitt uppbótarsæti veitt fyrir hver 30 þús. afgangsatkvæði. Þessir uppbótarþingmenn áttu að koma úr hópi frambjóðenda úr kjördæmunum og röð þeirra fara eftir því, hvaða kjördæmalistar flokksins áttu flest atkvæði afgangs. En nú gátu enn orðið afgangar, því að ekki er hver tala deilanleg með 30 þús. Þessi afgangsatkvæði skyldi flytja á landslista, sem flokkar eða flokkasamsteypur legðu fram í því skyni, og næðu menn kosningu af þeim listum eftir því, hvernig þeim væri á þá raðað.

Ekki féllst þáverandi ríkisstj. þó á þessar till. Mun innan hennar hafa verið talsvert ósamkomulag um þetta efni. En í ágúst 1945 gaf ríkisstjórnin út reglur um kosningarnar í október sama ár, sem í ýmsum efnum voru frábrugðnar óskum ráðgjafarþingsins. Hlutfallskosningum var að vísu haldið, en á talsvert öðrum grundvelli. Væru íbúar eins kjördæmis fleiri en 100 þús., skyldi bætt við þm. fyrir hver 100 þús. þar fram yfir og þó raunar þannig, að viðbótarsætið var veitt, þegar íbúatalan hafði náð 25 þús. fram yfir grunntöluna.

Til þess að varðveita sem nánast samband milli þingmanna og kjósenda var enn fremur ákveðið að kljúfa nokkur af stærstu héruðunum í tvö eða fleiri kjördæmi, þannig að aldrei væri fleiri, en níu þingmenn frá sama kjördæmi. Ekki var þá gert ráð fyrir neinum uppbótarsætum, og þau atkvæði, sem ekki nýttust innan síns kjördæmis, voru þar með úr sögunni. Innan hvers kjördæmis var hins vegar um að ræða hreinar hlutfallskosningar, eins og það hugtak er skilið á Íslandi. En þetta atriði er vert að taka fram, því að í Frakklandi hafa verið mjög skiptar skoðanir um fyrirkomulag hlutfallskosninga. Það, sem við köllum hreinar hlutfallskosningar, kalla Frakkar hlutfallskosningar með stærsta meðaltalinu, og ætti að vera óþarft að skýra það fyrirkomulag nánar hér.

Annað fyrirkomulag, sem í Frakklandi á ýmsa formælendur og gildir við bæjarstjórnarkosningar í París og víðar, er hlutfallskosning með uppbót fyrir þann, sem hefur flest atkvæðin afgangs. Er þá tölu greiddra atkvæða deilt með tölu þeirra fulltrúa, sem á að kjósa. Þeir listar, sem hafa hærra atkvæðamagn, en þessa meðaltölu, koma vitanlega að manni. Síðan er þessi meðaltala dregin frá hverjum þeim lista, sem hefur komið manni að, og síðan er litið á, hver eða hverjir eigi nú flest atkvæði afgangs. Það er augljóst, að þetta fyrirkomulag er smáflokkum haganlegt.

Með flestu eða öllu kosningafyrirkomulagi er hugsanlegt að fá fáránlegar niðurstöður, en þetta sýnist sérlega vel til þess fallið, og skal hér nefna dæmi.

Kjósa skal fimm fulltrúa og 25 þús. kjósendur greiða atkvæði. Listar eru fimm og fá þessa atkvæðatölu: A — 6001, B — 6000, C — 5999, D — 5998, E -1002. Meðaltal eða vísitalan fyrir þingmann er þá 5000. A, B, C og D koma að sjálfsögðu hver að einum manni, en ekki meira, því að E-listinn kemur að fimmta manninum, því að atkvæði hans eru aðeins fleiri en afgangur hinna, eftir að meðaltalan hefur verið dregin frá.

Kosningar til tveggja stjórnlagaþinga í október 1945 og í júní 1946 fóru nú fram samkvæmt þessu fyrirkomulagi. Var nú stofnað til þjóðþingsins sem aðaldeildar franska þingsins. Ræður þjóðþingið, hver fer með stjórnartaumana hverju sinni, og einnig mestu um löggjöfina. Fyrstu kosningar til þess fóru fram í nóvember 1946, og hélzt kerfi það, sem lýst var hér að framan, óbreytt í aðalatriðum. Þó var tala þingmanna nú ákveðin 1–11 í kjördæmi í stað 2–9 fulltrúa í kjördæmi, sem kosnir voru á stjórnlagaþingi. En allra víðast voru kosnir 3–5 þingmenn fyrir kjördæmi.

Í fyrstu var mikill andróður gegn þessu kosningafyrirkomulagi, einkum frá kommúnistum, sem óskuðu eftir uppbótarsætum á „landsvísu“ til þess að geta notað atkvæðin, sem þeir áttu afgangs hér og hvar. Töldu þeir þetta kerfi draga um of taum hinna minni kjördæma á kostnað stórborganna.

Reyndin varð þó sú vegna hins óskaplega klofnings borgaraflokkanna í Frakklandi í misstóra flokka og flokksbrot, að sýnt var, að það voru stóru flokkarnir, sem mest græddu á þessu fyrirkomulagi, og þá fyrst og fremst kommúnistar.

Fylgismenn De Gaulles höfðu ekki tekið þátt í kosningunum 1946 sem sérstakur flokkur, en síðar á kjörtímabilinu hóf hann hreyfingu sína á móti þingræðinu. Aðhylltust ýmsir þingmenn hreyfinguna, og var sýnilegt, að hún mundi hljóta mikinn fjölda þingsæta í kosningunum 1951.

Nú kom De Gaulle sér ekki saman við kommúnista um margt annað, en það að gera þingið sem óstarfhæfast. Er kosningar nálguðust, þóttust þingmenn annarra flokka sjá fram á, að vel gæti svo farið að kosningalögunum óbreyttum, að kommúnistar og hreyfing De Gaulles næðu hreinum meiri hluta sín á milli. Yrði þá engu máli fram komið og engin stjórn mynduð í landinu á þingræðislegan hátt. Hér varð því að taka í taumana til þess að vernda þingræðið og áhrif þingræðisflokkanna. Varð þetta til þess, að samþykktar voru enn víðtækar breytingar á kosningalögunum.

Að vísu var hlutfallskosningum enn haldið samkvæmt hinum nýju lögum, en með mjög breyttum hætti. Merkilegasta nýjungin var kjörbandalagið. Tveir eða fleiri listar gætu gert með sér kjörbandalag, þannig að öll atkvæði þeirra innan þess kjördæmis, sem bandalagið nær til, eru lögð saman, svo sem um einn lista væri að ræða.

Önnur næsta mikilsverð nýjung var sú, að fái ákveðinn listi eða listar í kjörbandalagi meiri hluta greiddra atkvæða, fær listinn alla þingmenn kjördæmisins.“

Ég læt nú lokið lestri úr þessari óhlutdrægu og alveg sagnfræðilegu grg., en hún er vel til þess fallin að átta sig á því, hver aðdragandinn er að þeirri niðurstöðu, sem orðin er í Frakklandi og hv. meiri hl. stjskrn, bendir á í áliti sínu, þannig að valdataka eins manns hafi farið þar fram og sé hún ekki með lýðræðislegum hætti.

Það, sem augljóst er, þegar á þetta er lítið alveg óhlutdrægt, er í fyrsta lagi það, hvað niðurstöður allar eru ótvíræðari, þegar einmenningskjördæmafyrirkomulaginu er haldið, hvort sem þar gildir meirihlutakosning, þannig að sá, sem flest fær atkvæðin, er kjörinn, eða jafnvel þó að hinni reglunni sé haldið, að sá, sem kjörinn er, þurfi að fá meiri hluta allra greiddra atkvæða. Það er grundvöllur, sem ávallt er ótvíræður að byggja niðurstöður á.

En það kemur m.a. fram í þessu, sem kunnugt er víðar að, að hlutfallskosningafyrirkomulagið er kerfi, sem hægt er að beita á ýmsa vegu með ýmsum útreikningum, bandalögum og mismunandi aðferðum til þess að finna fulltrúavalið, eftir að atkvæðagreiðslan hefur farið fram. Og t.d. í ríki eins og Frakklandi eru alveg sérstök orðtök um hinar ýmsu tegundir hlutfallskosninga, það er hlutfallskosning með stærsta meðaltalinu og það er hlutfallskosning með uppbót fyrir þann, sem flest atkvæði hefur afgangs, o.s.frv.

Það kemur einnig fram í þessari grg., að þó að hlutfallskosningum sé beitt, þá hugsa sumar þjóðir til þess og hafa framkvæmt það að koma á kosningabandalögum milli flokka. Og einmitt út af því, sem fram hefur komið í þessum umr. um þetta mál hér í sambandi við bandalag Alþfl. og Framsfl. í kosningunum 1956, sem sumir kalla Hræðslubandalag og segja að hafi knúið til þess í raun og veru að ráðast í þá breytingu, sem hér er stofnað til á stjórnarskránni, þá þykir mér rétt að víkja að því, hver þróunin hefur orðið í þessu efni í Noregi, síðan þar voru teknar upp hlutfallskosningar.

Eins og kunnugt er, var um langa hríð einmenningskjördæmafyrirkomulag í Noregi. En fyrir alllöngu var landinu skipt í 20 kjördæmi með hlutfallskosningum, eins og hér var rakið á fundi í gær. Nú er það staðreynd, að á meðan einmenningskjördæmafyrirkomulagið var í gildi í Noregi, voru engin ákvæði í kosningalögum Noregs um kosningabandalög. Þau ákvæði eru fyrst tekin upp og felld inn í kosningalög Noregs nokkru eftir að kjördæmaskipuninni var breytt, og á árunum frá 1930 –49 voru í gildi í Noregi ákvæði um kosningabandalög og þau ákvæði voru oft hagnýtt í framkvæmd með ýmsum bandalögum milli flokka á tæplega tuttugu ára tímabili. En 1949 voru þessi ákvæði numin úr kosningalögum Noregs, en þá jafnframt lögákveðnar nýjar reglur um útreikning samkæmt hlutfallskosningum.

Svipað er að segja í Svíþjóð, að þegar ákvæðin um kosningabandalögin voru felld úr sænskum lögum, þá voru teknar upp, aðrar reglur en hér gilda um útreikning á niðurstöðum hlutfallskosninga. Að þessu máli öllu er vikið í tímariti, sem þingmenn hafa aðgang að, að jafnaði er lagt á borð þeirra, og vitna ég til þess um þetta atriði. En nú er það svo, að þó að ákvæðin um kosningabandalög hafi ekki verið í gildi í Noregi um nokkur ár, þá er þar í landi að nýju vöknuð hreyfing fyrir því að taka þau inn í kosningalögin aftur. Og á Stórþinginu 1957 fluttu fulltrúar fjögurra þingflokka frv. um þetta efni, og var það mjög til umræðu í norska Stórþinginu 1957, var að sönnu ekki lögfest þá, en málið er í athugun í Noregi.

Þó að ég skýri frá þessu sem sögulegri staðreynd, er ég ekki í því sambandi að spá neinu um það, hver þróunin verður að þessu leyti hér á landi. En ég bendi aðeins á, að með öðrum þjóðum hefur hlutfallskosningafyrirkomulag og stór kjördæmi ekki útilokað þann möguleika, að til kosningabandalaga sé stofnað. Og ef það ætti nú eftir að koma á daginn, að þróunin hér yrði svipuð og hún hefur orðið að þessu leyti í ýmsum öðrum löndum, sem tekið hafa upp stór kjördæmi með hlutfallskosningum, þá má svo fara, að íslenzki löggjafinn eigi eftir að hafa til meðferðar tillögur um, ja, kannske bæði kosningabandalög og um hlutfallskosningafyrirkomulag með breyttu formi frá því, sem nú er stofnað til, sbr. það, sem ég var að geta um í Frakklandi.

Hv. frsm. meiri hl. stjskrn., hv. 1. þm. Reykv. (BBen), vék að því í ræðu á fundi í gær, að tillögur þær, sem við í minni hl. stjskrn. berum nú fram, séu ekki alls kostar í samræmi við það, sem Framsfl. hefur áður látið frá sér fara í þessum efnum.

Þetta gefur mér tilefni til þess að benda á það enn að nýju og leggja á það sérstaka áherzlu, að megintillaga okkar í minni hl. stjskrn. er sú, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, verði ekki lögfest nú í skyndi, heldur stjórnarskrármálið í heild tekið til nánari athugunar og verði þá málið tekið til afgreiðslu á næsta reglulegu þingi eða í ársbyrjun 1960. Þetta er aðaltill. okkar í minni hl. stjskrn. En fari svo, að þessi aðaltill. okkar nái ekki samþykki, að vísa málinu frá nú, þá berum við fram til vara brtt. við þetta frv., sem nú liggur fyrir, og í þessu ljósi ber að skoða þær brtt., sem við gerum nú.

Framsfl. hefur ekki borið fram neitt frv. til stjórnskipunarlaga og hefur ekki í hyggju að gera það á þessu þingi. Hann vill fá nánari athugun á málinu. En við framsóknarmenn stöndum frammi fyrir því að taka afstöðu til frv., sem aðrir bera fram og á nú að koma undir atkvgr. hér í dag, og það er í sambandi við það frv., sem við berum fram þessar till., ef verða mætti til samkomulags í því skyni að bjarga því, sem bjargað verður fyrir héruðin, og að halda hinum forna grundvelli kjördæmaskipunarinnar í meginatriðum óbreyttum.

Þá vék hv. 1. þm. Reykv. að því, að það virtist einkennilegt, að svo líti út sem við framsóknarmenn vildum ekki unna Reykvíkingum jafnréttis í sambandi við kosningafyrirkomulagið við aðra staði á landinu.

Nú viðurkennir hv. þm., að skipting Reykjavíkur í einmenningskjördæmi hafi ekki fengið neinn hljómgrunn, og þannig er þetta orðað berum orðum í nál. meiri hl. Jafnframt er því haldið fram af meiri hl. stjskrn. og þeim, sem eru fylgismenn þessa frv., að þeir séu að koma á réttarbót fyrir héruðin, héruðin verði miklu sterkari heildir og betur sett, eftir að hin nýja skipan verður komin á, heldur en þau eru nú. Ef þessi rök eru rétt, þá liggur beint fyrir að draga þá ályktun af því, að Reykjavík hafi þegar hið góða hlutskipti, — og á þá að ásaka Framsfl. fyrir það að vilja ekki taka hið góða hlutskipti af Reykjavík? Nei, ásökunarefnið á hendur okkur hlýtur þá samkv. þessari röksemdaleiðslu hv. 1. þm. Reykv. og annarra fylgismanna frv. að vera það, að við framsóknarmenn séum ámælisverðir fyrir að vilja ekki láta héruðin verða aðnjótandi þeirra réttarbóta, sem þeir vilja koma fram. En við framsóknarmenn erum ekki hikandi við þá afstöðu, sem við höfum tekið gagnvart héruðunum, því að okkur vitanlega liggja ekki fyrir óskir frá héraðsbúum sjálfum í þá átt að fá þá breytingu, sem hér er stofnað til.

Þá er minnzt á það, hve erfitt það sé fyrir hin smáu sýslufélög að standa straum af ýmsum framkvæmdum í héruðunum, kosta skóla og annað því um líkt. Þetta gefur tilefni til þess að hugleiða, hvort með þeirri breyt. sem í frv. þessu felst, er stefnt að því af ráðnum hug að breyta sýsluskipaninni eða ekki. Í framsöguræðu hv. 1. þm. Reykv. hér kom fram, að sýslurnar ættu að haldast eftir sem áður, þó að þetta frv. verði samþ. og kjördæmunum við alþingiskosningar breytt. Ef það er rétt, að sýslurnar eigi að haldast eftir sem áður og verða hinar sjálfstæðu fjárhagsheildir úti í héruðunum, þá verða erfiðleikar þeirra fjárhagsheilda, sýslnanna, jafnmiklir eftir sem áður, hvað sem kjördæmaskipuninni líður, í sambandi við skólabyggingar og fleiri framkvæmdir. Þetta er því atriði, sem full ástæða er til að liggi ljóst fyrir, áður en þetta frv. er afgr. héðan úr d., því að sé það svo, að stefnt sé að því af ráðnum hug að bylta sýsluskipaninni líka í kjölfarið á þeirri byltingu, sem á að gera á kjördæmunum, þá er það viðhorf, sem vissulega er vert að ræða.

Þá vék hv. 1. þm. Reykv. að því í ræðu sinni í gær, að hjá Framsfl. réði hentistefna í sambandi við kjördæmamálið, og virtist mega draga af því þá ályktun, að þar væri nú ólíku saman að jafna, þar sem Sjálfstfl. ætti í hlut annars vegar.

Ef til vill minnast menn þess, að Sjálfstfl. hefur látið það koma fram opinberlega, að hann gæti vel hugsað sér að hagnast flokkslega á kosningafyrirkomulaginu, eftir því sem auðið væri. Í Morgunblaðinu 23. júní 1953 er á forsíðu feitletruð grein með fyrirsögninni: „344 atkvæði“ — og í þessari grein segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„344 atkvæði standa í vegi fyrir heilbrigðu, ábyrgu meirihlutastjórnarfari á Íslandi í stað pólitískra hrossakaupa samsteypustjórnanna, þar sem illgerlegt er fyrir kjósendur að greina, hvaða flokkur á lof og hver last skilið fyrir stjórnarframkvæmd sína. Enginn flokkur stendur svo nærri því að öðlast hreinan meiri hluta á þingi þjóðarinnar sem Sjálfstfl., og það er öllum sjálfstæðismönnum hvöt til þess að herða baráttu og efla sóknina fyrir heilbrigðu, haftalausu stjórnarfari, meirihlutastjórn Sjálfstfl. — Atkvæðin, sem Sjálfstfl. skortir, eru þessi: í Hafnarfirði 52, á Ísafirði 5, á Siglufirði 84, Mýrasýslu 9, Dalasýslu 6, í V.-Ísafjarðarsýslu 82, í V.-Húnavatnssýslu 50, í N.-Múlasýslu 26, í A.-Skaftafellssýslu 27 og í V.-Skaftafellssýslu 3.“

Hér er einungis talað um 344 atkvæði, en ekki minnzt á það þá, að Sjálfstfl. hafði hlotið, þegar þessi atkvæðatala er reiknuð, 39.5% atkv. Það er ekki verið að spjalla um það, að flokkinn vanti um 8.000 atkv. til þess að fá hreinan meiri hluta kjósenda í landinu. Það var ekki það, sem átti að standa í vegi fyrir heilbrigðu, ábyrgu stjórnarfari hér á landi, meirihlutastjórn Sjálfstfl., heldur einungis 344 atkv., sundurliðað á vissum stöðum á landinu.

Nú kunna menn að segja, að það sé hæpið að draga ályktanir af því, sem birtist í blöðum, þó að jafnvel aðalmálgagn flokks sé og það sé sett þar fram á mjög eftirtektarverðan og áberandi hátt. En einmitt skömmu áður, en þetta er skráð hafði Sjálfstfl. haldið landsfund, þar sem stefnan er mörkuð, ráð flokksins eru ráðin og málefni brotin til mergjar, og að sjálfsögðu lætur flokkur eins og Sjálfstfl. það ekki liggja í láginni, hvað hann leggur til á þjóðmálasviðinu. Í Morgunblaðinu er birt ályktun frá landsfundi Sjálfstfl. 1953 með feitletraðri fyrirsögn, sem er: „Stefna Sjálfstfl.“ og undirfyrirsögn: „Stjórnarskrármálið“. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn bendir á, að fulltrúar hans voru fyrstir til þess að leggja fram ákveðnar tillögur í stjórnarskrárnefndinni, lýsir fylgi sínu við þær og leggur áherzlu á, að lausn málsins verði hraðað, svo sem kostur er á. Sjálfstfl. telur tvær leiðir koma til greina við setningu nýrrar stjórnarskrár:

1. Samþykki tveggja þinga með þingrofi á milli, eins og núgildandi stjórnarskrá gerir ráð fyrir.

2. Málið sé falið sérstökum þjóðfundi til afgreiðslu og tillögur hans bornar undir þjóðaratkvæði.

Sjálfstfl. vill halda þingræðinu, en telur nauðsyn á: Að Alþingi fái stóraukið aðhald um að hraða stjórnarmyndun. Að endurbætur verði gerðar á kjördæmaskipuninni og telur tvær leiðir koma til greina:

1. Einmenningskjördæmi um land allt.

2. Nokkur stór kjördæmi með hlutfallskosningum.

Að stjórnarskráin verði þannig úr garði gerð, að hún stuðli að meiri hluta eins flokks, þar sem samstjórnir eru varhugaverðar heilbrigðum stjórnarháttum. Að í stjskr. séu Alþ. og ríkisstjórn veitt ríkt aðhald um gætilega meðferð opinbers fjár og afgreiðslu fjárlaga. Að héruð landsins fái aukna sjálfstjórn í sérmálum sínum.“

Hér er drepið á mjög mörg atriði, og ætla ég ekki að lengja mál mitt með því að gera þau ýtarlega að umtalsefni hvert um sig, en vil þó drepa á örfá atriði.

Þá verður það fyrst fyrir, að það kemur glöggt fram, að Sjálfstfl., landsfundur hans, hefur fyllilega talið koma til álita að afgreiða stjórnarskrármálið þannig, að það yrði falið til afgreiðslu sérstökum þjóðfundi og till. hans bornar undir þjóðaratkvæði. Þetta er mjög í samræmi við það, sem við í minni hl. stjskrn. leggjum nú til.

Þá er því fagnað hér, að sjálfstæðismenn urðu fyrstir til að leggja fram ákveðnar till. í stjskrn. Ja, þessar till. eru nú annaðhvort þetta eða hitt. Þær eru raunar ekki ákveðnari en svo, að þær jafngilda því, ef maður, sem ætlar í ferðalag, er spurður: Hvort ætlarðu vestur eða austur? — að hann svaraði: Ja, ég fer annað hvort. — Það er sem sé ómögulegt að átta sig á því eftir þessum tillögum, í hvora áttina skyldi stefnt. En nú er það komið á daginn með þessu frv., sem hér liggur fyrir, í hvora áttina hefur verið lagt upp til ferðar.

Þá er hér vikið að því, að það þurfi að veita aðhald um gætilega meðferð opinbers fjár og

afgreiðslu fjárl. Ef til vill er sú fjárlagaafgreiðsla, sem fer fram eiginlega næstum jafnhliða afgreiðslu þessa stjórnarskrármáls, einhver spegilmynd af framkvæmdinni í þessu efni, þegar áhrif Sjálfstfl. aukast á stjórn landsins.

En það, sem er meginatriðið, það sem er mergur þessa máls, þegar það er skoðað ofan í kjölinn, það er þetta, að stjskr. verði þannig úr garði gerð, að hún stuðli að meiri hl. eins flokks. Það eru því ekki aðeins atkvæðin 344, sem Sjálfstfl. hefði getað hugsað sér að þiggja til þess að taka að sér að öllu stjórn landsins, heldur jafnframt þykir ástæða til að líta til þess í sambandi við stjórnarskrármálið, að einn flokkur fái slíka aðstöðu.

Þá vildi hv. 1. þm. Reykv. andmæla því, að með ákvæðum þessa frv. væri stefnt að auknu flokksræði í landinu og skerðingu á rétti héraðanna í sambandi við að ákveða framboð o.fl. En það vildi svo til, að í ræðu sinni færði ræðumaðurinn sjálfur rök fyrir hinu gagnstæða. Hann fór að tala um það, að hv. 2. þm. Rang. hefði á sínum tíma verið þm. fyrir V.-Skaftafellssýslu, og hann fór að tala um það, hv. 1. þm. Reykv., að Gísli Guðmundsson, núverandi þm. N-Þ., væri svo hygginn maður og mikilhæfur, að það væri nú ekki hætta á því, að Framsfl. setti hann neðarlega á lista í Norðurlandskjördæminu, eftir að það verður stofnað samkv. þessu frv. En hv. þm. talaði ekki um það, og það var mjög hyggilegt af honum, að V.-Skaftfellingar mundu eftirleiðis velja fyrir frambjóðanda hv. núverandi 2. þm. Rang. eða að Norðlendingar mundu ákveða það, að Gísli Guðmundsson yrði ofarlega á lista. Nei, það var mjög hyggilegt af þessum hv. ræðumanni að taka þannig til orða, að Framsfl. muni ekki setja Gísla Guðmundsson neðarlega á listann. Það er viðurkenning á því, að það verður flokkurinn, flokksstjórnirnar, ekki aðeins hjá Framsfl., heldur hjá öllum flokkum, sem ráða mestu um það, hvernig listarnir verða skipaðir. Menn verða settir af flokksstjórnunum ofarlega eða neðarlega á listana.

Ég mun nú fara að ljúka máli mínu. Í þessum umr. hef ég dregið það fram, að með þessu frv. er stefnt að því að taka af héruðunum forn landsréttindi. Með þessu frv. er rofin söguleg þróun um kjördæmaskipun hér á landi. Það er augljóst, að þeir, sem frv. fylgja, gera sér grein fyrir þessu, því að aðalfyrirsögn í blaði hæstv. forsrh. og flokks hans, þegar frv. þetta er kynnt þjóðinni, er stórletruð á forsíðu þannig: „Mesta breyting á þingræðisskipulagi Íslendinga, síðan Alþ. var endurreist.“ — Mesta breyting á þingræðisskipulagi Íslendinga, síðan Alþ. var endurreist.

Ég hef bent á það, að með þessu frv. er stefnt að því að færa til þungamiðju valdsins í landinu, eins og Jón Þorláksson orðaði það fyrir allmörgum árum. Ég hef bent á það, að í þessu frv. er lengra gengið í þessa stefnu en t.d. frændur okkar Norðmenn hafa gert og ýmsar fleiri þjóðir. Það liggur fyrir, að í þetta er ráðizt af þeim, sem að þessu frv. standa, án þess að fyrir liggi um það samþykktir utan úr héruðunum. Þvert á móti liggja fyrir samþykktir, þar sem skorað er á Alþ. að falla frá því að afgreiða þetta mál nú.

Þá liggur það fyrir, að samkv. þessu frv. hlýtur flokksræðið að aukast, en persónulegt frelsi til þess að ráða frambjóðendur að minnka og í raun og veru fyrir það girt, að utanflokkamenn geti náð kosningu til Alþ., eftir að þessi skipan hefur verið lögfest.

Allt þetta mál er skoðað út frá flokkssjónarmiði. Það eru flokkarnir, sem beita sér fyrir því að koma þessu máli fram til þess að ná svokölluðu réttlæti sín á milli, en kröfur um það liggja ekki fyrir úr hinum einstöku kjördæmum úti á landsbyggðinni. Það eru flokkarnir, sem vilja nú í skyndi laga stjskr. eftir sér og sínum hagsmunum í stað þess að gefa sér tóm til þess að athuga málið betur og laga sig eftir varanlegri stjskr. En það eru ekki flokkar, sem eiga þetta land og byggja það nú og framvegis, það eru ekki þeir stjórnmálaflokkar, sem nú starfa, heldur eru það einstaklingar, frjálsir einstaklingar, sem eiga landið og eiga að erfa það.

Þá hefur verið sýnt fram á, að með þessu frv. hlýtur að vera ýtt undir fjölgun stjórnmálaflokka í landinu, en hvarvetna leiðir það til þess að veikja þingræðið, en styrkir það ekki. Og enn fremur hefur það komið fram í þessum umr., að hlutfallskosningafyrirkomulagið er mismunandi í ýmsum löndum og beitt á mismunandi hátt á ýmsum tímum, en það leiðir til þess að veikja grundvöll þingræðisskipulagsins í stað þess að styrkja hann.