22.04.1959
Neðri deild: 114. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í C-deild Alþingistíðinda. (1478)

164. mál, Siglufjarðarvegur

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Það er aðeins af því, að 1. flm. þessa máls er hér ekki mættur, og þar sem orðið er mjög áliðið tímans, tel ég óhyggilegt, að þetta mál komist ekki áfram eða frestað sé því, að þessari 1. umr. ljúki, að ég stend hér upp, því að í raun og veru hafði ég ekki gert ráð fyrir að þurfa að tala hér í þessu máli.

Það er þá um það að segja, að þessi vegalagning, sem hér um ræðir, er mikið áhugamál, ekki aðeins Siglufjarðarkaupstaðar, heldur einnig Skagfirðinga. Siglufjörður er þannig settur, að hann er í raun og veru vegasambandslaus oft og einatt 3/4 hluta ársins og er því full nauðsyn á þessu. Sá vegur, sem hér um ræðir, er þegar lögákveðinn, Siglufjarðarvegur ytri, en sú nýjung, sem hér kemur til greina, er það, að Siglufjarðarkaupstað og Skagafjarðarsýslu ásamt Sauðárkróki heimilist að leggja gjald á allar þær bifreiðar og vélknúin farartæki, sem fara um hin fyrirhuguðu bílagöng í Strákafjalli, og að gjald þetta sé ákveðið með sérstakri gjaldskrá, sem þessir aðilar hafa komið sér saman um og ráðh. hefur staðfest.

Þetta er í rann og veru það, sem er nýtt í þessu máli, og enn fremur, að ríkisstj. er heimilað að taka allt að 12 millj. kr. lán til þess að koma þessu verki í framkvæmd. En eins og grg. ber með sér, er aðalkostnaðurinn við þetta jarðgöngin, sem eru áætluð að kosti eitthvað á 9. millj. kr., en hitt er svo vegagerð, bæði út eftir eða frá göngunum og að þeim.

Það var enn fremur ljóst, er farið var að ræða þetta mál, að lítið gagn væri að því, að göngin væru gerð, ef ekki væri jafnhliða séð fyrir öruggum og góðum vegi alla leið inn í Fljót eða þangað, sem vegagerð ríkisins er nú komin, sem er í Sléttuhlíðinni. Þess vegna er það tekið hér upp. Þetta frumvarp tekur því ekki aðeins til lagningar Siglufjarðarvegar ytri, Strákavegar, heldur Siglufjarðarvegarins, sem þá tekur við, allt inn að Stafá, en það er í þeirri leið, sem í raun og veru þarf gagngera breytingu á veginum og gera nýjan veg á stórum kafla, til þess að þetta mikla mannvirki, göngin gegnum Stráka, komi að nokkrum notum.

Það liggur hér fyrir og fylgir grg. sem fylgiskjal ályktun bæjarstjórnar eða bæjarráðs Siglufjarðar, og enn fremur er hér skeyti til okkar þm. Skagfirðinga, þar sem sýslunefnd Skagafjarðarsýslu lýsir yfir, að hún er fús til að taka á sig greiðslu vaxta af lánum, og sömuleiðis mun Sauðárkrókskaupstaður taka þátt í þessu.

Á þessu stigi sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar. Þetta er að vísu ný leið, sem er hér farin, en ég vænti að heppnist, og það er áreiðanlegt, að verði þessi leið farin, þá er þetta fljótvirkasta leiðin til þess að koma þessu verki áleiðis.

Ég ætla svo ekki að mæla frekar fyrir þessu. Ég sé, að 1. flm. er kominn, sem ég veit að er undirbúinn að mæla fyrir þessari till., og læt því máli mínu lokið.