29.04.1960
Efri deild: 67. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3140 í B-deild Alþingistíðinda. (1443)

57. mál, orlof húsmæðra

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Og kvaddi mér hljóðs einungis í því skyni að benda á, hvort ekki muni vera ástæða til þess að orða ákvæði um eitt atriði í frv. skýrar en þar er gert. En áður en ég vík að því, vil ég láta þá skoðun í ljós, að með þessu frv. er vissulega stefnt í rétta átt. Starf húsmæðra er mjög bindandi, hvar sem er á landinu, og þó ekki sízt starf þeirra húsmæðra, sem öðrum þræði verða að leggja fram krafta sína við atvinnurekstur, eins og er yfirleitt um húsmæður í sveitum og sumar húsmæður í kaupstöðum líka.

Í 1. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir því, að komið verði á fót orlofsnefndum, einni eða fleiri, á starfssvæði hvers héraðssambands kvenfélaga. Og hlutverk þessara orlofsnefnda á að vera það að sjá um veitingu orlofsfjár til húsmæðra, skipulagningu hvíldarstaða þeirra, ferðalaga og fleiri verkefni. Og þessar orlofsnefndir á að kjósa á aðalfundi hlutaðeigandi héraðssambands. Mér finnst eðlilegt, að það sé látið óbundið í lögum, hve stórt hvert orlofssvæði er. Mér finnst því þessi ákvæði 1. gr. eðlileg. Það er áreiðanlega eðlilegt og hagkvæmast, að skipulagt sé í einu lagi ferðalag og dvöl þess hóps, sem nýtur orlofsins sameiginlega, hvort sem það eru konur úr einu sveitarfélagi eða af stærra svæði. Og skipting orlofssvæðanna hlýtur því að fara bæði eftir fjölmenni í hverju sveitarfélagi og landfræðilegum staðháttum. En þegar kemur að því, að úthluta orlofsfé samkvæmt ákvæðum 5. gr., á að hafa til hliðsjónar og taka tillit til persónulegra ástæðna þess, sem orlofsfjárins nýtur. Þá á að taka tillit til efnahags fjölskyldunnar, fjölda barna í heimilinu og aldurs þeirra, húsnæðis, heilsufars og annarra ástæðna. Það liggur í augum uppi, að svona persónulegar ástæður geta ekki aðrir metið en þeir, sem eru gagnkunnugir högum umsækjanda eða þess, sem orlofsfjárins á að njóta, enda skilst mér, að það sé ætlazt til þess skv. 5. gr., að auk þeirra orlofsnefnda, sem kosnar verða á aðalfundum héraðssambanda kvenfélaga, séu jafnframt til orlofsnefndir í hlutaðeigandi bæjar- og sveitarfélagi og til þeirra orlofsnefnda á að úthluta orlofsfénu. En ef þetta er rétt skilið, þá virðist mér, og það er það, sem ég vildi vekja eftirtekt á, — að það komi ekki fram í frv., eins og það er orðað nú, hvernig á að kjósa eða koma á fót þessum sérstöku orlofsnefndum í sveitarfélögunum, hvort þær á að kjósa af hlutaðeigandi kvenfélagi, þar sem það er til staðar, eða hvort þær á að kjósa af hlutaðeigandi sveitarstjórn — eða einhverjum öðrum aðila. Og nú er það svo, að í sumum hreppum eru ekki starfandi kvenfélög, en mér finnst fjarri lagi, að þær konur, sem búa í þeim hreppum, yrðu útilokaðar frá því að njóta orlofs. Ég ber ekki fram till. um þetta, en við fljótan yfirlestur hef ég veitt þessu eftirtekt og vil við þessa umr. vekja athygli á því, ef n., sem hefur haft frv. til meðferðar, sýnist ástæða til milli umræðna að taka þetta til athugunar.