28.10.1960
Efri deild: 12. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í C-deild Alþingistíðinda. (2197)

33. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. 1. flm. þessa frv., hv. 2. þm. Vestf., lýsti því yfir í frumræðu sinni í gær, að tilgangur hans væri ekki að ræða landhelgismálið í heild að fyrra bragði í þessum umr. Hann gerði í sinni frumræðu grein í stórum dráttum fyrir frv. sjálfu, eins og það liggur fyrir. Skildi ég þennan hv. þm. á þann veg, að það væri ekki tilgangur hans að fyrra bragði að fara að stofna til deilna um landhelgismálið í heild í sambandi við flutning þessa frv. og umr. um það.

Annar flm. frv., 5. þm. Reykn., fór hins vegar á allt annan veg að. Hann ræddi frv. sjálft mjög lítið. Ræða hans snerist að langsamlega mestu leyti um landhelgismálið í heild. Mál sitt flutti þessi hv. þm. á þann veg, að hann varð ekki öðruvísi skilinn en tilgangur hans væri að opna fyrir deilur og átök um landhelgismálið sjálft í sambandi við þetta frv.

Ég tel það mjög illa farið, að stofnað skuli til átaka og illdeilna um landhelgismálið á Alþingi, eins og málið nú stendur. Það er vitað mál, að íslenzka þjóðin er einhuga í þessu máli og telur það réttilega eitt af sínum mestu velferðarmálum. Íslendingar standa saman um það sem einn maður, að halda beri þannig á málinu, að rétti og hagsmunum Íslendinga sé sem bezt borgið. Þetta greinir íslendinga ekki á um. Hins vegar er vitað, að út á við er við ramman reip að draga í þessu máli. Það er við erlenda þjóð að deila og það er við erlenda þjóð að kljást um úrlausn málsins. Í slíkum átökum skiptir það að sjálfsögðu miklu máli fyrir þjóðina, að hún standi saman sem einn maður og að ekki sé stofnað til neinna átaka um málið innanlands, fyrr en eitthvað það hefur gerzt í því, sem gefur tilefni til slíkra átaka. Ekkert slíkt tilefni hefur gefizt til þessa. Þess vegna er það hið mesta óhappaverk að vera nú að stofna til illdeilna um málið og reyna að koma því út og koma því inn hjá öðrum, að Íslendingar standi hér ekki saman.

Hv. 5. þm. Reykn, vitnaði í ræðu sinni hvað eftir annað í fundargerðir utanrmn. og ummæli mín á fundum n. Ég hirði ekki um að vera að rekja einstök ummæli, sem þm. bar mig fyrir í sinni ræðu. Ég tel slíkt með öllu ástæðulaust og ekki rétt að vera að blanda því inn í málið á þessu stigi. Það vil ég aðeins segja í heild, að þm. hafði víða alrangt eftir mér, sleit ummælin víða úr sambandi og gaf mönnum rangar hugmyndir um minn málflutning og mína afstöðu til málsins í utanrmn. Ég tek þetta fram hér í heild, til þess að ekki skuli vera þannig litið á, að ég undirstriki með þögn það, sem þessi hv. þm. vildi hafa eftir mér í sambandi við utanrmn., en sé hins vegar ekki ástæðu til að vera að elta ólar við einstök ummæli.

Þá kvartaði þessi hv. sami þm. undan því, að landhelgismálið hefði verið lítt rætt í utanrmn. og lítt hefði verið haft samráð við utanrmn. um málið. Einhvern veginn fann þessi hv. þm. hvöt hjá sér í þessu sambandi til að lýsa því yfir, að ef þess væri óskað af honum, að hann sýndi þann trúnað í sambandi við málið að skýra ekki frá því opinberlega, sem um það væri sagt í utanrmn., þá væri hann að sjálfsögðu reiðubúinn til að gefa einhverja slíka yfirlýsingu.

Það vekur strax út af fyrir sig dálitla athygli, að hv. þm. skuli telja sig alveg sérstaklega knúinn til að tala um trúnað, um leið og hann er að tala um meðferð vandasams utanríkismáls í sambandi við utanrmn. Það hefur áreiðanlega verið til þess ætlazt og ekki um að efast, að hafa skyldi sem fyllst samráð við utanrmn. um meðferð utanríkismála, og kemur mér ekki til hugar að andmæla slíku. En ég vil vekja athygli á, að einmitt sá hv. þm., sem er að kvarta undan samstarfsleysi við utanrmn., hefur með störfum sínum í n. tekið upp þau vinnubrögð að láta birta í blaði sínu nokkuð ýtarlegar frásagnir um það, sem sagt er og gert í utanrmn., strax næsta dag eða næstnæsta dag, um þær umræður, sem fara fram í utanrmn. Ég er út af fyrir sig ekki að kvarta undan því, þó að nefndarmenn í utanrmn. telji það heppilega meðferð mála að skýra viðstöðulaust í blöðum sínum opinberlega frá því, sem gerist í utanrmn. Ég er ekki að mælast undan því, að þetta verði gert, og ég er ekki að andmæla þessum vinnubrögðum. Nm. verða sjálfir að ráða því, hvort þeir telja slíkt heppilegt eða ekki. En á hitt vil ég benda, að þegar menn vita, að það er staðreynd, að svona vinnubrögð eru viðhöfð í n., þá hljóta menn að haga viðskiptum sínum við n. og umræðum á nefndarfundum með hliðsjón af því, að allt, sem þar er sagt, sé jafnharðan birt í blöðum. Ég vil vekja athygli á því, að það eru ekki aðeins Íslendingar, sem lesa og fylgjast með slíkum frásögnum af fundum utanrmn. Frásagnirnar eru þýddar og ganga til erlendra aðila, sem telja sig það einhverju skipta, hvað í málunum gerist, sem utanrmn. fjallar um. Frásagnir hv. 5. þm. Reykn. í Þjóðviljanum af umr. í utanrmn. eru sjálfsagt þýddar á ensku og ganga beint til brezka utanrrn., sem fylgist með málunum. Umr. í utanrmn., þegar svona er haldið á, fara því í rauninni fram með þeim hætti, að maður gengur út frá því, að þar séu erlendir fulltrúar, sem telja sig málin einhverju varða, mættir sem áheyrendur að fundum utanrmn. í boði hv. 5. þm. Reykn. Þetta verður að hafa í huga, þegar rætt er um störf utanrmn., og þetta ætti. hv. 5. þm. Reykn. að hafa í huga, þegar hann hefur óskað eftir umr. í n. og þegar hann er að láta blað sitt birta ýtarlegar frásagnir af því, sem þar fer fram.

Þá ræddi hv. 5. þm. Reykn. um viðræður þær, sem ríkisstj. hefur nú tekið upp við Breta út af landhelgisdeilunni. Hann átaldi mjög að þessar viðræður skyldu hafa verið teknar upp, og sagði, að ákvörðunin um viðræðurnar við Breta hafi verið tekin án samráðs við utanrmn., og sagði hann, að slíkt væri brot á loforði, sem ég hefði gefið utanrmn. á fundi hennar.

Ég vil í þessu sambandi minna á, að hinn 5. maí 1959 gerði Alþ. ályktun í landhelgismálinu. Í þessari ályktun var í fyrsta lagi lýst yfir, að við stæðum fast á okkar ákvörðun um 12 mílna fiskveiðilögsögu og teldum okkur eiga skilyrðislausan lagalegan rétt til hennar. En jafnframt er ákveðið, að að því skuli unnið að afla viðurkenningar annarra þjóða á rétti Íslendinga til landgrunnsins alls. Þessi ályktun Alþingis er fyrirmæli til ríkisstj. um að leita eftir viðurkenningu annarra þjóða á rétti Íslendinga til landgrunnsins alls. Þessi fyrirmæli Alþingis verða að sjálfsögðu ekki framkvæmd án þess, að ríkisstj. taki upp viðræður við þá aðila, sem leita á eftir viðurkenningu hjá. Það er vitað, að Bretar eru okkar erfiðustu andstæðingar í þessu máli, og það er því bein skylda ríkisstj. að taka upp viðræður við þá til þess að afla þeirrar viðurkenningar, sem Alþingi hefur falið ríkisstj. að leita eftir.

Þegar ríkisstj. því tekur upp viðræðurnar við Breta um fiskveiðideiluna, þá er hún að sjálfsögðu í fyrsta lagi ekki að gera nokkurn skapaðan hlut annan en þann, sem Alþingi berum orðum og afdráttarlaust hefur lagt fyrir hana að framkvæma.

En málinu er ekki öllu lokið hér með. Það er augljóst mál, að þó að við höfum fært okkar fiskveiðilögsögu út í 12 mílur og allar þjóðir nema Bretar eiri þeirri útfærslu, þá er landhelgismálinu ekki þar með lokið. Bretar hafa stundað veiðar með sínum togurum innan 12 mílnanna, og þó að þeir hættu því á tímabili í sumar, voru þeir byrjaðir á þessum veiðum aftur, og það var vitað, að við blasti, að þeir mundu halda þessum veiðum áfram og undir vernd herskipa sinna eins og áður. Ríkisstjórnin horfði því fram á það, að svo gæti farið í nánustu framtíð, að til alvarlegra árekstra kynni að leiða á hafinu kringum Ísland, — árekstra, sem jafnvel gætu þýtt tjón á mönnum og mannslífum. Það er að sjálfsögðu skylda hverrar ríkisstjórnar sem er að gera það, sem í hennar valdi stendur, til þess að koma í veg fyrir, að slíkt eigi sér stað. Það getur engin ríkisstjórn horft á það aðgerðalaus, að þegnum þjóðarinnar og lífi þeirra sé stofnað í hættu, ef hún sér nokkra leið til þess að koma í veg fyrir, að svo megi verða. Það er skylda ríkisstj., hvaða ríkisstj. sem er, að freista allra ráða til þess að komast hjá slíkri hættu. Og það er svo augljóst sem frekast má vera, að beinasta og sjálfsagðasta leiðin til þess að reyna að koma í veg fyrir slíkt er að ræða við þá, sem til slíkrar hættu vilja stofna, og reyna að fá þá ofan af sínum fyrirætlunum.

Við Íslendingar erum ein minnsta og fámennasta þjóð veraldar. Við eigum allt okkar undir því, að lög og réttur í heiminum séu viðurkennd og í heiðri höfð. Ekkert er okkur sem vopnlausri smáþjóð jafnhættulegt og það, ef ofbeldi ætti að ráða í ágreiningi þjóða á milli. En hvernig getum við Íslendingar krafizt þess af öðrum, að þeir taki til okkar fullt tillit og beiti ekki ofbeldi undir neinum kringumstæðum, ef við viljum ekki einu sinni ræða ágreiningsmálin með það fyrir augum að reyna að jafna þau? Ef við neitum að tala um það, sem á milli ber, hvernig í ósköpunum getum við þá krafizt þess af öðrum, að þeir ræði sín á milli hin stóru vandamál, sem úr þarf að leysa?

Við Íslendingar eigum mikið undir því, að aðrar þjóðir séu sannfærðar um það, að við í öllu okkar framferði og viðskiptum út á við förum að réttum lögum og göngum ekki lengra en lífshagsmunir okkar krefjast. Við Íslendingar höfum lagt á það megináherzlu í fiskveiðideilunni annars vegar, að aðgerðir okkar væru byggðar á fullum lögum og fullum alþjóðarétti, og hins vegar, að við gengjum ekki fetinu lengra í þeim málum en lífsnauðsyn okkar útheimti. Á alþjóðavettvangi hefur mjög verið dregið í efa, að aðgerðir okkar í landhelgismálinu væru á lögum reistar. Við höfum rætt þetta mál innan Sameinuðu þjóðanna, og þar hefur komið fram hjá þeim þjóðum, sem eru okkur andsnúnar í málinu, að þær efuðust um alþjóðlegan grundvöll til framkvæmda okkar í landhelgismálinu. Þær hafa boðið okkur upp á að fara eftir venjulegum reglum og leggja þennan ágreining undir úrskurð alþjóðadómstóls og að honum fengnum skyldu báðir aðilar hlíta þeirri niðurstöðu. Við Íslendingar höfum ekki óskað að fara þessa leið. Og við höfum á alþjóðavettvangi neitað að láta alþjóðadómstól skera úr þessum ágreiningi okkar.

Þá hefur því líka verið lýst yfir hvað eftir annað á alþjóðavettvangi, að fyrst við vildum ekki leggja þennan ágreining undir alþjóðadómstólinn í Haag og teldum, að við stæðum þarna í okkar fulla rétti, þá vildu aðrar þjóðir, sem telja sig hafa gagnstæða hagsmuni við okkur, ræða ágreininginn við okkur og freista þess að finna leið út úr ágreiningnum, sem allir aðilar gætu sætt sig við. Að neita slíkum viðræðum, eftir að búið er að neita að láta alþjóðadómstól fjalla um málið, það mundi tvímælalaust veikja svo aðstöðu okkar á alþjóðlegum vettvangi og í augum annarra þjóða, að það væri beint tilræði, ekki aðeins við landhelgismálið sjálft, heldur einnig við allt okkar álit út á við. Ég er því afdráttarlaust þeirrar skoðunar, að ríkisstj. hafi gert það eina, sem hægt var að gera í landhelgismálinu, eins og komið var, þegar hún féllst á að ræða landhelgismálið við Breta með það fyrir augum að reyna að komast hjá frekari deilum.

Hv. 5. þm. Reykn. sagði, að þegar ríkisstj. hefði tekið ákvörðun um að taka upp viðræður við Breta án þess að bera það áður undir utanrmn., þá hefði þar með verið rofið fyrirheit, sem ég hefði gefið n. Þetta er alrangt með farið hjá þessum hv. þm. Ég hef engar yfirlýsingar í þessu efni gefið utanrmn. nema eina. Þá yfirlýsingu gaf ég á fundi n. þann 10. ágúst 1960, þegar n. var skýrt frá, að búið væri að ákveða þessar viðræður. Þá sagði ég n., að þegar málið hefði skýrzt betur, mundi það lagt fyrir n. á ný.

Spurningin er því: Hefur málið nú skýrzt það betur en áður var, að ástæða sé til að ræða það sérstaklega í utanrmn.? Hvað er það, sem í rauninni hefur gerzt í þeim umr., sem fóru fram á milli Íslendinga og Breta fyrstu dagana í októbermánuði? Hæstv. forsrh. skýrði frá þessu í fáum orðum og stórum dráttum daginn sem Alþingi var sett. Af þeirri frásögn kom fram, að það eitt hafði í viðræðunum gerzt, að báðir aðilar höfðu skýrt afstöðu sína til málsins.

Við Íslendingar gerðum grein fyrir okkar sjónarmiðum. Við gerðum grein fyrir okkar lagalega rétti til 12 mílnanna og þörf okkar fyrir vernd út í 12 mílur. Við bárum fram kröfuna um landgrunnið allt, alveg eins og þál. mælir fyrir. Hér gerðist ekkert annað en það, að því var fylgt eftir ákveðið, sem yfir hafði verið lýst, og málstaður og ástæður okkar skýrðar á sama hátt og við höfðum áður gert.

Bretar gerðu einnig grein fyrir sinni afstöðu til málsins. Þeirra afstaða er þekkt, hún kom seinast fram opinberlega á alþjóðaráðstefnunni í Genf. Þar kom það fram, að þeir vildu láta af andstöðu gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu gegn tímabundnum rétti til veiða á seinni 6 mílunum. Þessa afstöðu sína skýrðu Bretar í þessum viðræðum, sem hér fóru fram fyrstu dagana í október.

Af hálfu Íslendinga komu engar nýjar till. fram og engin ný tilboð. Bretar endurtóku og útskýrðu sína fyrri afstöðu. Þegar þetta hafði gerzt, þá var umr. frestað í n., enda var, eins og hæstv. forsrh. skýrði frá þingsetningardaginn, þannig til viðræðnanna stofnað af hálfu okkar Íslendinga, að þær væru aðeins byrjaðar, þegar Alþingi kæmi saman, án þess að nokkuð sérstakt nýtt ætti að hafa í þeim gerzt, til þess að hægt væri að hafa samráð við þm. og Alþingi, áður en málið færi lengra.

Það, sem fram hefur komið í umr. á milli Íslendinga og Breta út af fiskveiðideilunni, er því ekkert, sem gefur tilefni til þess, að þær séu sérstaklega ræddar í utanrmn. Hæstv. forsrh., eins og ég þegar hef sagt, skýrði Alþingi frá því í heild í stórum dráttum, hvað hafði gerzt, og við það er í rauninni engu að bæta.

Hv. 5. þm. Reykn. sagði, að öðruvísi færu Bretar að en við í þessu máli. Þegar samninganefndin hefði komið frá Reykjavík til London, þá hefðu fulltrúar fiskimanna og útgerðarmanna ásamt fulltrúum utanríkis- og fiskimálaráðuneytisins verið kallaðir saman á fund til þess að ræða málið í ljósi umr., sem fóru fram í Reykjavík. Þetta er rétt. Þessir aðilar ræddust við. En Breta megin horfði málið allt öðruvísi við en okkar megin, — allt öðruvísi. Það er vitað, að þegar umr. byrjuðu á milli Íslendinga og Breta, fékk brezka ríkisstj. brezka togaraeigendur og brezka fiskimenn til þess að ganga inn á það að halda sig utan 12 mílnanna, á meðan umr. stóðu, en þeir vildu þá ekki ganga lengra, útgerðarmenn og fiskimenn, en lofa að halda sig utan 12 mílnanna til 12. okt. Þegar umr. var frestað hér í Reykjavík 10, okt., blasti málið þess vegna þannig við brezku stjórninni, að viðbúið var, að brezkir togarar hæfu veiðar aftur eftir einn eða tvo daga innan 12 mílnanna. Það var verkefni brezku ríkisstj. að gera það upp við sig, gera það upp við brezka togaraeigendur og brezka fiskimenn, hvort þeir vildu fresta þessum aðgerðum og bíða frekari umr. eða hvort þeir ætluðu að hefja veiðarnar innan 12 mílnanna á ný.

Tilefni Breta til umr. við sína aðila var því ærið.

Hv. 2. þm. Vestf. (HermJ) ræddi einnig nokkuð viðræðurnar við Breta, sem fóru hér fram fyrstu daga októbermánaðar. Hann átaldi, að ríkisstj. skyldi hafa fallizt á þessar viðræður, og hann komst að orði eitthvað á þá leið, að allir íslenzkir stjórnmálaflokkar hafi ætíð verið sammála um að ræða ekki um landhelgismálið við Breta. Þessi hv. þm. sagði, að með viðræðunum við Breta nú væri ríkisstj. að þverbrjóta þá reglu, að þetta mál skyldi ekki rætt við Breta eða aðrar þjóðir. Ég vildi gjarnan biðja þennan hv. þm. að hugsa sig um tvisvar, áður en hann endurtekur þessi ummæli, og hugsa sig vel um. Ég skal reyna að hressa lítillega upp á minni hans.

Árið 1952 fóru Framsfl. og Sjálfstfl. með ríkisstj. í þessu landi. Þá var fiskveiðilögsögunni við Ísland breytt, bæði grunnlínupunktum fækkað og fiskveiðilögsagan færð út í 4 mílur. Árið 1954 gaf þáv. ríkisstj, út hvíta bók um útfærsluna 1952. Í þessari hvítu bók er birt bréf, sem hæstv. utanrrh., sem var 1952, ritaði sendiherra Breta í Reykjavík varðandi útfærslu fiskveiðilögsögunnar 1952. Í þessu bréfi skýrir þessi hæstv. utanrrh. frá því, að áður en ráðizt var í útfærsluna 1952, hafi sá ráðh., sem landhelgismálið heyrði undir 1952, farið til London til þess að ræða landhelgismálið við brezku ríkisstj. og gera henni grein fyrir, hverjar fyrirætlanir Íslendinga væru í landhelgismálinu. Það liggur þarna fyrir beinlínis skjallega sannað í hvítri bók, útgefinni af ríkisstj., að áður en farið var í útfærsluna 1952, þá ræddu Íslendingar beinlínis við brezku ríkisstj. og gerðu henni grein fyrir fyrirætlun sinni. Svo kemur þessi hv. þm. hingað til Alþingis og segir: Það er þverbrot á öllum reglum, sem allir stjórnmálaflokkar hafa fylgt til þessa, að nú skuli vera rætt við Breta um landhelgismálið.

En það er fleira en þetta, sem þessi hv. þm. þarf að rifja upp í þessu máli, að því er varðar viðræður við aðrar þjóðir. Við Íslendingar erum, eins og allir vita, meðlimir í því ágæta bandalagi, sem kallað er Atlantshafsbandalag. Í desembermánuði 1956 samþykkti þetta bandalag sérstakar starfsreglur, þar sem svo var kveðið á, að meðlimir bandalagsins skyldu innan þess og á vegum þess hafa samráð og viðræður sín á milli, áður en ráðizt væri í aðgerðir í utanríkismálum, sem líklegar þættu til að valda deilum á milli bandalagsríkjanna.

Við Íslendingar vorum samþykkir þessum starfsreglum, þegar þær voru settar. Bæði ég og hv. 2. þm. Vestf., sem þá var forsrh., lýstum stuðningi okkar og fylgi við þessar reglur, og við tjáðum bandalaginu, að eins og við krefðumst þess, að aðrir færu eftir þeim, þá mundum við sjálfir fara eftir þeim.

Þegar um það var rætt vorið 1958 að færa út íslenzka fiskveiðilögsögu, var öllum ljóst, að þær aðgerðir voru til þess líklegar að valda ágreiningi á milli okkar og ýmissa annarra bandalagsríkja. Í samræmi við starfsreglur Atlantshafsbandalagsins frá des. 1956 og yfirlýsingar mínar og hv. 2. þm. Vestf. tókum við upp viðræður innan Atlantshafsbandalagsins um fyrirhugaða útfærslu á fiskveiðilögsögunni við Ísland þegar í maímánuði 1958. Þessar viðræður stóðu yfir innan Atlantshafsbandalagsins frá því í maí og fram í september sama ár. Þar var rætt við bandalagið í heild og við einstakar þjóðir innan bandalagsins.

Þegar þetta er haft í huga, þá er það furðanlegt, hvernig hv. 2. þm. Vestf. leyfir sér að fullyrða, að það séu einhver ný áður óþekkt vinnubrögð að ræða landhelgismálið og aðgerðir okkar í því við aðrar þjóðir, sem þar telja sig hafa hagsmuna að gæta. Og ég get bætt því hér við, að í ágústmánuði 1958 var send til Atlantshafsbandalagsins ábending um lausn á væntanlegum ágreiningi um fiskveiðilögsöguna við Ísland. Að þessari ábendingu stóðu Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl. Þessi ábending var óbeint tilboð til Atlantshafsbandalagsins og þá einstakra þjóða líka um lausn á deilunni, sem við Íslendingar teldum okkur fullkomlega geta gengið að.

Þegar á allt þetta er litið, er það alveg furðanlegt, að því skuli haldið fram hér, að það sé eitthvað nýtt og áður óheyrt, að Íslendingar og íslenzk ríkisstj. skuli telja sig þurfa að ræða um eitthvað í sambandi við okkar landhelgismál við aðrar þjóðir.

Hv. 2. þm. Vestf. vildi halda því fram, að ef við nú kæmumst að einhverju samkomulagi við Breta um lausn á fiskveiðideilunni, sem fæli í sér einhverja tilhliðrun í sambandi við málið um takmarkaðan tíma, þá mættum við reikna með því, að að samkomulagstímanum loknum mundu Bretar finna ný ráð til að þrjózkast enn við 12 mílna fiskveiðilögsögu.

Ég sé af þessum ummælum þessa hv. þm. eins og svo mörgum öðrum ummælum hans, að hann virðist algerlega misskilja, í hvaða tilgangi viðræðurnar við Breta fara fram nú og á hvaða grundvelli. Þegar ríkisstj. Íslands féllst á að taka þessar viðræður upp, gaf hún út yfirlýsingu um þá ákvörðun sína hér heima, og hún tilkynnti jafnframt Bretum, hvað fyrir henni vekti með þessum viðræðum. Meginefni þeirrar yfirlýsingar var það, að viðræðurnar færu fram í þeim tilgangi að koma í veg fyrir frekari árekstra á hafinu kringum Ísland. Því var jafnframt lýst afdráttarlaust yfir, að Íslendingar teldu sig eiga fullan lagalegan rétt til þeirrar 12 mílna fiskveiðilögsögu, sem þeir þegar hefðu fært út, auk þess sem unnið yrði að viðurkenningu á landgrunninu öllu. Þessi yfirlýsing ríkisstj., sem bæði var birt opinberlega og eins sérstaklega tilkynnt Bretastjórn, er ótvíræð og skýlaus yfirlýsing um það, að ekkert samkomulag getur orðið um lausn á þessu deilumáli Íslendinga og Breta, nema því aðeins að fyrir liggi óafturkallanleg viðurkenning á okkar 12 mílna fiskveiðilögsögu. Það getur ekkert samkomulag orðið á milli aðilanna um lausn á þessari deilu, nema Bretar lýsi því óafturkallanlega yfir, að þeir láti af andmælum sínum og andstöðu gegn okkar 12 mílna fiskveiðilögsögu.

Þegar málið og viðræðurnar verða komnar það á veg, að íslenzka ríkisstj. veit nokkuð örugglega um það, með hvaða hætti og undir hvaða skilyrðum Bretar fást til að gefa slíka viðurkenningu, þá verður ríkisstj. að gera það upp við sig, hvort hún telur, að þau skilyrði séu þannig, að þau séu aðgengileg fyrir Íslendinga og íslenzka hagsmuni eða ekki.

Ef ríkisstj. telur, að skilyrðin séu óaðgengileg, þá er málinu þar með lokið. Ef hún hins vegar telur, að skilyrðin séu þannig, að við þeim sé lítandi, þá kemur málið að sjálfsögðu til Alþingis og til þess aðgerða. En á meðan málið er ekki lengra komið en það er komið nú, er alveg gersamlega tilefnislaust fyrir stjórnarandstöðuna að vera með getgátur, getsakir og fullyrðingar á borð við þær, sem bornar hafa verið fram í sambandi við þessar umr. hér.

Hv. 2. þm. Vestf. lét þess getið, að landhelgismálinu væri ekki lokið, þó að fiskveiðilögsagan hefði verið færð út í 12 mílur. Þetta er alveg rétt hjá þessum hv. þm. Við höfum fært fiskveiðilögsöguna út í 12 mílur og teljum okkur byggja það á þeim alþjóðlegu reglum, skulum við segja, sem fyrir hendi eru. Sérstaklega höfum við þó þar byggt á áliti alþjóðalaganefndar Sameinuðu þjóðanna frá 1955 eða 1956, þar sem fram kemur, að fiskveiðilögsaga geti verið allt út í 12 mílur. Við þurfum að sjálfsögðu að sækja lengra í þessu máli. En eins og málið liggur fyrir í dag, þá er ljóst, að við höfum ekki neinar alþjóðareglur eða samþykktir til að byggja frekari útfærslu á. Við höfum á alþjóðaráðstefnum leitað eftir því að fá viðurkenndar í einu eða öðru formi einhverjar reglur, sem heimila okkur vernd fyrir okkar fiskimið og fiskstofna fyrir utan 12 mílurnar. Þessi tilraun hefur ekki borið frekari árangur en svo, að heimilt getur verið að vernda svæði utan 12 mílnanna, ef það er talið nauðsynlegt til verndar fiskstofnum, en þá er þeim, sem vilja andmæla slíkri vernd, heimilt að láta gerðardóm um það fjalla, og á hann úrskurðarvald um það, hvort verndunin sé byggð á lögum eða ekki.

Það er að sjálfsögðu takmark Íslendinga að vinna að því að fá settar og viðurkenndar alþjóðlegar reglur, sem heimila okkur útfærslu út fyrir 12 mílur, en því miður, eins og málið stendur nú, eru ekki til reglur til þess að byggja slíka útfærslu á.

Hv. 2. þm. Vestf. ræddi um hættuna á því, að upp kynnu að verða teknar nýjar, stórvirkar veiðiaðferðir, sem stofnuðu fiskstofnunum í voða.

Á hlutum sem þessum er að sjálfsögðu nokkur hætta. Tækninni fleygir mjög ört fram í heiminum, og enginn veit, hvað gerast kann fyrr eða síðar í sambandi við fiskveiðar og stórvirk tæki til fiskveiða, sem kynnu að verða hættuleg fyrir fiskstofnana. Um þetta verður ekki deilt. Hins vegar furðaði mig nokkuð á þeim ummælum þessa hv. þm., að sterk hreyfing væri fyrir því, að strandþjóðirnar ráði, hvaða veiðarfæri væru notuð með ströndum strandríkis, og þeirri fullyrðingu hans, að fleiri og fleiri þjóðir hölluðust að því, að sérstakar reglur þyrfti að setja, sem heimiluðu strandríki að takmarka notkun vissra veiðarfæra.

Mig furðaði dálítið á því, að hv. þm. skyldi gera svo mikið úr því, að sterk hreyfing væri með öðrum þjóðum fyrir því, að slíkar alþjóðlegar reglur yrðu settar, og þeim ummælum hans, að fleiri og fleiri þjóðir hölluðust að þessu. Ég held, að því miður sé þetta ekki rétt og að þessi hv. þm. með þessum ummælum sínum sé að vekja algerlega óréttmætar vonir.

Á Genfarráðstefnunni í vor undirbjó íslenzka nefndin einmitt till. í þessa átt, — till., sem gekk út á það, að strandríki væri heimilt að banna eða takmarka notkun vissra hættulegra veiðarfæra utan 12 mílnanna. Íslenzka sendinefndin skipti því á sig að tala við fulltrúa frá öllum þjóðum, sem tóku þátt í Genfarráðstefnunni. Hv. 2. þm. Vestf. tók að sér að tala við aðrar sendinefndir um þetta, ég átti að tala við sumar, og allir áttum við fulltrúarnir að tala við einhverja. En hver varð niðurstaðan af þessu? Því miður varð niðurstaðan einfaldlega sú, að þessi hugmynd okkar fékk ekki hljómgrunn hjá einni einustu sendinefnd. Það var engin sendinefnd á fundinum í Genf, sem undir þetta tók. Þessa hygg ég að hv. 2. þm. Vestf. muni minnast, ef hann hugsar um það, og ég tel ekki rétt að vera að vekja hér neinar tyllivonir með því að fullyrða hluti, sem reynslan hefur sýnt okkur að ekki eru eins og þeir eru sagðir.

Þá lagði hv. 5. þm. Reykn. fyrir mig nokkrar spurningar, sem hann óskaði eftir að fá svarað. Ég hef nú í máli mínu hér á undan óbeinlínis svarað að verulegu leyti þessum spurningum, en ég skal gjarnan fara í gegnum þær hverja fyrir sig og gefa við þeim svör.

Fyrsta spurningin var: Hvenær fær utanrmn. skýrslu um viðræður þær við Breta, sem fram fóru 1.–10. okt.?

Ég hef þegar greint frá, að við þingsetningu skýrði hæstv. forsrh. frá því, sem þessar viðræður snerust um, og ég tel, að ekkert hafi komið fram í viðræðunum, sem gefi tilefni til þess, að frekari skýrsla sé um málið gerð. En ég skal taka það fram, að ég hallast frekar að þeirri skoðun, að þegar gefa þarf og gefa á skýrslu um mál eins og þetta, þá sé fullt eins rétt að gefa þá skýrslu á hv. Alþingi eins og að gefa hana í utanrmn. Þessa skoðun mína byggi ég á því, að það er fengin fyrir því reynsla, að einn af meðlimum utanrmn. lætur jöfnum höndum birta í blaði sínu frásögn af því, sem fer fram á fundum utanrmn. Hin blöðin gera þetta ekki. Þegar þannig einn er til frásagnar; er alltaf hætta á því, að réttu máli sé hallað, eins og mjög ber á í frásögn Þjóðviljans af fundum utanrmn. Ef skýrslan er hins vegar gefin á Alþingi, eru þar allir jafnir og meira öryggi fyrir því, eð rétt og satt sé frá skýrt.

Þá spurði þessi hv. þm. um það, hvort viðræðurnar verði teknar upp og þá hvar og hvenær. Frá því hefur þegar verið skýrt opinberlega, að viðræðunum hefur verið frestað. Þeim verður haldið áfram. Og það hefur einnig verið skýrt frá því opinberlega, — það kom seinast fram í hádegisútvarpinu í gær, — að ekki hefur enn þá verið ákveðið, hvenær viðræðurnar sjálfar halda áfram, en gert er ráð fyrir því, að það verði hér í Reykjavík.

Þá spurði þessi hv. þm. að því, hvort þeir Davíð Ólafsson og Hans G. Andersen hafi farið til London í umboði ríkisstj. til þess að ræða við stjórn Bretlands.

Það hefur einnig verið gefin um þetta opinber yfirlýsing, sem var birt í ríkisútvarpinu í gær, að þessir tveir menn hefðu farið á vegum ríkisstj. til London til þess að undirbúa framhaldsumræður.

Fjórða spurningin var svo um það, hvort í lok viðræðnanna 10. okt. hafi legið fyrir nokkurt tilboð frá öðrum aðila eða báðum til lausnar á fiskveiðideilunni.

Ég hef þegar svarað þessu. Af hálfu okkar Íslendinga lá ekkert fyrir annað en það, sem opinberlega er yfir lýst í ályktun Alþingis frá 5. maí 1959. Við gerðum ekki neitt tilboð né neinar tillögur. Í viðræðunum endurtóku Bretar það, sem komið hafði fram opinberlega af þeirra hálfu í viðræðum í Genf, sem sagt, að þeir geta farið inn á að láta af andmælum gegn 12 mílunum, enda komi þeir hlutir í staðinn, sem margsinnis hefur verið opinberlega yfir lýst af þeirra hálfu.

Þá er spurt um það í fimmta lagi, hvort ríkisstj. Íslands hafi gert ráðstafanir til þess, að íslenzkir togarar lönduðu ekki í Bretlandi, fyrr en viðræðunum væri lokið.

Mér er kunnugt um það, að íslenzkir togaraeigendur hafa sjálfir haldið þannig á sínum málum og sjálfir gert ráðstafanir til þess, að þeirra togarar lönduðu ekki í Bretlandi. En íslenzka ríkisstj. ræður að sjálfsögðu ekki yfir athöfnum þessara aðila. Það er þeirra sjálfra að taka sínar ákvarðanir og gera sínar ráðstafanir.

Og svo var það sjötta spurningin. Þessi hv. þm. spurði, hvort nokkur hætta væri á því, að öðrum þjóðum en Bretum yrði neitað um að veiða innan 12 mílnanna, ef Bretum yrði leyft það.

Þessi hv. þingmaður hafði afar mikinn áhuga fyrir að vita, hvort ekki væri alveg öruggt, að ef nú kynni að koma til þess, að Bretar fengju hér eitthvert leyfi um einhvern takmarkaðan tíma til veiða innan 12 mílna, — hvort það væri þá ekki alveg öruggt, að aðrir fengju þetta líka. Mér kom þessi fyrirspurn ekki á óvart. Ég hef heyrt hana áður. Ég þekki þennan áhuga og ég þekki þennan málflutning. Till. sú, sem Bandaríkjamenn og Kanadamenn sameinuðust um á Genfarráðstefnunni í vor, gerði ráð fyrir því, að landhelgi skyldi vera 6 mílur, eins og kunnugt er, fiskveiðilögsagan 12 mílur, en þær þjóðir, sem veitt hefðu á seinni 6 mílunum um allmargra ára skeið, skyldu fá að stunda veiðar á þeim áfram í 10 ár. Þegar að því var komið að greiða atkv. um þessa till., tók fulltrúi Alþb. það upp í íslenzku sendinefndinni, hvort ekki væri alveg öruggt, að tvær þjóðir, sem hann nafngreindi, mundu koma undir það ákvæði að mega veiða í 10 ár á seinni 6 mílunum, ef till. yrði samþykkt. Fiskimálastjóri Íslands var einn í íslenzku sendinefndinni, og hann var viðstaddur, þegar þessi fulltrúi var að bera umhyggju fyrir hagsmunum þessara tveggja þjóða, sem hann nafngreindi. Og fiskimálastjóri benti á það með sinni alkunnu hægð og rólyndi, að þessar tvær þjóðir gætu ekki komið þarna til greina, vegna þess að þær hefðu ekki á undanförnum árum stundað veiðar á þessum seinni 6 mílum. Þessu reiddist fulltrúi Alþb. mjög og spurði, hvort fiskimálastjóri Íslands ætlaði sér virkilega að andmæla því, ef þessi till. væri samþ., að þessar tvær þjóðir hefðu sögulegan rétt til þess að stunda þessar veiðar. Nú tekur hv. 5. þm. Reykn. þetta sama mál upp og vill fá þessari sömu spurningu svarað.

Við spurningunni get ég ekkert sagt annað en það, að þetta mál liggur á engan hátt þannig fyrir, að nokkurt tilefni sé til að ræða það á þessum grundvelli. Ég í mínum huga dreg það mjög í efa, að sú lausn sé til á þessu máli, sem þær þjóðir, sem hv. 5. þm. Reykn. er sérstaklega að hugsa um, — ég efast um, að sú lausn sé til á þessu máli, sem þær þjóðir telji sér aðgengilega eða eftirsóknarverða. Þegar að því kemur, að málið skýrist frekar, er sjálfsagt að taka þetta atriði upp og ræða það. En þessi hv. þm. verður að sætta sig við það, að áhuga hans í þessum efnum er ekki hægt að mæta frekar en svona, á meðan málið liggur ekki skýrara fyrir.

Um frv. sjálft get ég verið mjög fáorður. Árið 1948 voru hér sett lög um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins. Samkvæmt þessum lögum var ríkisstj. heimilað með einfaldri reglugerð að færa fiskveiðitakmörkin út allt að endimörkum landgrunnsins. Þessi lög voru sett, enda þótt menn vissu þá, að ekki var til staðar alþjóðlegur lagagrundvöllur til þess að ráðast í slíka heildarútfærslu og ekki einu sinni til þess að hreyfa fiskveiðimörkunum frá því, sem þá var. Það var stefnuyfirlýsing Alþingis og þingflokkanna um, að landgrunnið allt væri markmið Íslands. Með því að breyta nú til og ákveða fiskveiðitakmörkin með lögum í stað þess að hafa reglugerðarheimildina er óneitanlega nokkur hætta á því, að við verðum skildir þannig, að okkar þörfum í þessum efnum sé fullnægt, það sé horfið frá þeirri stefnu, sem mörkuð var í landgrunnslögunum. Í þessu sambandi vil ég benda á, að á fiskveiðireglugerðinni og fiskveiðitakmörkunum, eins og þau eru núna, eru að mínum dómi ýmsir verulegir ágallar. Og tel ég þá helzta, að grunnlínum hefur ekki verið breytt né eftir fylgt eins og æskilegt væri fyrir Íslendinga og nauðsynlegt er að vinna að.

Með lögfestingu reglugerðarinnar nú tel ég nokkra hættu á, að erfiðara sé að eiga við það mál en ella. Ég sé að öðru leyti ekki ástæðu til að fara frekar inn á málið að sinni, það fær að sjálfsögðu athugun í n., og gefst þá tóm til þess að athuga sjálft frv. nánar.