08.03.1962
Neðri deild: 61. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (1169)

35. mál, atvinnubótasjóður

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af ummælum frá tveimur hv. þm., sem síðast hafa talað.

Í sambandi við ræðu hv. 4. landsk. þm., þá spurði hann, hvaða ástæða væri til að gleðjast yfir samþykkt þessa frv. Mér er ljúft að svara því, að það er fyrst ástæða til að gleðjast yfir því, að löggjöf skuli vera sett um þetta mál. Það tel ég vera mjög mikils virði, eins og ég hef tekið fram áður. Ef löggjöf hefði verið sett um þetta mál á sínum tíma, hefði þessi sjóður nú yfir mjög miklu fé að ráða. Ég skil hins vegar afstöðu þessa hv. þm. til málsins. Hann hefur alltaf verið andvígur því, að löggjöf væri sett um jafnvægi í byggð landsins, og hann beitti sér fyrir því mjög á þinginu 1956, að það frv., sem þá var raunverulega samkomulag um að næði fram að ganga, yrði fellt eða Því yrði breytt þannig, að ekki væri hægt að samþykkja það, og var það gert til þess að skapa möguleika til myndunar vinstri ríkisstj. eftir kosningarnar, og þá var sett það skilyrði, að þetta mál næði ekki fram að ganga, en út í það skal ég ekki fara frekar nú. Þetta er eitt af því, sem ég gleðst mjög yfir, að það skuli vera hægt að fá löggjöf um málið. Hitt hygg ég, að ef hv. 4. landsk. þm. fylgir yfirleitt nú þessu frv., þá sé það vegna þess, að hans flokkur er nú kominn á þá skoðun, að það sé sjálfsagt að setja löggjöf um þetta atriði, enda kom það fram í umræðum um málið í n. Og þess vegna kannske greiðir hann atkv. með frv., ég veit það ekki, en þá er það eingöngu af þessu, því að hann hefur sýnt málinu fulla andúð frá fyrstu stund.

Um aths. hv. 1. þm. Austf. vildi ég aðeins segja það, að ummæli mín um afstöðu hans til fjárframlaga yfirleitt giltu ekki eingöngu um þetta sérstaka mál, heldur almennt. Við höfðum árum saman mikla og góða samvinnu, ég sem formaður fjvn. og hann sem fjmrh., og ég þekki vel, hversu fast hann þá hélt á ýmsum málum, að ekki væri farið upp fyrir það, sem hann treysti sér til þess að láta fjárlög standa undir á hverjum tíma. Ég er ekkert að ásaka hv. þm. fyrir það, nema síður sé. Afstaða hans til þessara mála hefur breytzt síðan, það er mannlegt. En afstaða hans hefur sannarlega breytzt, eins og ég hef áður tekið fram. Og hvað þetta atriði snertir, þá er það alveg rangt, eins og ég líka tók fram, að það hafi á s.l. þingi ekki verið látið nema 10 millj., því að það hafa verið látnar 14 millj. kr. til þessara mála, þó að því sé skipt niður á aðra liði.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að karpa meira um þetta atriði og skal ljúka máli mínu.