31.10.1961
Efri deild: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

3. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Þar sem þeirri gagnrýni, sem komið hefur fram á þessu frv. af hálfu hv. stjórnarandstæðinga, hefur nú þegar verið svarað af hæstv. fjmrh. og hv. 9. landsk., get ég verið hér mjög stuttorður. En ég spurði að því í framsöguræðu minni, hvað ætti að koma í staðinn fyrir þann stóra tekjustofn fyrir ríkið, sem hér er um að ræða, eða hvaða útgjöld ætti að fella niður á móti þessum skattstofni, og komst þannig að orði, að meðan það lægi ekki fyrir, væri varla hægt að taka alvarlega till. um að fella þennan skattstofn niður. Ég tel þá litlu tilburði, sem hv. stjórnarandstæðingar hafa haft til þess að svara þessu, algerlega ófullnægjandi. Að vísu boðaði hv. 4. þm. Vestf. jólagjöf til þings og þjóðar, að mér skildist, frá Framsfl. og sú jólagjöf mundi vera fólgin, að manni skildist, — þar sem skattar eru nú ekki ákveðnir með fjárlögum, eins og hv. 9. landsk. réttilega tók fram, — í svo stórfelldum niðurskurði útgjalda hins opinbera, að með góðu móti sé hægt að fella niður nær 200 millj. kr. skattstofn. (SE: Sagði ég þetta?) Já. (Gripið fram í: Ég hef ekki heyrt það.) Ja, ég man ekki betur en hv. þm. segði eitthvað sem svo, að við stjórnarsinnar skyldum bara bíða rólegir til jóla. Við fögnum því, hugsa ég, allir, að eiga von á þessari ágætu jólagjöf, en meðan ekki hefur verið gefið neitt í skyn um það, í hverju hún sé fólgin, þá er þó varla hægt að mæla með því, að það stóra skref verði tekið til þess að lækka tekjur ríkissjóðs, sem vera mundi, ef fella ætti söluskattinn niður.

En viðvíkjandi ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e. tel ég ekki ástæðu til þess nú að fara út í það að ræða um beina eða óbeina skatta almennt. Þetta var gert ýtarlega á síðasta þingi, þegar skattamálin voru til meðferðar þá, og gefst sjálfsagt tóm til þess, áður en þessu þingi lýkur, þegar skattafrumvörp þau, sem boðuð hafa verið, verða lögð fram. En ég vil aðeins leyfa mér að minna hv. þm. á það, af því að hann talaði þannig, að tekjuskattar snertu eiginlega ekki neina aðra en hátekjumenn, þannig að verkamenn og öll alþýða manna fyndi ekki neitt fyrir slíkum sköttum, að það var fyrir 2–3 árum, eða áður en núverandi hæstv. ríkisstjórn kom til valda, þegar skattamál voru til umræðu hér á Alþ., að einn af flokksbræðrum hans, hv. 6. þm. Sunnl. (KGuðj), bar fram till. um það að gera skattfrjálsar tekjur verkamanna og sjómanna af yfirvinnu og færði fyrir því þau rök, að í sínu byggðarlagi væri nú svo komið vegna hárra tekjuskatta og útsvara, að verkamenn teldu það alls ekki borga sig að vinna að sjávarafla, ef um eftirvinnu og næturvinnu væri að ræða. Þess vegna lagði hv. þm. til, að eftirvinna og næturvinna við verkun útflutningsafurða yrði gefin skattfrjáls. Þessi till. var samþ. á því þingi. Síðar kom það að vísu í ljós, að ekki mundu verða tök á af tæknilegum ástæðum að framkvæma þetta. En hvað sem því liður, þá hefur það sjálfsagt ekki verið úr lausu lofti gripið hjá þeim hv. þm., að full ástæða væri til þess að leiðrétta hina háu tekjuskatta og útsvör, einmitt vegna þess, hve þungt það kom til að bitna á yfirvinnu verkamanna og sjómanna. Þetta var skoðun hv. þm. á þeim tíma, og ég veit ekki betur en að till. hans hafi verið studdar af öllum hv. þm. Alþb. Nú talar hv. þm. hins vegar um þessi mál þannig, að það að lækka tekjuskatt og útsvör sé nokkuð, sem aðeins komi hátekjumönnum til góða.