15.12.1961
Neðri deild: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

17. mál, dómsmálastörf, löglreglustjórn, gjaldheimta o.fl.

Frsm. minni hl. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. ræddi nokkuð um þetta frv. Hann gat þess m.a., að formaður allshn. Ed. hefði rætt við borgardómara og fleiri embættismenn, sem þessi lög fjalla um. Mér dettur ekki í hug að bera á móti því, að þetta sé rétt. En þá er bara spurningin þessi: Hvernig stóð á því, að allshn. Ed. og allshn. Nd. sendu ekki frv. til umsagnar félagssamtaka lögfræðinga og lögmanna hér í Reykjavík? Hvernig stóð á því? Því er haldið fram, að frv. hafi verið samið af dómurum hæstaréttar og að það út af fyrir sig eigi að vera einhver endanlegur úrskurður um það, að frv. sé þannig úr garði gert, að ekki sé hægt og eigi ekki að gera á því breytingar. Þetta kom beint fram á nefndarfundi hjá okkur í allshn. Þessum skilningi vil ég alveg mótmæla. Dómarar hæstaréttar eða hverjir sem það eru, sem semja lög, það má segja, að betur sjá augu en auga, og það er enginn, sem getur fullyrt neitt um það, þó að háttsettir embættismenn séu góðir lagasmiðir, að þá gangi þeir þannig frá frumvörpunum, að ekki sé eitthvað þar í, sem sé nauðsynlegt að lagfæra.

Þá sagði hæstv. dómsmrh., að það væri vitað, að ef þessir menn, sem lögin fjalla um, fengju ekki að starfa að öðrum málum utan síns embættis, mundu engir menn fást í þessi embætti. Þetta er alveg furðuleg yfirlýsing. Ég verð að segja það, að ef það er slíkt ástand í launamálum opinberra starfsmanna, að laun þeirra séu svo lág, að þeir verði að sækja eftir aukastörfum til þess að geta lifað sómasamlegu lífi, sem hlýtur að meira eða minna leyti að ganga út yfir þau embættisstörf, sem þeir eru ráðnir til, þá vil ég halda því fram, að það sé fyllsta ástæða til að taka yfirleitt launamálakerfi ríkisins til alvarlegrar athugunar.

Við skulum viðurkenna það alveg hreinskilnislega, að með slíku fyrirkomulagi sem verið hefur á þessum málum og á nú að fara að lögfesta er verið að kalla á alveg sérstaka spillingu í embættismannakerfinu, og það er það, sem ég vil átelja og átel hér með, og það er einmitt þetta, sem Lögmannafélagið bendir réttilega á, að maður, sem er í embætti og notar mikið af starfstíma sinum til annarra starfa en þeirra, sem hans embætti tilheyra, hann er með því að svíkjast undan því að vinna sin skyldustörf, — og það sem meira er, það kallar á það, að oft og tíðum eru þessir menn með mál, sem þeir geta svo ekki verið dómarar í, og það þýðir, að dómsmrn. eða hver sem annars fer með þau mál verður að skipa setudómara í málið, og það kostar vitanlega aukin útgjöld fyrir ríkissjóðinn.

Það hefði verið alveg fyllsta ástæða til, ef til þess hefði unnizt tími að rannsaka ýmislegt í sambandi við þessi embætti, t.d. hve mikið er greitt fyrir aukastörf til þessara embættismanna. Það liggur ekkert fyrir um það, engar upplýsingar. Hvað hefur mikið verið greitt til setudómara í hinum ýmsu málum? Hvað er mikið greitt í innheimtulaun, bæði hér í Reykjavík og til bæjarfógeta og sýslumanna úti um allt land? Það vita allir, að bæði bæjarfógetar og sýslumenn og ekki síður embættismennirnir hér í Reykjavík og þá fyrst og fremst þeir hafa tvöföld og þreföld laun, miðað við þeirra föstu laun, bara fyrir ýmiss konar innheimtu. Meira að segja embættismaður hér í nágrenni Reykjavíkur hefur svo að skiptir tugum þúsunda bara fyrir það eitt að innheimta fyrir almannatryggingarnar. Ég er ekki að segja, að þessi laun komi ekki fram á skattskýrslu, það eru ekki mín orð. En þetta bara sýnir, að það hefði verið fyllsta ástæða til að fara betur í gegnum þessi mál en gert var. En það lágu engar slíkar upplýsingar fyrir, enda var svo mikið rekið eftir því að fá þetta mál í gegn nú fyrir áramótin, að málið fékkst tæplega rætt á þessum eina fundi, sem boðaður var til þess að afgreiða það.

Hv. frsm. meiri hl. allshn., hv. 4. Þm. Norðurl. v., nefndi sem dæmi um það, hvað allsherjarnefndirnar hefðu haft gott samband við embættismennina, að það hefði verið talað við þá, — hann kom með það sama og hæstv. dómsmrh. Það má vel vera, að þetta hafi verið gert, mér var ekki kunnugt um það, alls ekki. En þá vil ég endurtaka þá spurningu, sem ég sagði hér áðan og enn stendur óhrakin: Af hverju höfðu ekki nefndirnar samráð við samtök lögfræðinga og lögmanna um málið? Vill hv. frsm. meiri hl. halda því fram, að þetta mál komi þeim ekkert við — eða hvað? Ég held, að hann ætti að gefa á því skýringu.

Nei, það er sannarlega ófært ástand, að opinberir starfsmenn skuli þurfa að afla sér svo og svo mikilla aukastarfa til þess að geta lifað sómasamlega. Slíkt hlýtur að ganga út yfir þeirra störf og í mörgum tilfellum hlýtur að kosta ríkissjóð stórar fjárupphæðir, sem annars væri hægt að komast af án, svo framarlega sem væri vel að þessum málum búið.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan: Ef það er rétt, að þessir starfsmenn hafi svo léleg laun, að þeir telji sig ekki getað lifað án þess að vinna svo og svo mikið af aukastörfum, sem hlýtur að ganga út yfir þeirra aðalembætti, þá er full þörf á því, að launakerfið yfirleitt sé allt tekið til gagngerrar rannsóknar, og þá um leið, að það verði settar hömlur gegn því, að slíkt ástand geti haldið áfram að þróast, sem mér virðist hafa gerzt undanfarið í embættiskerfinu hér í Reykjavík.