06.03.1962
Neðri deild: 60. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í C-deild Alþingistíðinda. (2541)

81. mál, húsnæðismálastofnun

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég hef nú þegar talað svo oft í þessu máli, að ég hef aðeins stuttan tíma til að gera stutta athugasemd, og skal ekki níðast á hæstv. forseta eða hv. deild með að brjóta þær reglur, sem um það gilda, og því mjög stytta mál mitt, enda væri það endurtekning á því, sem ég hef sagt um málið, ef ég færi að ræða við hv. síðasta ræðumann um þau atriði, sem hann nú flutti hér.

Hv. 3. þm. Reykv. setti fram fyrir mig alveg sérstaka spurningu, sem ég tel mér skylt að svara. Hann spurði mig, hvort ég mundi vilja taka það verk að mér að innkalla fyrir Alþýðusamband Íslands þann mismun á launum verkamanna, sem skertur hefði verið með því að lögfesta, eins og gert var á Alþingi á árunum 1958–59, að ekki skyldu greidd laun með vísitöluálagi, og sagði hann, að ég hefði samþykkt þau lög, en á þeim tíma var ég ekki á Alþingi. Vildi hann bera þetta saman við þá röskun, sem mundi verða á rétti manna í samhandi við útgefin verðbréf, ef þetta frv. yrði samþ. Hér er ákaflega ólíku saman að jafna. Í fyrsta lagi var hér um að ræða samninga á milli atvinnurekenda annars vegar og atvinnuþiggjenda hins vegar, og það voru ekki þeir samningsaðilar, sem gáfu út þessi lög, heldur var það Alþingi, svo að það væri ekki hægt að sækja þennan rétt á atvinnurekendur, heldur beint á Alþingi og ríkissjóðinn. En á bak við þessa löggjöf lá það að tryggja verðmæti þess kaupgjalds, sem samið var um, þannig að hver króna yrði ekki minna virði en hún hefði orðið, ef greiðslurnar hefðu verið framkvæmdar með vísitöluálagi, því að það var reynslan búin að sýna í fjöldamörg ár, að það voru engar kjarabætur fyrir launþega að fá síhækkandi laun og á eftir síhækkandi vísitölu, sem gleypti alla þá launaviðbót og meira til, sem þeir höfðu fengið. Það var þessi raunveruleiki, sem var þess valdandi, að þáv. hæstv. ríkisstj. taldi það rétt, ekki til þess að ganga á rétt launþegans, heldur til þess að treysta það gjald, sem launþeginn fékk, eftir að búið var að gera þessar ráðstafanir. Það var m.ö.o. ekki verið að ganga á rétt launþegans, heldur miklu fremur að vernda launþegann fyrir óstjórnlegri verðbólgu í landinu, sem hefði gert laun hans miklu verðminni en þau hefðu orðið, ef þessar ráðstafanir hefðu ekki verið gerðar, þannig að samanburður hv. 3. þm. Reykv. á þessu og því, sem hér er verið að gera, fær ekki staðizt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að svara meiru af því, sem hann ræddi eða beindi til mín, en taldi rétt, að ég svaraði þessari sérstöku fyrirspurn hans.