06.03.1962
Neðri deild: 60. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (2542)

81. mál, húsnæðismálastofnun

Gunnar Jóhannsson:

Það hafa orðið allmiklar umr. um frv. okkar Alþb: manna um húsnæðismál o.fl. Er það að vonum, því að þetta mál er eitt stærsta mál og mál, sem varðar allan almenning í landinu, og mál, sem ekki þolir neina bið, að gerðar verði á því allvíðtækar breytingar til bóta.

Hv. 1. þm. Vestf., sem er frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn., hefur í þeim umr., sem hér hafa farið fram, beitt sér mjög ákveðið á móti því, að frv. þetta nái fram að ganga. Þessi afstaða hv. þm. er í sjálfu sér í fullu samræmi við afstöðu meiri hl. n., en í nál. meiri hl. er lagt til, að frv. verði fellt. Aðalrök meiri hl. á móti frv. eru þau, að frv. sé óraunhæft og með því sé verið að gera upp á milli þegna þjóðfélagsins og í þriðja lagi sé vitað, að lög þau, sem hér sé lagt til að breyta, séu nú í endurskoðun hjá stjórnskipaðri nefnd. Sé það að dómi meiri hl. hin mesta fjarstæða, eins og það er orðað, að gera eins róttækar breytingar á frv. og gert er ráð fyrir, áður — vel að merkja — en hin stjórnskipaða nefnd leggi fram breytingar á lögunum.

Þá vitum við það, að hæstv. ríkisstj. eða öllu heldur hæstv. félmrh. hefur sett á laggirnar rétt eina nefndina enn, og eftir hennar áliti og tillögum skal beðið, hvort sem sá tími verður langur eða skammur. Það væri annars mjög fróðlegt að fá að vita um það hjá hæstv. ríkisstj., hvað margar nefndir hafa verið skipaðar til athugunar á ýmsum málum, og þá um leið, hvað kosta allar þessar nefndir fyrir ríkissjóð? Ég er alveg sannfærður um það, að fá lönd veraldar hafa eins margar nefndir og Íslendingar. Það er varla það mál tekið fyrir, að það sé ekki sjálfsagt að skipa í það nefnd fleiri eða færri manna. T.d. eru flest lagafrv., sem hæstv. ríkisstj. leggur fram á Alþingi, samin af nefndum, ekki af nefndum Alþingis, heldur af einhverjum svokölluðum sérfræðingum úti í bæ. En hvernig er það með starfslið stjórnarráðsins? Er það svo störfum hlaðið, að það geti ekki samið frv. fyrir hæstv. ríkisstj.? Eða eru svo litlir starfskraftar á skrifstofum stjórnarráðanna, að skrifstofustjórarnir og fulltrúar þeirra hafi ekki tíma til að semja hin ýmsu stjórnarfrv. og þá vitanlega í samráði við hæstv. ráðh.? Ef svo er ekki, hverjar eru þá ástæðurnar fyrir hinum mörgu stjórnskipuðu nefndum? Annars virðast þessar mörgu nefndir, sem í langflestum tilfellum eru skipaðar fylgismönnum hæstv. ríkisstj., vera hálfgert feimnismál hjá hæstv. ríkisstj. Hæstv. ráðh. vilja sem allra minnst um þær tala. Annars vit ég endurtaka það, sem ég hef áður sagt, að það væri mjög upplýsandi fyrir alþm. og aðra, ef hæstv. ráðh. sæju sér fært að skýra þinginu frá því, hvað margar nefndir hafa verið skipaðar á valdatímabili núv. ríkisstj. og hvert eigi að vera og hafi átt að vera verkefni þeirra og þá hvað margar þeirra hafi lokið störfum, og síðast, en ekki sízt, hvað kostnaður sé mikill í sambandi við nefndastörfin.

Mér kom það í sjálfu sér á óvart, að hv. 1. þm. Vestf. skyldi halda því fram, að frv. okkar Alþb.manna væri óraunhæft. En ég vil bara spyrja þennan hv. þm.: Að hvaða leyti er frv. okkar óraunhæft? Er það óraunhæft að leggja til, að vextir af íbúðarlánum séu lækkaðir? Er það óraunhæft að lengja lánstímann úr 20 árum í 25? Hvað er það, sem torveldar mönnum að byggja íbúðarhús nú á dögum? Að mínum dómi eru það í fyrsta lagi allt of háir vextir á lánunum, í öðru lagi of lág lán, í þriðja lagi of stuttur lánstími og í fjórða lagi léleg skipulagning við flestar byggingarframkvæmdir. Við leggjum til í okkar frv., að vextirnir verði lækkaðir að miklum mun frá því, sem nú er, vextir A-lána hins almenna veðlánakerfis verði lækkaðir úr 8% ofan í 4, eða um helming. Maður, sem byggir sér íbúð, sem kostar 400 þús. kr., þarf nú að greiða í vexti af slíkri upphæð hvorki meira né minna en yfir 30 þús. kr. á ári, fyrir utan afborganir af láninu. Ég held, að flestir hljóti að sjá og skilja, að með slíku vaxtafyrirkomulagi er stefnt í hreinan voða, sem hlýtur fyrr eða síðar að enda með algerri stöðvun í húsbyggingum, enda er nú svo komið, að íbúðarhúsabyggingar hafa stórlega dregizt saman á hinum síðari árum. Úti um allt land t.d. er það hrein undantekning, ef byggt er íbúðarhús, enda er það útilokað, að fátækt fólk geti byggt sér íbúðarhús, eins og nú horfir. Allar nágrannaþjóðir okkar og þá fyrst og fremst Norðurlandaþjóðirnar, og til þeirra erum við alltaf að sækja mikinn vísdóm og sýknt og heilagt að vitna til þeirra og þess, sem þar gerist, — þær hafa allar talið sér skylt að gera allt, sem hægt er, til þess að efnalítið fólk geti eignazt þak yfir höfuðið. Ef við tökum dæmi frá Noregi, þá er því þannig fyrir komið þar, að bankinn, sem aðallega lánar til húsbygginga, lánar allt að 77% af byggingarkostnaði út á íbúð. Af þessari upphæð eru 20% vaxtalaus og með mjög vægum afborgunum, sem ekki hefjast fyrr en eftir 10 ár. Vextir af því, sem eftir er af láninu, eru ekki nema 3%, — en þeir eru bara 8% hérna. Auk þess getur svo fólk fengið lán úr byggingarsjóðum bæjanna með mjög hagstæðum greiðsluskilmálum og lágum vöxtum. Ég hef hér aðeins bent á eitt dæmi frá Noregi, sem sýnir hinn mikla og gífurlega mismun, sem er á lánakerfinu og vöxtunum þar, miðað við það, sem er hér. Að sumu leyti er þó fyrirkomulagið í hliðstæðum málum í Danmörku og Svíþjóð jafnvel enn þá hagstæðara en í Noregi. Sérstaklega mun lánstíminn vera enn lengri í Danmörku.

Að ætla sér að viðhalda hinum gífurlega háu vöxtum á lánum til íbúðabygginga er hrein fjarstæða, sem verður að fást bót á. Vitanlega eru þau lán, sem nú eru veitt út á hverja íbúð, allt of lág. Hámarkið, sem lánað er út á hverja íbúð í gegnum húsnæðismálakerfið, eins og það er í dag, er um 100 þús. kr. Vanalegast er lánið greitt í þrennu eða fernu lagi. Fólk, sem er að byggja, verður oft og tíðum að bíða í marga mánuði, jafnvel eitt til tvö ár, eftir því að fá allt lánið greitt. Það hljóta allir að sjá, að slíkt ástand er óþolandi og eykur stórlega allan byggingarkostnað úr hófi fram, auk margs konar erfiðleika, sem slíkt ástand hefur í för með sér, sem þeir einir bezt þekkja, sem hafa staðið og standa í húsbyggingum. Það hefur verið reiknað út, að aðflutningstollar og söluskattar af byggingarefni í eina íbúð af meðalstærð nemi næstum því sömu upphæð og hæst er lánað út á eina íbúð frá hinu almenna veðlánakerfi. M.ö.o.: lánið, sem þannig fæst, gengur að langmestu leyti til greiðslu á tollum og sköttum til ríkissjóðs. Það er ekki að furða, þótt hæstv. ríkisstj. hæli sér af því í tíma og ótíma að hafa lækkað skattana.

Í þessu frv. er lagt til að lækka byggingarkostnaðinn sem nemur tekjum ríkissjóðs af tollum og sköttum og söluskatti af byggingarefni, sem fer til byggingar á íbúðarhúsnæði. Inn á svipaða braut hafa aðrar þjóðir farið sem lið í því að lækka byggingarkostnaðinn. Það skal tekið fram, að skatt- og tollalækkun á aðeins að ná til íbúða af þeirri stærð, sem samrýmist reglum húsnæðismálastofnunar til útlána.

Hv. 1. þm. Vestf., frsm. meiri hl., telur það mikla fjarstæðu að lækka vexti af A-lánaskuldabréfum niður í 4%. Með svo lágum vöxtum telur hann og meiri hl. n. að skuldabréfin verði óseljanleg á nafnverði og eins og segir í nál. meiri hl.: „kæmi því byggjendum að engum notum“. Sjálfsagt er það út af fyrir sig rétt, svo langt sem það nær, að slík skuldabréf mundu ekki seljast á nafnverði á frjálsum markaði. Það eru víst æði mörg skuldabréfin, sem nú á dögum eru ekki seld á nafnverði, heldur langt undir, og hafa húsbyggjendur fengið að kenna á því allharkalega að undanförnu. En það er engin leið auðveldari en að fyrirbyggja slíkt með þessi skuldabréf, ef vilji er fyrir hendi. Það á með lögum eða á annan hátt að skylda Seðlabankann og jafnvel aðrar ríkislánastofnanir til að kaupa A-lánaskuldabréfin á nafnverði, þannig að húsbyggjendur fái rétt verð fyrir bréfin. Ég veit ekki betur en hæstv. ríkisstj. sé sí og æ að láta blöð flokka sinna hælast yfir því, hvað sparisjóðsinnstæður í bönkum og sparisjóðum hafi stórhækkað undanfarin ár. Þessari aukningu á sparisjóðsfé í bönkum og sparisjóðum yrði tæplega betur varið að okkar dómi en að verja því til kaupa á skuldabréfum til íbúðarhúsabygginga. Vaxtamismuninn yrði svo ríkissjóður að greiða. Hjá því yrði máske ekki komizt að óbreyttum innlánsvöxtum.

Annars er það mála sannast, að hinir gífurlega háu vextir eru og hafa verið að setja alla framleiðslu til lands og sjávar í rúst að meira eða minna leyti og liggja eins og mara á öllum framhvæmdum og máske ekki hvað sízt á íbúðarhúsabyggingum. Um þetta er að mínum dómi alveg óþarft að deila. Þetta sjá allir og skilja. Jafnvel hæstv, ráðherrar eru nú upp á síðkastið farnir að tæpa á því, að brátt liði að því, að nauðsynlegt kunni að reynast að lækka vextina.

Þá talar meiri hl. um það, að lögfesta yrði lækkun vaxta á þeim bréfum, sem þegar eru seld, og álitur slíka vaxtalækkun nálgast það að vera stjórnarskrárbrot, nema til komi fullar bætur til eigenda skuldabréfanna. Hér er um mjög merkilegar upplýsingar að ræða. Ég er ekki lögfræðingur og ekki heldur formaður heilbr.- og félmn. og enginn þeirra, sem eru í meiri hl. Fljótt á litið finnst mér þetta ótrúlegt og hefði verið æskilegt, að færð hefðu verið fram sterkari og haldbetri rök fyrir þessari skoðun meiri hl. n. en gert er í nál. Það er engan veginn fullnægjandi að slá fram slíkum staðhæfingum án nokkurra raka, og er yfirleitt ekki gert, þegar um er að ræða vafasöm lögfræðileg atriði. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að benda á, þó að það hafi verið gert hér áður af hv. 3. þm. Reykv., að hæstv. ríkisstj. var ekki í neinum vafa um það, að það væri löglegt í alla staði að lækka allt kaupgjald í landinu með lögum um svo og svo mörg prósent og þar með ógilda kaupgjaldsákvæði í samningum, sem verkalýðsfélögin höfðu gert við atvinnurekendur, og það án nokkurs samráðs við verkalýðsfélögin, heldur þvert á móti í fullkominni óþökk og andstöðu allra meðlima verkalýðshreyfingarinnar. Ég minnist þess ekki, að þeir hinir sömu hv. alþm., sem nú fjasa um hugsanlegt stjórnarskrárbrot í sambandi við lækkun vaxta á A-lánaskuldabréfunum, hafi talið það vera nokkurt brot á stjórnarskránni að ræna af hverjum einasta launþega á Íslandi mörg þúsund krónum af launum hans árlega. Ég held, að þessir hv. þm. hafi allir greitt atkv. með launaráninu. Hitt er svo aftur vitað, að það, sem eigendur skuldabréfanna kunna að tapa við vaxtalækkunina á bréfunum, yrði þó aldrei nema örlitið brot, miðað við það, sem tekið var af launþegunum með setningu efnahagslaganna.

Ég vil taka það fram, að þetta frv., þótt að lögum yrði, er alls ekki fullnægjandi lausn á húsnæðisvandamálinu. En það er þó til bóta frá því, sem nú er, og það miðar að því að gera þeim verkamönnum og öðrum þeim, sem eru eða hafa verið að byggja sér íbúð, kleift að halda íbúðum sinum og gera þeim, sem hugsa sér að byggja, það mögulegt, m.a. með því að lækka vextina eins og hér er lagt til að verði gert, lengja lánstímann og stórlækka allan byggingarkostnað með því að fella niður eða endurgreiða tolla og söluskatta af byggingarefni til íbúðarhúsabygginga. Ástandið er nú þannig, að ef ekkert raunhæft verður gert í þessum málum, vofir það beinlínis yfir, að fjöldi manns, sem er að byggja eða hefur byggt sér íbúð undanfarin ár, á þá hættu yfirvofandi að missa hús sin, vegna þess að þeir fá hvergi viðunandi lán og geta ekki staðið í skilum gagnvart þeim, sem máske til bráðabirgða hafa hlaupið undir bagga með þeim, og sumir þeirra hafa tekið allmikil víxillán, sem þeir á engan hátt geta staðið við að óbreyttu ástandi.

Þannig er ástandið í þessum málum. Allar íbúðarhúsabyggingar hafa stórlega dregizt saman, og vöntun á íbúðarhúsnæði er á næsta leiti, sem fyrst og fremst kemur til með að bitna harðast á efnalitlum barnafjölskyldum.

Hæstv. félmrh. sagði í ræðu á Alþ. s.l. föstudag, að í tíð núv. ríkisstj. hefði byggingarkostnaður hækkað um, að mig minnir, 25%. Taldi ráðh. þá hækkun mun minni en þá hækkun, sem orðið hefði í tíð vinstri stjórnarinnar. Hæstv. ráðh. var nú náttúrlega stuðningsmaður þeirrar ríkisstj. og ber því að sjálfsögðu að sínum hluta ábyrgð á þeirri hækkun, sem þá kann að hafa orðið á húsbyggingarkostnaði. En þessi sami hæstv. ráðh. er nú í ríkisstj., og ekki verður annað séð en hann hafi með atkv. sínu hér á Alþingi með ráðnum hug unnið að því, að allur byggingarkostnaður hafi haldið áfram að hækka ár frá ári og það mjög ört. Ég veit ekki betur en þessi sami hæstv. ráðh. hafi stutt í einu og öllu að stórfelldri gengislækkun, ekki einu sinni, heldur tvisvar. Gengisfellingin, sem framkvæmd var í febrúar 1960, hækkaði vitanlega allan byggingarkostnað stórkostlega — um það þarf ekki að deila — frá því, sem áður hafði verið. En það hefur hæstv. ráðh. ekki fundizt nægilega mikil hækkun, því að í ágúst í sumar var enn framkvæmd stórfelld gengislækkun með hans samþykki, sem vitanlega hækkaði allan byggingarkostnað um svo og svo mörg prósent.

Þessi sami hæstv. ráðh. vildi álíta, að kaupgjaldshækkanir hefðu orðið þess valdandi, að byggingarkostnaður hefði hækkað. Ég veit ekki, hvað hæstv. ráðh. hefur meint með slíkum fullyrðingum. Ég vil leyfa mér að benda honum á, að með gengisfellingarlögunum í sumar voru allar kauphækkanir, sem um hafði verið samið eftir langvarandi verkfall, m.a. vegna fjandskapar ríkisstj. gagnvart verkalýðssamtökunum, að engu gerðar. Þá má og benda á, að kaupmáttur launanna er mun minni nú en hann var í tíð vinstri stjórnarinnar. Fyrir aðgerðir núv. hæstv. ríkisstj. og fyrrv., þ.e. ríkisstj. Alþfl., hafa lífskjör fólksins í landinu stöðugt verið að versna og hafa máske aldrei verið verri í tugi ára en þau eru nú. Þetta eru óhrekjandi staðreyndir, sem langflestir viðurkenna, nema máske hæstv. ráðherrar.

Ég sá það í einu af dagblöðunum núna nýverið, — ég held, að það hafi verið í Þjóðviljanum, — að hæstv. menntmrh. hafi í blaðaviðtali utanlands skýrt frá því, að ríkisstj. Íslands hefði á einni nóttu tekið allar kauphækkanirnar, sem urðu í vor, með því að lækka gengið um það, sem hækkunin nam. Orðrétt sagði ráðh.:

„Við brugðum skjótt við, á einni nóttu og fyrirvaralaust lækkaði ríkisstjórnin gengi gjaldmiðilsins um 13%, og sviptum þannig verkalýðsfélögin öllu nema 3% kauphækkun.“

En ég vil spyrja: Hvaða 3% voru skilin eftir? Var ekki með gengisfellingunni í sumar öll kauphækkunin tekin aftur og ríflega það? Ég held, að svo hafi verið. Segi menn svo, að hæstv. ríkisstj. geti ekki sýnt af sér skörungsskap, þegar hún vill það við hafa.

Hæstv. félmrh. vildi halda því fram, að lítið sem ekkert hefði dregið úr íbúðarhúsabyggingum í tíð núv. ríkisstj. Manni gat helzt skilizt, að öll þessi mál væru í stakasta lagi, þar væri ekki um neitt að sakast. Eftir því sem hér var upplýst á fundi s.l. föstudag af hv. 4. þm. Reykn., voru árið 1961, fyrsta ár hinnar svokölluðu viðreisnar, þar sem áhrifa viðreisnarinnar gætti að fullu, byrjað á um 1000 færri íbúðarbyggingum en árið 1956. Hæstv. félmrh, mótmælti þessu ekki, ekki þessum tölum, sem þm. kom með. Menn geta svo velt því fyrir sér, hver á sinn hátt, hvort allt sé í lagi í þessum málum, þegar um jafnstórfelldan samdrátt er að ræða í íbúðarhúsabyggingum og hér hefur verið bent á.

Nei, sannleikurinn er sá, að húsnæðisbyggingarmálið er allt komið í kreppu og vandræði. Á þessu ófremdarástandi fæst engin bót, nema gerðar séu róttækar ráðstafanir til úrbóta. Frv. okkar Alþýðubandalagsmanna er mjög stórt skref í rétta átt. Hitt dylst sjálfsagt fáum, að frekari aðgerða er þörf, og að því ber að stefna, að svo verði gert sem allra fyrst. Ekki verður um það deilt, að það fé, sem húsnæðismálastjórn hefur til útlána til íbúðarhúsabygginga ár hvert, er engan veginn nægjanlegt til þess að fullnægja eftirspurn eftir lánunum. Árið 1960 munu hafa verið veittar til íbúðarhúsabygginga rúmar 70 millj. kr., 1961 lækkar þessi upphæð niður í rúmar 60 millj. Ég vil þó taka það fram, að þessar tölur eru ekki alveg endanlegar, getur skakkað einhverjum hundruðum þúsunda til eða frá, sem skipta ekki mjög miklu máli. Í tíð vinstri stjórnarinnar voru veittar árlega yfir 50 millj. kr. í sama skyni. Síðan hafa verið framkvæmdar tvennar gengislækkanir, sem að sjálfsögðu hafa hækkað allan byggingarkostnað stórlega frá því, sem áður var. Þessi samanburður er því mjög óhagstæður fyrir hæstv. ríkisstj. og sýnir, svo að ekki verður um villzt, stórkostlegan samdrátt í lánveitingum til íbúðarhúsabygginga, miðað við verðlag, eins og það e,r nú. Jafnvel þótt hækkað verði lán út á hverja meðalíbúð um 50 þús. kr., eins og nú er talað um að verði gert, er sú hækkun engan veginn nægjanleg til að mæta þeim miklu hækkunum, sem orðið hafa á öllum byggingarkostnaði í tíð núverandi ríkisstj., — hækkun, sem beinlínis er að sliga allar framkvæmdir og allt athafnalíf landsins.

Menn ræða oft um mikinn fjárskort og að þetta og hitt sé ekki hægt að gera, vegna þess að ekki séu til peningar. Sjálfsagt er eitthvað til í því, að þjóð eins og Íslendingar, sem hafa þurft að byggja upp land sitt að mestu leyti á tiltölulega stuttum tíma, vanti fjármagn. Hinu verður þó ekki á móti mælt, að Íslendingar hafa á síðari árum haft yfir að ráða geysilega miklum fjármunum, sem aflað hefur verið af landsmönnum sjálfum gegnum sjávarútveg, landbúnað, iðnað, siglingar o.fl. Auk þess hafa svo verið tekin mörg mjög stór erlend lán til ýmissa framkvæmda. Um það má sjálfsagt deila, hvernig þessum miklu fjármunum hefur verið varið, og það, hvort ekki hefði verið ástæða til, að einhverjum hluta af t.d. hinum svokölluðu vörukaupalánum hefði verið varið til lána til íbúðarhúsabygginga. Það hefur bara ekki verið gert. Þeim fjármunum öllum hefur verið varið til annarra framkvæmda, sem ég út af fyrir sig skal ekki vera að hafa á móti. Við vitum það, að slíkar framkvæmdir eru allar nauðsynlegar. En hinu vil ég halda fram, að vel hefði mátt láta einhverja upphæð af hinum stóru vörukaupalánum, sem hafa verið tekin, ganga til íbúðarhúsabygginga, en það hefur ekki verið gert.

Húsnæðisvandamálið virðist enn þá vera að mestu leyti óleyst. Enn þá búa hundruð og jafnvel þúsundir Íslendinga í óhæfu húsnæði, og fátt bendir til þess, að úr þessu ástandi rakni nú á næstunni, því miður. Þeir menn, sem vilja halda við því ástandi, sem nú er í húsnæðismálum Íslendinga, taka á sig að mínum dómi mjög mikla ábyrgð gagnvart því fólki, ungu sem gömlu, sem nú býr við heilsuspillandi húsnæði og sér enga leið út úr vandræðunum, treystir sér ekki og getur ekki vegna fátæktar eignazt þak yfir fjölskyldu sína. Og gagnvart þeim mörgu, sem hafa staðið og standa enn í húsbyggingum, en sjá máske enga leið til að halda íbúðinni sinni áfram vegna fjárskorts, vegna hraðvaxandi verðbólgu og dýrtíðar, vegna ört minnkandi kaupgetu alls almennings, — fyrir slíkt fólk eru hástemmdar lofræður um ágæti viðreisnarstefnu núv. ríkisstj. jafnhliða hæfilegum skömmum um vinstri stjórnina frekar lélegar úrbætur á því ástandi, sem nú er og allur almenningur stynur undir. Nei, sannleikurinn er sá, að ástandið í þessum málum er óþolandi, og stefnir til hreinna vandræða, ef ekkert raunhæft verður að gert. En því miður er ég vantrúaður á það, að núv. hæstv. ríkisstj. og þeir flokkar, sem að henni standa, hafi þá víðsýni til að bera, sem til þess þarf að koma húsnæðismálum þjóðarinnar í viðunandi horf. Til þess benda allar aðgerðir þeirra í þessum málum, og til þess m.a. bendir sú afstaða, sem meiri hl. hv. félmn. hefur tekið í þessu máli, þar sem lagt er til, að frv. okkar Alþýðuhandalagsmanna um þessi mál verði fellt.