06.03.1962
Neðri deild: 60. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (2544)

81. mál, húsnæðismálastofnun

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Í þeim umr., sem hér fóru fram síðast, þegar þetta mál var til umr., kom það fram, að stjórnarandstaðan vildi láta líta svo út, að hækkun byggingarkostnaðar, sem orðið hefur hin síðustu ár og væri fyrst og fremst, ef ekki eingöngu, viðreisnaraðgerðum ríkisstj. að kenna, hefði valdið samdrætti í byggingarframkvæmdum. Það gaf mér tilefni til þess að segja hér nokkur orð og bera saman hækkun byggingarkostnaðar, sem orðið hefur s.l. 3 ár, og svo þá hækkun byggingarkostnaðar, sem varð þau tvö árin, sem vinstri stjórnin sat að völdum. Þessi samanburður leiddi til þess alveg ótvirætt, hverju sem hv. 4. þm. Reykn. kann að halda öðru fram í því efni, að árleg byggingarkostnaðarhækkun hafði orðið meiri á tímum vinstri stjórnarinnar en hún hafði orðið á þessum 3 s.l. árum, sem skýrslur Fjármálatíðinda ná til, eða með öðrum orðum, hækkunin á vísitölu byggingarkostnaðar frá febrúar 1957 til október 1958 hafði orðið 21 stig, úr 113 í 134, en á árunum frá febrúar 1959 til október 1961, eða í 3 ár, hafði hækkunin orðið 35 stig. Þessu held ég að sé undir engum kringumstæðum hægt að hnekkja, því að þetta eru vísitölur reiknaðar út af hlutlausum aðila, hagstofunni, og birtar bæði í Fjármálatíðindum og eins í Hagtíðindum, svo að það fer ekki á milli mála, hver þessi hækkun hefur orðið. Það má náttúrlega með því að taka einstök tímabil og einstakar byggingar e.t.v. finna út einhver smávegis frávik frá þessum tölum, en þetta er heildarmyndin, sem verður ekki breytt.

Það var líka nokkuð ofarlega á baugi hjá þessum hv. þm., sem þessa skoðun höfðu, að allt illt í byggingarmálunum væri viðreisnaraðgerðum ríkisstj. að kenna, að fækkunin í nýbyggingum væri líka af þessum rótum runnin. Ég benti á í því sambandi og notaði þar tölur, sem hv. 4. þm. Reykn. nefndi sjálfur, að fækkunin frá 1956 til 1958 er mjög svipuð, að vísu aðeins minni en hún hefur orðið á tímabilinu frá 1958 til 1960. Í öðru tilfellinu er hún eitthvað á fjórða hundrað, en í hinu tilfellinu er hún rétt um eða rúm 400, þannig að það getur a.m.k. ekki verið viðreisnaraðgerðum ríkisstj. að kenna, sú fækkun, sem varð á hinu fyrra tveggja ára tímabili.

Það er ekki hægt að búast við því, að fjöldi bygginga sé jafn frá ári til árs, ekki fullkomlega jafn, og það geta verið tímabil, þar sem byggt er minna í einn tíma heldur en annan. Þess vegna er engin ástæða til þess að ætla, að það sé ein ástæða fyrir því frekar en önnur, að svo verður. Ég held, að þó að byggingarkostnaður hafi hækkað verulega á þessum síðustu þrem árum, þá hafi hann ekki hækkað eins mikið og á tímum vinstri stjórnarinnar. Aðrar ástæður koma til greina, eins og ég líka nefndi, eins og t.d. sú, að menn flýja ekki með fé sitt nú í byggingar í sama mæli og áður, vegna þess að þeir telja eins gott að eiga féð og að eiga hús eða aðra fasteign.

Þá minntist ég líka á, að hækkun lánveitinga til íbúðahúsabygginga er sennilega það, sem mest sker úr, hvort hægt sé að hafa þessa starfsemi um hönd á nokkurn veginn eðlilegan hátt eða ekki. Og ég minntist í því sambandi á, að mjög fljótlega eftir að lögin voru upphaflega sett um húsnæðismálastjórn, þá var lán til húsbyggjanda lækkað úr 100 þús. kr. og niður í 70 þús. kr., enda þótt nokkur lán megi sjálfsagt finna, eins og hv, þm. sagði, sem náðu þessu 100 þús. kr. marki, sem lögin gera ráð fyrir. En það breytir ekki hinu, að mjög verulegur hluti af þessum lánum var ekki veittur nema upp að 70 þús. kr. markinu, eða 80 þús. kr. lægri en lögin gerðu ráð fyrir. Þess vegna taldi ég það ekki óeðlilegt að segja, að lánveitingarnar frá því marki hefðu í tíð þessarar ríkisstj., miðað við núv. frv., sem fyrir liggur um þetta efni, hækkað um 80 þús. kr. Ef frv., sem nú liggur fyrir hv. Ed., verður samþykkt og lánin hækka úr 100 þús. kr. og upp í 150 þús. kr., þá er sú hækkun raunverulega ekki úr 100 þús. kr., heldur úr 70 þús. kr.

En allt veltur vitaskuld á því, að fé takist að útvega til þess að geta veitt þessi 150 þús. kr. lán. Ég skal á þessu stigi ekkert fullyrða um, hvort það tekst. En ég man eftir, að þessi sami hv. þm. hefur einu sinni haldið því fram hér, að lánveitingarnar 1960 mundu hafa verið öllu minni en þær urðu í raun, aðeins vegna þess, að þá var flutt á milli ára yfir áramót. En ég vil þó halda því fram, að þessi 2 síðustu ár hafi framlögin til húsnæðismálalána verið verulega hærri en þau voru áður, og enn vonast ríkisstj. til þess að geta hækkað þau, þannig að við þessar viðmiðunartölur megi búast við að hægt verði að starfa. En á þessu tvennu, á lánsupphæðinni og lánskjörunum, veltur það raunverulega alveg, hvað hægt verður að gera í þessu máli. Ég lýsti því líka yfir hér áður, að ég vonaðist til þess, að hægt yrði að lækka vexti húsnæðismálastofnunarinnar meira en þegar hefur verið gert og að hægt verði að koma heim a.m.k. á svipaðan grundvöll og áður var. En hvort það verður hægt að gera það alveg á næstunni eða innan tiltölulega stutts tíma, skal ég ekkert fullyrða um. Það verður að metast eftir því almenna efnahagsástandi, sem í landinu verður á hverjum tíma.

Ég held þess vegna, að það verði að lesa þær skýrslur, sem fyrir liggja, á svolítið annan hátt en bæði þessi hv. þingmaður, sem ég nefndi, hv. 4. þm. Reykn., og raunar aðrir hv. fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa gert. Það verður að lesa þær með hliðsjón af því ástandi, sem á hverjum tíma hefur verið, og það má ekki reyna að draga út úr þeim fyrir fram ákveðnar niðurstöður eða til stuðnings fyrir fram ákveðnum skoðunum, því að það er svo margt, er inn í þessi mál grípur, og margt, sem hefur áhrif á þau. Og ég held, að fyrir þessum málum verði ekki vel séð, fyrr en nokkurn veginn er hægt að tryggja það, að hægt verði að mæta lánsfjáreftirspurninni, en slíkt fjármagn hefur ekki verið fyrir hendi enn. En ég vildi trúa því á þessu stigi a.m.k., að það verði hægara nú að eiga við þá hluti, þegar sparifjáraukning landsmanna í heild hefur verið jafnör og gengið jafngreiðlega og hún hefur gert upp á siðkastið, því að það er ekki óeðlileg krafa, að verulegur hluti af sparisjóðsaukningunni á hverjum tíma fari einmitt til húsnæðismála.