06.11.1961
Neðri deild: 13. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (2587)

25. mál, almannatryggingar

Flm. (Geir Gunnarsson):

Hæstv. forseti. Svo sem fram kemur í grg. með frv. því, sem hér er til umr., var það flutt á siðasta þingi, en það varð þá ekki útrætt. 1. gr. frv. er svo hljóðandi:

„Við 38. gr. laganna (þ.e.a.s. laga um almannatryggingar) bætist:

Um sjómenn gilda svo hljóðandi sérákvæði: Sérhver skipverji, sem starfar á íslenzku skipi, er tryggður gegn öllum slysum, hvort heldur þau verða um borð í skipi eða í landi, fyrir 200 þús. kr., miðað við fulla örorku. Upphæðin greiðist aðstandendum hlutaðeigandi skipverja, ef hann deyr, en honum sjálfum, ef hann verður óvinnufær að dómi læknis. Trygging þessi skerðir ekki rétt skipverja til greiðslu úr lífeyrissjóði sjómanna. Kostnaður af sértryggingar þessari greiðist að hálfu af almannatryggingum og að hálfu af útgerðarmönnum samkvæmt reglugerð, er félmrh. setur að fengnum tiltögum tryggingaráðs.“

Við 1. umr. um frv. þetta á síðasta þingi gerði ég grein fyrir þessu máli og tel ekki þörf á að endurtaka það, sem þá var rakið því til stuðnings, en vil þó fara um að nokkrum orðum.

Í kjaradeilu sjómanna á vélbátaflotanum s.l. vetur gerðu sjómenn kröfu til þess, að þeim yrðu tryggðar 200 þús. kr. bætur vegna fullrar örorku eða dauðaslysa umfram bætur almannatrygginganna. Þessa sértryggingu höfðu þá ýmis önnur samtök sjómanna fengið með kjarasamningum. Í kjaradeilu sjómanna á vélbátaflotanum sömdu ýmis sjómannafélög án þess að fá fram ákvæði í samningum um sértryggingu þessa, en önnur höfðu sigur í málinu eftir nokkurt verkfall. Þess vegna er svo háttað um líftryggingu sjómanna í dag, að sumir þeirra hljóta 200 þús. kr. sértryggingar, en aðrir ekki.

Naumast ætti að þurfa að færa fram rök fyrir því, að sanngjarnt er, að sjómenn njóti sérstakrar líftryggingar fram yfir aðra landsmenn. Allir landsmenn eiga afkomu sína og lífskjör undir starfi hinna tiltölulega fáu sjómanna. Lífsafkoma þjóðarinnar, allt, sem landsbúar geta veitt sér, en sjómenn þó minnst notið, er háð því, að einhverjir og nægilega margir þegnar þjóðfélagsins fáist til þess að hætta lífi sínu og limum við sjósókn. Öll þjóðin nýtur þeirra verðmæta, sem sjómenn afla í þjóðarbúið, og sú þjóð, sem þannig nýtur starfa þessara manna, á sem heild að tryggja það, að fjölskyldur, sem eiga fyrirvinnu sína á sjónum, búi a.m.k. við nokkra fjárhagslega tryggingu, ef sjósóknin kostar þá fyrirvinnu lífið. Það er í rauninni hið allra minnsta, sem hægt er að ætlast til.

Hætturnar sjálfar, sem starfi sjómanna fylgja, er ógerlegt að koma með öllu í veg fyrir. Við vitum það öll, sem fasta landið höfum undir fótum, ekki síður en sjómenn sjálfir, að í byrjun hverrar vertíðar er það fyrir fram líklegast, að hin harða og óhjákvæmilega sjósókn kosti mannslíf. Þessi yfirvofandi hætta verður þó ekki til þess, að sjómenn dragi sig í hlé og hverfi til áhættuminni starfa í landi. En vegna hennar hafa þeir orðið að taka upp baráttu fyrir því, að fjölskyldur þeirra hljóti a.m.k. nokkrar fjárhagsbætur, ef illa fer, svo að slysin kalli ekki auk alls annars yfir fjölskyldur þeirra algert öryggisleysi og fjárhagsvandræði.

Aukinni áhættu er mætt með aukinni tryggingu. Um það höfum við dæmi, svo sem bent er á í grg. þessa frv. Þegar menn leggja upp í ferðalög, sem talið er að fylgi einhver slysahætta, kaupa þeir sér gjarnan sérstaka háa ferðatryggingu, og hinni sérstöku hættu, sem sjómönnum er stofnað í, á auk slysavarna að mæta með sérstakri slysatryggingu. En er það sæmandi þjóðfélagi, sem allt byggir á hinu áhættusama starfi sjómanna, að þeir skuli sjálfir þurfa að heyja baráttu fyrir sérstakri fjárhagstryggingu þeirra fjölskyldna, sem gjalda sjósóknina með mannslífum?

Það er leitt til þess að vita, að störf sjómanna skuli enn ekki vera metin meira en það, að fyrir líftryggingu þeirra er ekki betur séð en svo, að verulegur hluti sjómanna á vélbátaflotanum nýtur engrar sértryggingar og sú trygging, sem aðrir sjómenn hafa þó sjálfir náð fram, styðst aðeins við ákvæði í uppsegjanlegum kjarasamningum. Og þar sem kjarasamningar sjómannafélaga ná ekki til sjómanna á bátunum undir 12 tonnum að stærð, fæst sértrygging sjómanna, sem á þeim vinna, ekki fram á þann hátt, og er lífshættan á þeim þó ekki minnst. Það er fráleitara en svo, að um þurfi að ræða, að upphæð fjárbóta til þeirra, sem fyrir hörmulegum áföllum verða við sjóslys, skuli vera háð því, á hvaða báti fyrirvinnan hefur verið, og bætur til sumra aðstandenda sjómanna skuli ekki vera nema þriðjungur af því, sem aðrir fá. Þess eru jafnvel dæmi, að sjómenn njóta á sama bátnum sértryggingar á dragnótaveiðum, en ekki á öðrum veiðum. Allt er þetta fyrirkomulag óréttlátt og til vansæmdar og kominn tími til þess, að lögfest verði sérstök líftrygging til allra sjómanna. Upphæð bótanna, 200 þús. kr., er í frv. þessu hin sama og um er að ræða í kjarasamningum sjómannafélaga. Sú upphæð er þó sannarlega lægri en vera bæri, naumast hálft íbúðarverð og nú þegar verðminni en þegar frv. var flutt s.l. vetur.

Síðan frv. þetta var flutt á síðasta þingi, hafa orðið mörg hryllileg slys á sjónum, slys, sem hafa rækilega sannað nauðsyn lagasetningar um líftryggingu fyrir alla sjómenn, þar sem fyrir suma, sem farizt hafa, eru aðeins greiddar 90 þús. kr. bætur úr almannatryggingunum, en aðra þó 290 þús. kr. vegna sértryggingarinnar.

Afleiðingar þess, að máli þessu var ekki tryggður framgangur á síðasta þingi, bitna nú á ýmsum sjómannafjölskyldum, og ég vildi mega vænta þess, að ef sú hv. n., sem um frv. þetta fjallar, leggur til, að það verði samþykkt í einni eða annarri mynd, þá verði bæturnar látnar ná aftur til síðustu vertíðarbyrjunar, þannig að bætur verði greiddar vegna þeirra slysa, sem orðið hafa eftir 1. jan. 1961 og ekki eru bætt með öðrum sértryggingum samkv. kjarasamningum sjómannafélaga.

Það er sannarlega ekki sæmandi þeim, sem njóta starfa sjómanna, að láta þá þurfa sjálfa með styrk stéttarsamtaka sinna að berjast fyrir sjálfsögðum réttindum. Ekki bætir það hlut landsmanna gagnvart þeim sjómönnum, sem njóta ekki sértryggingar, þ.e.a.s. hásetum á nokkrum hluta vélbátaflotans, ef frv. um úrbætur í þessu efni á að þurfa að bera fram á mörgum þingum. Þess vegna leyfi ég mér að vænta þess, að mál þetta nái fram að ganga á þessu þingi í einni eða annarri mynd og það fyrir næstu vetrarvertíð. Til þess er nægur tími.

Ég vil á sama hátt og er frv. þetta var áður flutt leggja áherzlu á, að það fyrirkomulag, sem hér er lagt til að viðhaft verði um sértryggingar sjómanna, er okkur flm. ekkert aðalatriði. Hver skynsamleg tillaga til bóta í því efni er þakkarverð. Aðalatriðið er, að á þessu þingi og helzt fyrir næstu áramót verði lögfest sérstök líftrygging fyrir alla sjómenn, ekki lægri en 200 þús. kr. Sú upphæð er að vísu of lág, en væri þó mikils virði.

Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.